Við rjúfum fréttaflutning af æsispennandi Eurovisionframlögum þvers og kurs um Evrópu fyrir mikilvæga tilkynningu frá siglinganefnd FÁSES til allra Júróvisjóndáta nær og fjær.
FÁSES í samstarfi við Pink Iceland, Eldingu og Saga Events kynnir: Júrókrúsið: Bátur&Bryggja
Já þið heyrðuð rétt! Fyrirpartý FÁSES fyrir úrslit Söngvakeppninnar 12. mars nk. verður Eurovision bátsferð að hætti góðra vina okkar í OGAE Finland. Fyrir þá sem ekki þekkja til skipuleggur finnski Eurovisionklúbburinn í ágúst á hverju ári Eurovision cruise frá Helsinki til Tallinn þar sem heil helgi er undirlögð júróskemmtanahaldi til sjós. Í hinu alíslenska júrókrúsi verður lagt úr Reykjavíkurhöfn kl. 17 á laugardaginn með hvalaskoðunarskipinu Eldey og siglt um sundin blá yfir í Söngvakeppnishöllina í Gufunesi í tæka tíð fyrir úrslitin. Til að tryggja hina einu og sönnu júróskemmtun hefur FÁSES ráðið til sjós skemmtiskipstjórann, fjöllistadísina og Eurovisionaðdáandann Margréti Erlu Maack (engar áhyggjur, það verður líka alvöru skipstjóri með skipstjórnarréttindi um borð). Athugið að áfengissala verður um borð fyrir þá sem ekki hanga á snúrunni eftir veirufaraldurinn en veitingasala er ekki til staðar. Þeir gestir á Júrókrúsinu sem eiga ekki miða á úrslitin geta siglt til baka í gömlu höfnina og horft á úrslit Söngvakeppninnar á Bryggjunni Steikhús.
Að Söngvakeppninni lokinni verður áhöfnin á Júrókrús, liðléttingar, dátar og aðrir farþegar, ferjuð í langferðabíl frá Söngvakeppnishöllinni niður á Bryggjuna Steikhús þar sem Júróklúbburinn, eftirpartý FÁSES, verður haldinn. Smáa letrið: Langferðabíllinn er eingöngu fyrir miðahafa Júrókrúsins. Á Júróklúbbnum mun DJ Early þrykkja Eurovisionlögum á fóninn því hvern annan getum við fengið sem plötusnúð en Erlu JónatansGarðars, fyrrum formanns íslensku sendinefndarinnar til fjölda ára. Lítill fugl hvíslaði því líka að siglinganefndinni að það væri aldrei að vita nema nokkrar Söngvakeppnisstjörnur líti við og heiðri júróvisjóndáta með nærveru sinni.
Verð fyrir FÁSES-liða: 3.000 kr. (innifalið sigling í Gufunes, skemmtun um borð og rúta á Bryggjuna)
Þar sem FÁSES niðurgreiðir kostnað við fyrirpartýið verður félagatal borið saman við lista yfir miðakaupendur.
Verð fyrir aðra: 5.500 kr. (innifalið sigling í Gufunes, skemmtun um borð og rúta á Bryggjuna)
Endilega fylgist með helstu tíðindum af viðburðunum á Facebook: JúróKrúsið og Júróklúbburinn.
Vegna aðstæðna í Gufunesi og við Söngvakeppnishöllina mælum við með að Júróvisjóndátar komi vel skóaðir og klæddir eftir veðri.
Vinsamlegast athugið að Júrókrúsið er ekki barnvænn viðburður.