Dansk Melodi Grand Prix var haldin í gær og bitust átta lög um að verða framlag Dana í Rotterdam í ár. Ben & Tan, sem unnu MGP í fyrra með lagið Yes, sögðust ekki ætla að vera með í keppninni í ár. Þau enduðu þó á að senda lag inn í MGP sem síðan var hafnað af danska ríkisútvarpinu. Þetta þykir aðdáendum skrýtið í ljósi þess að allmörgum flytjendum frá 2020 var boðið að taka þátt í Eurovision án keppni eða að minnsta kosti senda lag í úrslit undankeppninnar. Ojæja.
MGP var að þessu sinni haldið í stúdói í DR Byen á glæsilegu sviði með áhorfendur á skjám að hvetja sín lög áfram. Virkilega vel leyst hjá Dönum og það verður að segjast að það var léttir að vera laus við dósahláturinn sem einkennir sumar þessara undankeppna. Að auki var 15 manna hljómsveit á sviðinu sem lék undir og það gerði heilmikið á þessum síðustu og verstu kórónuveirufaraldurstímum. Fyrirkomulag keppninnar var einfalt og gott þar sem allt vald var í höndum almennings. Eftir að lögin átta höfðu verið flutt á sviði, þar sem m.a. mátti sjá afrit af Jedward með saxófónpíu, var tilkynnt hvaða þrjú lög færu áfram í gullúrslit. Þá var símakosningin núllstillt og lögin flutt aftur.
Í þriðja sæti, með 29% atkvæða, voru Chief 1 og Thomas Buttenschøn með lagið Højt over skyerne.
Í öðru sæti, með 34% atkvæða, lenti Jean Michel með lagið Beautiful.
Í efsta sæti með 37% atkvæða var hið eitísskotna lag Øve os på hinanden. Laginu var spáð sigri af veðbönkum fyrir keppnina. Dúóið Fyr & flamme, sem útleggst sem óður og uppvægur á íslensku, gefa sig út fyrir að vera poppstjörnur sem foreldrar skilja. Dúóið samanstendur af Laurits Emanuel, 33 ára tónlistarmanni, og Jesper Groth, 31 árs leikara og uppistandara. Þeir hafa starfað að tónlist saman síðan 2017 og slegið í gegn með lögunum Menneskeforbruger og Kamæleon. Það er æskudraumur Fyr & Flamme að taka þátt í MGP og þeir geta ekki beðið eftir að raka inn tólfunum!
Lagið Øve os på hinanden fjallar um að prófa og fyrirgefa hvort öðru þegar við gerum mistök. Í texta lagsins er sungið um mann og konu sem nálgast hvort annað á dansgólfinu og þurfa að finna út hvaða spor virka best. Lagið sækir innblástur í Melodi Grand Prix lög frá sjöunni og verður best líst sem óð til fortíðar sem drífur fólk á dansgólfið.
Á blaðamannafundi eftir sigurinn staðfestu Jesper og Laurits að lagið yrði sungið á dönsku í Rotterdam. Að þeirra mati myndi lagið ekki virka á ensku og sigur Portúgals og Úkraínu hin síðustu ár hafa sannað gildi móðurtungunnar. Auk þess myndu áhugasamir aðdáendur bara googla þýðingu textans alveg eins og þeir gerðu þegar Salvador Sobral sigraði með Amar Pelos Dois. Sætir þetta nokkrum tíðindum því þetta er þá í fyrsta sinn í 24 ár sem Danir senda lag alfarið á móðurtungunni í Eurovision. Það var síðast árið 1997 þegar Danir sendu goðsagnakennda lagið Stemmen i mit liv.
Dönum hefur gengið mjög vel í Eurovision upp á síðkastið en þeir hafa skipað sér í topp fimm sætin á síðustu tíu árum. Hvort að Fyr & Flamme fíri upp í æstum aðdáendum og Evrópubúum verður aftur á móti að koma í ljós.