Norski engilinn Tix var ekki fyrr búin að vinna Melodi Grand Prix en Kýpverjar tilkynntu Eurovision framlag sitt í ár; El Diablo eða Djöfullinn!
Í fyrra völdu Kýpverjar söngvarann Sandro og lagið Running til að keppa í Rotterdam 2020. Sandro greyinu hefur nú verið skipt út fyrir hina grísku Elenu Tsagrinou og í dag var lag hennar kunngjört. Elena þessi hefur starfað innan grísku poppsenunnar, með ekki ómerkari mönnum en Dimitris Kontopoulos, tekið þátt í hæfileikakeppninni Greece Got Talent og sungið með hljómsveitinni OtherView í fimm ár áður en hún hóf sinn sólóferil. Elena er í dag ein vinsælasta söngkona sinnar kynslóðar meðal Grikkja og Kýpverja og einnig tekist á við dagskrárgerð í sjónvarpi.
Lagið El Diablo fjallar um að verða ástfanginn af einhverjum jafnslæmum og djöflinum (þess óskum við nú ekki neins!). El Diablo er danspopp af vandaðri gerð og það er morgunljóst að Kýpverjar ætla sér ekkert af Fuego-vagninum í bráð. Lagið er samið af Thomas Stengaard (meðhöfundi Only Teardrops 2013), Jimmy “Joker “Thornfeldt, Laurell Barker og OXA, sem einhverjir lesendur ættu að kannast við. Á vef Panik Records má nálgast myndbandið við lagið.
Myndbandið hefur vakið mikla athygli Eurovision aðdáenda fyrir notkun vöruinnsetninga (e. product placement). Það verður ekki betur séð en að Elena sé að auglýsa flösusjampóið Head and Shoulders og naglalakk frá Blue Sky.
Eins og greint var frá skilmerkilega í fyrra er Kýpur það land sem hefur beðið lengst eftir sigri af þeim sem hafa aldrei unnið. Kýpur hefur tekið 36 sinnum þátt í Eurovision án sigurs (ef við teljum 2020 ekki með!) en Ísland og Malta hafa tekið þátt 32 sinnum hvort. Það ætti því að vera okkur Íslendingum kappsmál að vinna keppnina á undan hinum eyþjóðunum. Kýpur hefur þrisvar verið í fimmta sæti, með löngu millibili og var það þeirra besti árangur ansi lengi eða þar til fyrir tveimur árum. Þá varð Íslandsvinurinn Eleni Foureira í öðru sæti með lagið Fuego sem flestir ættu að muna eftir.