Hinn rúmenski WRS mætir dansandi til Tórínó


Lokakvöld rúmensku söngvakeppninnar Selecția Națională var haldin í Studio Pangrati í Búkarest laugardagskvöldið 5. mars. Kynnar voru  Eda Marcus, Aurelian Temișan, Bogdan Stănescu og Ilinca Băcilă sem jóðlaði á sviðinu í Kyiv árið 2017 sællar minningar. Dómnefnd hafði 83% vægi á móti 17% vægi símakosningar. Forval hafði farið fram 9. og 10. febrúar og undankeppni var haldin 12. febrúar þar sem tíu lög komust áfram á úrslitakvöldið.

Kvöldið var heldur betur Eurovisionstjörnum prýtt. Fram komu nokkrir af listamönnunum sem keppa í ár, Intelligent Music Project frá Búlgaríu, Zdob și Zdub ásamt Frații Advahov frá Moldóvu, Vladana frá Svartfjallalandi, Ronela Hajati frá Albaníu, We Are Domi frá Tékklandi, Andrea frá Norður-Makedóníu og hinn eistneski Stefan. Aðaldrottningin var svo hin úkraínska Jamala sem sigraði Eurovision árið 2016 og tók lagið sitt 1944.

Í þriðja sæti varð Dora Gaitanovici ásamt hljómsveit með lagið Ana. Lagið er þjóðlegt og um leið dramatískt. Dora tók einnig þátt í Selecția Națională árið 2018 og lenti þá í 6. sæti. Henni hafði verið spáð sigri í ár, en þriðja sætið varð semsagt niðurstaðan.

Hinn írskættaði Kyrie Mendél hreppti annað sætið með píanóballöðuna Hurricane. Kyrie fékk lítið píanó í jólagjöf þegar hann var 11 ára og þar með voru örlög hans ráðin. Írsku ballöðuáhrifin eru  áberandi í laginu. Í viðtali segir Kyrie Amar Pelos Dois sé uppáhalds Eurovision lagið hans.

Sigurvegari Selecția Națională  og fulltrúi Rúmena í Eurovision 2022 kallar sig WRS og lagið hans er Llámame sem þýðir Hringdu í mig. WRS  eða Andrei-Ionuț Ursu  eins og hann heitir í raun er fæddur í Buzău í Suð-Austur Rúmeníu 16. janúar 1993. WRS hóf ferilinn sem dansari og nýtir hann sannarlega danshæfileikana í atriðinu. Tónlistarferill WRS hófst svo árið 2015 þegar hann var hluti af strákabandinu SHOT. Tveimur árum síðar flutti hann til London og hóf sólóferilinn, bæði sem söngvari og lagahöfundur. Fyrsta lagið sitt Why gaf hann út í upphafi árs 2020 og hafa þau verið þónokkur síðan. Llámame er sannarlega danssmellur og þjóðlegu áhrifin eru einnig mjög áberandi og fara vel við rödd WRS.

Besti árangur Rúmena í Eurovision er þriðja sætið sem þeir náðu bæði 2005 og 2010. Þeir hafa hins vegar ekki komist upp úr forkeppninni síðan árið 2017 og verður spennandi að sjá hvernig Evrópubúar taka þessum þjóðlega danssmell.