Destiny Chukunyere ætlar alla leið með “Je me casse” fyrir Möltu.


Litla og krúttlega eyríkið Malta hefur löngum verið í uppáhaldi hjá mörgum Eurovision aðdáendum og ekki síst eftir að fyrrum sigurvegari Junior Eurovision, söngkonan Destiny Chukunyere varð loksins nógu gömul til að mega taka þátt í “fullorðinskeppninni” en stelpan sú er alveg hreint mögnuð! Og nú ÆTLAR hún að negla niður fyrsta sigur Möltu í keppninni, hvað sem tautar og raular.

Þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gömul og næstyngsti keppandinn í ár (aðeins Stefania frá Grikklandi er yngri sem nemur rúmum mánuði) er Destiny nú þegar orðin ein af fremstu söngkonum Möltu og er hvergi nærri hætt á framabrautinni sem hófst með sigri hennar í Junior Eurovision árið 2015, þegar hún var aðeins 12 ára gömul. Næst lét hún að sér kveða í Tel Aviv, þegar hún var í bakröddum hjá Michaelu Pace, og í fyrra var loksins, loksins komið að henni að vera í aðalhlutverki í sálarskotna popplaginu “All of my love”, sem spáð var góðu gengi og sló í gegn hjá aðdáendum víða um heim. Og þau eru ekkert síðri viðbrögðin við “Je me casse”, sem gjörsamlega rýkur upp listana og Möltubúar eru núna farnir að gjóa augunum vongóðir á fyrsta sætið.

Þegar þetta er skrifað, er ekkert ósennilegt að sigur verði niðurstaðan fyrir Möltu, enda situr Destiny sem fastast í öðru sæti í veðbönkum, næst á eftir Sviss, með lagið sitt “Je me casse”, sem er franskt slangur og mætti þýða sem: “Ókei, ég er farin!” og er hreinræktaður óður til valdeflingar kvenna, enda fjallar textinn um ónefnda konu sem er alveg búin að fá upp í kok af ræfilskærastanum sem kemur skríðandi með einhverjar ömurlegar afsakanir og notar allar klisjur í bókinni til að vinna ástir hennar aftur, en hún afþakkar pent, setur sjálfa sig í forgang og segir honum að d****a sér. “Þetta lag er tileinkað öllum þeim konum sem finnst þær vera settar til hliðar. En við getum sko alveg séð um okkur sjálfar og við getum látið frábæra hluti gerast ef við aðeins höfum trú á okkur sjálfum” segir Destiny um textann. Myndbandið við lagið hefur líka vakið þónokkra athygli, en þar sést Destiny láta vel að ungum dreng, sem er ber að ofan í gallabuxum. Og eins og við manninn mælt, það varð allt vitlaust og hún blákalt sökuð um að hlutgera karlmenn… sem er… mig langar að segja kaldhæðnislegt. En allt í lagi, förum ekki nánar út í það að sinni.

Glöggir heyra að ákveðin líkindi eru með “Je me casse” og “Toy”. Sömu skilaboðin, keimlíkur taktur og mögnuð söngkona. Og við munum nú öll hvað gerðist í Lissabon, ekki satt? Gætum við verið á leiðinni til Valetta árið 2022? Veit ekki, en ég er sossum alveg geim í sólarlandaferð eftir allt þetta kjaftæði undanfarið ár. Látum örlögin (já, ég orðflippaði!) skera úr um það í maí.