Belgar höfðu ákveðið það um áramótin 2019-2020 að senda tríóið Hooverphonic sem fulltrúa sinn í Eurovision 2020. Þau voru ein af þeim sem fengdu samninginn sinn framlengdan og nú stefna þau aftur á sviðið í Rotterdam. Að þessu sinni var lagið valið sameiginlega af flæmsku og frönsku opinberu sjónvarpsstöðvunum í Belgíu. Vanalega skipta stöðvarnar árunum á milli sín. En eins og áður hefur komið fram, fordæmalausir tímar.
Tríóið Hooverphonic var stofnað af Alex Callier, Raymond Geerts og Geike Arnaert árið 1995 og hefur verið starfandi síðan. Geike hætti reyndar í bandinu árið 2008. Alex og Raymond héldu áfram samstarfi og hafa fengið tvær aðrar söngkonur til liðs við sig í millitíðinni. En nú í ár snýr Geike aftur og fannst það tímabært, þar sem það eru 20 ár síðan platan þeirra The Magnicifent Tree kom út. Hooverphonics hafa í gegnum tíðina ekki viljað binda sig alfarið við eina sérstaka tegund tónlistar, en kannski er einfaldast að lýsa stefnu þeirra sem einhverskonar tilraunakenndri blöndu af raftónlist og rokki. Tónlist bandsins hefur ratað í sjónvarpsþætti, auglýsingar og kvikmyndir víða um heim.
Í fyrra átti lagið Release Me að vera framlag Belga og þá var það söngkonan Luka Cruysberghs sem fór fyrir þeim félögum. En fyrir árið í ár er komið lagið The Wrong Place. Lagið er eftir Alex og Charlotte Foret. Umfjöllunarefnið er ekki nýtt af nálinni, það er verið að rifja upp liðið kvöld. Bæði lögin eru í rólegri kantinum og óvenju poppuð fyrir Hooverphonic. Mætti kannski segja að hér sé gáfumannapopp á ferðinni. Belgar hafa ekki komist upp úr forkeppninni síðan árið 2017 þegar þeir enduðu reyndar í 4. sæti. Nú er bara spurning hvort Hooverphonic séu á réttum stað og komist áfram í ár.