Lögin sem komust aldrei á stóra Eurovisionsviðið


Eins og þekkt er orðið var Eurovisionkeppninni árið 2020 aflýst. Fjörutíu og eitt lag var tilbúið til keppni sem ekkert varð úr. En þetta eru ekki einu lögin sem áttu að verða Eurovisionlög en komust aldrei alla leið á Eurovisionsviðið, þótt þau hafi að sjálfsögðu aldrei áður verið svona mörg sem duttu út. Ýmsar ástæður eru fyrir því að lögin fóru ekki í stóru keppnina. Fjárhagsástæður, þjóðarsorg í landinu þar sem þjóðhöfðingi er nýlátinn, lagið ekki nógu gott, textinn óviðeigandi eða flytjandi eða höfundur hætti við. Stundum hefur laginu verið vísað frá þar sem það hafði heyrst opinberlega áður, stundum þótti það of líkt öðru lagi og stundum hafa komið upp höfundarréttarmál. Að sjálfsögðu hefur svo pólitíkin og lög og reglur landanna eða EBU orðið til þess að lög hafa ekki fengið að taka þátt. Svo hefur vissulega oft verið búið að ákveða lag eða flytjanda og öðru skipt út, en þá oftast áður en skilafrestur rennur út. Fyrir utan lögin 41 í ár er talið að 20-60 önnur lög hafa hlotið þessi örlög, svona eftir því hvernig er talið.

Árin 1993-1995 fór fram forkeppni meðal Austur-Evrópskra þjóða um sæti í Eurovision. Þetta var á þeim árum þegar þessar þjóðir voru að byrja að taka þátt. Árið 1996 var fyrirkomulagið þannig að allar þjóðir sendu inn lag og dómnefnd valdi þau 23 lög sem fengu að keppa til úrslita. Á þessum árum varð því til talsvert af Eurovisionlögum sem komust aldrei á Eurovision sviðið.  Árið eftir eða 1997 var tekin upp sú regla að samanlagður árangur landanna síðustu fimm ár réði því hvort þau fengu að vera með og gilti sú regla til ársins 2004 þegar forkeppnin var tekin upp. Annars hefur þessum lögum sem ekki hafa komist alla leið fjölgað með árunum. Hér verða rifjuð upp nokkur lög sem rötuðu aldrei alla leið á stóra sviðið.

Árið 1976 stóð fyrst til að smáþjóðin Liechtenstein yrði með í Eurovision. Það var búið að velja lag, My Little Cowboy með Biggi Bachmann. En í Liechtenstein var engin opinber sjónvarsstöð sem var í EBU svo það gekk ekki. Þannig sjónvarpsstöð var ekki stofnuð þar í landi fyrr en árið 2008. Eftir það hafa gengið sögusagnir um þátttöku í Eurovision en enn hefur ekki orðið af því. Sama ár ætluðu Maltverjar að senda lagið Sing Your Song, Country Boy sem Enzo Guzman söng. En þegar til kom höfðu þeir ekki efni á að taka þátt. Þetta var mjög svekkjandi, sérstaklega fyrir Enzo sem hafði líka átt að taka þátt tveimur árum áður en þá var líka hætt við af sömu ástæðu. Lagið hans frá 1974 heitir Peace in the World. Það endaði svo á því að þarna varð ansi langt hlé hjá Möltu í Eurovision. Malta var ekki næst með fyrr en árið 1991 þegar Paul Giordimaina og Georgina fluttu lagið Could it be?

Hin ísraelska Hanna Dresner-Tzakh, betur þekkt sem Ilanit, er Eurovisionaðdásendum vel kunn, enda flutti hún framlög Ísraelsmanna árin 1973 og 1977.  Það stóð til að hún keppti í þriðja sinn árið 1984. Keppnin fór fram þann 5. maí, sama dag og minningardagur um fallna hermenn sem er heilagur frídagur í Ísrael. Þetta er ekki í eina skiptið sem Ísraelsmenn hafa ekki verið í Eurovision út af því að Eurovision og minningardagurinn eru sama dag. Ilanit kom svo einnig fram í opnunaratiði Eurovisionkeppninnar í Tel Aviv árið 2019.

Þýskaland hefur oftast tekið þátt í Eurovision og í raun bara misst af einni keppni. Það var árið 1996. Tuttugu og níu lönd vildu vera með í þeirri keppni, en aðeins 23 máttu vera með. Dómnefnd valdi þau sem komust áfram og var þýska laginu hafnað. Þjóðverjar höfðu valið Leon Blauer sem sinn fulltrúa með lagið Blauer Planet. Það hlaut hins vegar ekki náð hjá dómnefndinni og það varð því eina keppnin án Þýskalands, til þessa allavega. Eftir þetta var sett reglan um stóru þjóðirnar fjórar/fimm sem komast alltaf beint í úrslit. Árið 2015 fór fram keppnin Unser Song für Österreich og völdu Þjóðverjar söngvarann Andreas Kümmert með lagið Heart of Stone sem fulltrúa landsins. Þegar hann var búinn að vinna neitaði hann hins vegar að taka þátt í Eurovision með tilheyrandi dramatík. Hann tilnefndi strax Ann Sophie sem varð í öðru sæti til að fara og hún fór til Vínarborgar með lagið Black Smoke en fékk ekki eitt einasta stig.

Til stóð að Líbanon tæki þátt í fyrsta sinn árið 2005. Þeir voru búnir að velja lag, Quand tout s’enfuit eða Þegar öllu er lokið sem Aline Lahoud söng. En samkvæmt lögum í Líbanon má ekki sýna neitt efni frá Ísrael. Ísraelar voru með þetta ár og þar með gekk dæmið ekki upp því að samkvæmt reglum Eurovision verður að sýna keppnina í heild sinni og ekki heimilt að sleppa einstökum framlögum.

Árið 2009 átti hópurinn Stephanie & 3G að vera fulltrúi Georgíu í Eurovision. Hópinn skipuðu Stehane Mgebrishvili, Nini Badurashvili, Tamara Gachechiladze og Kristine Imedadze. Þau tóku einnig þátt í forkeppni Eurovision í Georgíu árið áður, urðu þá í 4. sæti þegar Diana Gurtskaya vann. Lagið sem þau ætluðu að flytja heitir We Don´t Want to Put In en því var hafnað um þátttöku, það þótti vera með pólitískar yfirlýsingar í óþökk Vladimirs Putin Rússlandsforseta.

Ovidu Anton og félagar frá Rúmeníu voru langt komin með Eurovisionundirbúninginn árið 2016 þegar áfallið kom. Það var ekki fyrr en 22. apríl sem EBU tilkynnti rúmenska sjónvarpinu, TVR, að þeim væri neitað um að vera með í Eurovision það árið þar sem þeir höfðu ekki borgað þátttökugjöld til EBU í þónokkur ár. Það var búið að gefa lagið út á geisladisk með hinum lögunum og sjaldan hefur verið hætt við svona seint. Rúmenar sömdu svo við EBU og hafa verið með í Eurovision síðan. Lagið sem þau áttu að flytja heitir Moment of Silence og er hér að neðan.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um lög sem komust ekki alla leið og aldrei að vita nema framhald verði af þessari umfjöllun síðar á FÁSES.is.