Fjórðu þáttaröð X Factor Israel lauk í gær þegar hinn 25 ára Michael Ben David sigraði keppnina með kankvísum sjálfsástaróð, samsettum af sál, sveittum dansi, fingursmellum og falsettu – og jafnvel smá bragði af Haffa Haff. X Factor Israel var einnig forkeppni Ísraela fyrir Eurovision og fer Ben David því alla leið til Tórínó, rétt eins og hann er, með lagið I.M.
Michael þurfti að leggja marga að velli áður en þessi niðurstaða náðist, þar af allmarga sem voru þegar þekktir í ísraelsku dægurlífi. Má þar nefna keppendurna þrjá sem hann mætti í úrslitunum, Sapir sem sigraði fjórðu útgáfu The Voice í Ísrael 2017 og Eli Huli, sem lenti í öðru sæti í sömu keppni, en einnig Inbal Bibi sem lenti í 5. sæti í fyrstu útgáfu af X-Factor í Ísrael árið 2014.
Áheyrnarprufur voru vel sóttar en að þeim loknum voru það 33 keppendur sem komust áfram og fengu handleiðslu frá dómurunum fimm, í samræmi við hefðbundið fyrirkomulag X Factor. Á meðal dómara og lærimeistara var engin önnur en Netta, sigurvegari Eurovision 2018, og tók hún að sér að þjálfa strákana, enda öllum ljóst að hún kann að leggja karlpeningnum línurnar.
Vikurnar liðu og keppendum fækkaði, en þegar fjórir voru eftir þá fékk hver og einn keppandi úthlutað tveimur lögum sem valin höfðu verið úr innsendum framlögum. Áhorfendur fengu svo það hlutverk að velja hvort þessara tveggja laga yrði framlag hvers og eins flytjanda í Eurovision ef viðkomandi stæði uppi sem sigurvegari.
Á úrslitakvöldinu hófst keppnin með tveimur einvígum þar sem keppendur fluttu ábreiðu af lagi að eigin vali. Áhorfendur höfðu mest um úrslitin að segja, réðu yfir helmingi stiga, en dómarahópurinn og valnefnd réðu yfir fjórðungi stiga hvor.
Í fyrsta einvíginu mættust Inbal Bibi og Michael Ben David. Michael söng lagið Shnei Meshug’aim en Bibi flutti The Winner Takes it All, sem varð spádómur sem rættist um Michael Ben Davi. Lagði hann Bibi örugglega í einvíginu.
Sapir Saban mætti síðar Eli Huli og söng lagið Badad en Huli tók lagið I‘ll Be There For You sem við þekkjum úr Friends-þáttunum. Huli sigraði það einvígi og þar með voru hann og Michael Ben David öruggir um sæti í lokaumferð.
Að því loknu fengu þær Inbal Bibi og Sapir Saban að berjast um þriðja plássið í lokaumferðinni með því að flytja Eurovision-framlögin sín. Það var sú síðarnefnda sem hafði betur með laginu Marionette en Sapir Saban braut sér endanlega leið út úr keppninni með laginu Breaking My Own Walls.
Því næst fluttu þeir Eli Huli og Michael Ben David sín Eurovisin-framlög, sá fyrrnefndi lag sem bar heitið Blinded Dreamers og Ben David lagið I.M. Þar með höfðu öll hugsanleg Eurovision-framlögin verið flutt og við tók atkvæðagreiðsla.
Það fór raunar svo að Eli Huli hlaut flest stig frá bæði dómurunum og valnefndinni, og Michael Ben David næstflest. Því var hins vegar öfugt farið hjá áhorfendum sem settu Michael örugglega í fyrsta sæti og lokaniðurstaðan varð að hann sigraði Eli Huli með einungis einu stigi; fékk 214 stig en Eli Huli 213. Inbal Bibi rak lestina með 173 stigum.
Af keppendunum fjórum á úrslitakvöldinu var Ben David sá eini sem aldrei hafði komist nærri því að falla úr keppni. En þótt leið hans á þennan topp hafi gengið greiðlega þá hefur hann ekki alltaf átt auðvelt uppdráttar. Hann hefur talað opinskátt um þá erfiðleika sem hann glímdi við í barnæsku sinni í úthverfi Tel Aviv. Var hann lagður í einelti og strítt fyrir háa söngrödd en þar að auki gekk hann í gegnum erfitt tímabil þegar móður hans gekk illa að sætta sig við að hann væri samkynhneigður. Ben David er þó augljóslega risinn úr öskunni, sterkari en nokkru sinni fyrr. Lagið I.M. er að hans sögn óður til sjálfssáttar og sjálfsástar og hvernig sem honum vegnar má gera að því skóna að mörgum dansskóm verði slitið á Euroclub við tóna Ben David!
Ísrael á fjóra sigra í Eurovision að baki (A-Ba-Ni-Bi frá 1978, Hallelujah frá 1979, Diva frá 1998 og Toy frá 2018) og er landið þar með sjöunda sigursælasta landið í Eurovision. Með einum sigri í viðbót myndi Ísrael deila þriðja sætinu með Bretlandi, Frakklandi, Hollandi og Lúxemborg. Hvort Michael Ben David er maðurinn sem lyftir Ísrael á æðra stig í þessum málum mun tíminn leiða í ljós.