Danssmellur frá Grikklandi


Grikkir hafa notað ýmsar aðferðir í gegnum árin til að velja framlag sitt til Eurovisionkeppninnar. Þeir hafa oft verið með söngvakeppni, en síðastliðin fjögur ár hefur ekki verið nein slík. Valið hefur farið þannig fram að dómnefnd velur lag og flyjanda. Í fyrra var það Stefania Liberakakis með lagið Superg!rl sem varð fyrir valinu. Í ár var ákveðið að Stefania fengi annað tækifæri í Eurovision og hún er því fulltrúi Grikkja í ár. Lagið er eftir Dimitris Kontopoulos og textinn eftir Sharon Vaughn. Auk þess kemur að laginu framleiðsluteymi Arcade Music, skipað þeim Anastasios Rammos, Diverno, Gavriil Gavrilidis, Pavlos Manolis, Egion Parrenia og Loukas Damianakos. Dimitris og Sharon hafa bæði margoft áður samið Eurovisionlög og lög sem Eurovisionstjörnur hafa flutt. Þau voru bæði í höfundateymi Rússlands 2019 með lagið Scream sem Sergey Lazarev söng. Dimitris á hlut í fjölmörgum öðrum Eurovisionlögum. Hann hefur líka samið nokkur lög fyrir Sakis Rouvas. Sharon hefur átt lög sem Willie Nelson, Kenny heitinn Rogers og Bozone hafa flutt auk þess sem hún á hlut í Waterline með Jedward. Þetta er aðeins hluti af því sem Sharon hefur gert, en hún hefur starfað sem lagahöfundur í meira en 40 ár.

Lagið Last Dance er danssmellur og skilaboð lagsins eru að allt hefur sinn tíma. Hver endir hefur í för með sér nýja byrjun. Myndbandið sýnir draumkennda sögu með ævintýrablæ.

Stefania er ung að árum, varð 18 ára í desember. Þrátt fyrir það er hún svo sannarlega enginn nýgræðingur í tónlistarheiminum og jafnvel út fyrir hann, þar sem hún er einnig leikkona og vinsæl á YouTube. Stefania, sem á ættir að rekja til Hollands, hóf tónlistarferilinn árið 2013. Hún tók þátt í Junior Eurovision fyrir hönd Hollands árið 2016 sem hluti af stelpnabandinu Kisses með lagið Kisses & Dancin. Kærastinn hennar er Jannes Heuvelmans, en hann hefur líka tekið þátt í Junior Eurovision. Það gerði hann sem hluti af strákabandinu FOURCE árið 2017.

Grikkir voru fyrst með í Eurovision árið 1974 og Superg!irl átti að verða þeirra fertugasta framlag. Last Dance verður þá númer 40 eða 41 eftir því hvernig það er talið. Þeir unnu keppnina eftirminnilega árið 2005 þegar Helena Paparizou varð númer eitt með lagið My Number One. Besta tímabil Grikkja í Eurovision var árin 2004-2011 en þá urðu þeir alltaf á topp tíu, átta ár í röð.

Last Dance verður flutt í fyrri hluta seinni forkeppni þann 20. maí næstkomandi og er lagið í sama holli og Daði okkar. Eins og staðan er þegar þetta er skrifað spá veðbankar þessu áfram og 13. sæti á úrslitakvöldinu.