James Newman reimar á sig dansskóna í “Embers”


Fyrrum stórveldinu Bretlandi hefur ekki gengið neitt sérlega vel í Eurovison seinustu árin, eða öllu heldur áratugina. 24 ár eru síðan Katarina & The Waves hirtu keppnina til Birmingham og marga er farið að þyrsta í velgengni Breta aftur.  Það er spurning hvort ljúflingsbangsinn og söngvarinn James Newman verði við þeim óskum í ár.

Það hefur ekki verið auðvelt að fara í Eurovision fyrir hönd Bretlands upp á síðkastið. Breskir aðdáendur virðast alltaf vera búnir að stilla fyrirfram inn á: “Oj, ég hata þetta! Þvílík hneisa fyrir BBC!” rásina, og engin er ánægður. Aldrei. En þegar lagahöfundurinn og söngvarinn James Newman var valinn innbyrðis og kynnti í kjölfarið sálarballöðuna sína “My Last Breath” í fyrra, kvað allt í einu við annan tón og fólk virtist almennt nokkuð sátt, enda lagið vel samið og James sjálfur hörkusöngvari. BBC skynjaði líka alla jákvæðnina og ákvað að gefa James annan séns, og kappinn var ekki lengi að segja já við tækifærinu.

Það er rétt tæp vika síðan James birti kitlu úr laginu “Embers” eða “Glóðir” og heyra mátti að hann var búinn að tjúna stuðið aðeins upp og jafnvel bjóða brassbandi frá Yorkshire með sér (nei, ég hef ekki hugmynd um hvort brassbandið er þaðan, ég ímynda mér það bara) til að innsigla partýið endanlega. Og “Embers” er svo sannarlega partýlag út í gegn, tilbúið að kveikja smá eld í hjörtum Eurovision aðdáenda.

Lagið semur James sjálfur í samstarfi við Conor Blake, Danny Shah, Tom Hollings og Samuel Brennan. Hann segist hafa verið ákveðinn í því frá upphafi að hafa lagið fjörugt og dansvænt. “Mér finnst að allir eigi að skemmta sér og hafa gaman, og ég samdi lagið með það í huga. Ég vildi semja lag sem allir gætu dansað við, jafnvel þó þeir séu bara að dansa heima í eldhúsi.” sagði James í viðtali eftir að “Embers” kom út. James ætti nú heldur ekki að vera í vandræðum með að semja gott lag, enda enginn byrjandi í lagasmíðum því hann er Brit-verðlaunahafi og hefur t.a.m. unnið með Calvin Harris, Armin Van Buuren, Toni Braxton og Little Mix, svo við namedroppum aðeins hérna.

Eins og allir vita er Bretland ein af stóru þjóðunum 5, ásamt Frakklandi, Spáni, Ítalíu og Þýskalandi og þarf því ekki að fara í gegnum forkeppni. Nokkuð sem margir telja að sé þessum þjóðum frekar til ógagns en gagns, ef Ítalía er undanskilin. En hvað um það, James mætir á sviðið í Rotterdam þann 22. maí næstkomandi og kemur án efa með gleðina með sér. Svo krossum við bara fingur fyrir hann og bresku þjóðina. En EF illa gengur, hverjar ætli líkurnar séu á að allir kenni Meghan Markle um? Nei, bara að spekúlera…