Portúgalir senda “Love is on my side” til Rotterdam


Portúgalir tóku sér orðatiltækið “if it ain’t broken, why fix it” (“ef það er ekki bilað, því að laga það”) ekki til fyrirmyndar þegar kom að því að velja framlag þeirra til Eurovision í ár og leyfa sigurvegaranum frá því í fyrra að ferðast til Rotterdam í vor. Þess í stað skelltu þeir í spánýja forkeppni með öllu tilheyrandi til að velja portúgalska framlag ársins 2021.

Að venju notuðust Portúgalir við forkeppni sína Festival da Canção, sem skipt var niður í tvær undankeppnir og eina úrslitakeppni. Í heildina voru 20 atriði sem kepptust um sóttvarnarmiðann til Rotterdam, en 10 lög komust í úrslitakeppnina þar sem úrslit voru ráðin með 50% símaatkvæðum og 50% dómaraatkvæðum.

Keppnin var æsispennandi og ekki var einhugur á milli áhorfenda og dómnefnda um hver ætti að fljúga fána Portúgals í ár. Lagið “Por um triz”, sungið af Carolina Deslandes, trompaði hjá dómnefndum, en lagið “Dancing in the Stars” heillaði flesta áhorfendur. En það voru blússkotnu sálarkrúnerarnir (soul-crooners) í The Black Mamba með lagið “Love is on my side” sem lentu í öðru sæti beggja kosninga og 20 stig í heildina.
En líkt og í góðri mexíkóskri telenóvellu var dramað ekki búið. Þar sem áðurnefnd Carolina endaði einnig með 20 stig í heildina horfðu Portúgalir upp á jafntefli. En ólíkt skipuleggjendum Eurovision árið 1969, þegar fjögur lönd stóðu uppi sem sigurvegarar, var portúgalska sjónvarpið með plan B á reiðum höndum og þar sem “Love Is On My Side” hafði fengið fleiri stig í símakosningu en “Por um triz” voru The Black Mamba úrskurðaðir sigurvegarar.

Hingað til hafa Portúgalir verið ein af mjög fáum þjóðum sem hafa ávallt sungið á móðurmáli sínu í Eurovision, að undanskildnum þremur lögum sem hafa innihaldið brot af enskum texta í bland við portúgölskuna. Lagið er því sögulegt fyrir þær sakir að mun þetta vera í fyrsta skiptið sem Portúgal sendir lag alfarið á ensku.

Nú er bara að bíða og sjá hvort að Portúgalir nái að heilla Evrópu upp úr skónum með tregafullu ástarlagi á ensku.