Flogið á vængjum ástarinnar í hvítu pilsi


Árið 2000 fór Eurovisionkeppnin fram í Globen höllinni í Stokkhólmi þann 13. maí eða fyrir nákvæmlega 20 árum í dag. Þetta var fyrsta Eurovisionkeppnin sem var sýnd beint á svokölluðu interneti sem þá var að slá í gegn. Eftir þetta hefur fólk því geta horft á keppnina hvar sem er í heiminum sem hefur án efa aukið áhorfið. Kynnarnir, þau Kattis Ahlström og Anders Lundin tala um að 6 milljónir manna séu að fylgjast með á netinu, en ekki er víst að þær mælingar séu nákvæmar.

Fyrsta lag keppninnar var frá Ísrael. Það var lagið Sameach eða Hamingjusöm sem var sungið af Ping Pong hópnum. Þau enduðu atriðið á að veifa litlum fánum, bæði þeim ísraelska og sýrlenska. Þar með slökkti ísraelska sjónvarpið á útsendingunni þegar sýnt var frá þeirra eigin atriði. Spánverjinn Serafín Zubiri varð fyrsti blindi maðurinn til að keppa í Eurovision árið 1992 og snéri aftur þetta árið með lagið Colgado de un sueño. Alexandros Panayi frá Kýpur var einnig að keppa í annað sinn, hafði áður keppt árið 1995, en þarna sem hluti af dúettinum Voice. Roger Pontare sem var fulltrúi Svía á heimavelli með lagið Spirits are Calling My Name var einnig að keppa aftur, hafði verið í dúett með Marie Bergman árið 1994.

Fulltrúar Íslands þetta árið voru Telma Ágústsdóttir og Einar Ágúst Víðisson með lagið Tell Me eftir Örlyg Smára. Þau voru númer 12 í röðinni og enduðu líka í 12. sæti. Með þeim á sviðinu í bakröddum voru Eyjólfur Kristjánsson, Pétur Örn Guðmundsson, Guðbjörg Magnúsdóttir og Hulda Gestsdóttir. Hvíta pilsið sem Einar Ágúst var í vakti mikla athygli og mætti hann aftur í því þegar hann var í bakröddum hjá Daníel Oliver í Söngvakeppninni árið 2015.

En kíkjum nánar á fimm efstu lögin. Í fimmta sæti varð Stefan Raab með hið hressa lag Wadde Hadde Dudde Da? Stefan er mjög þekktur í Eurovisoinheiminum. Árið 1998 var hann tónlistarstjóri og átti lag Þjóðverja Guildo hat euch Lieb! Hann samdi lagið Can´t Wait Until Tonght 2004, var í þýsku sendinefndinni þegar Þýskaland vann 2010 og kynnti keppnina í Düsseldorf 2011.

Eistland varð í fjórða sæti. Það var söngkonan Ines sem flutti lagið Once In a Lifetime. Í bakröddum var meðal annars þáverandi kærasti hennar, Tanel Padar, sem fór með sigur af hólmi í keppninni næsta ár á eftir. Ines var líka í framleiðendateymi lagsins Runaway sem var framlag Eistlands í Eurovision árið 2002. Bróðir Inesar, Ivo, spilaði á bassa í hljómsveitinni Ruffus sem keppti árið 2003 með lagið Eighties Coming Back.

Lettland tók þátt í Eurovision í fyrsta sinn árið 2000. Þeir sendu lagið My Star með hljómsveitinni Brainstorm og byrjuðu með látum, enduðu í 3ja sæti. Hljómsveitin hefur núna verið starfandi í 30 ár. Söngvari sveitarinnar, Renars Kaupers, var kynnir á Eurovisionkeppninni í Riga 2003 og einnig var hann kynnir á 50 ára afmæli Eurovisionkeppninnar sem var haldið í Kaupmannahöfn árið 2005.

Í öðru sæti varð rússneska söngkonan Alsou með lagið Solo. Var hún tæplega 17 ára þegar keppnin fór fram. Hún náði miklum frama í tónlistinni eftir þetta og hefur meðal annars komist á breska listann. Aslou var kynnir þegar Rússar héldu Eurovisionkeppnina í Moskvu árið 2009.

Sigurvegararnir voru Olsen bræður, Jørgen og Niels, frá Danmörku með lagið Fly On The Wings Of Love. Jørgen varð þarna elsti maðurinn til að vinna Eurovision, var 50 ára og 61 dags gamall, en hélt þeim titli reyndar ekki lengi. Þeir bræður eru enn með hæsta meðalaldur sigurvegara, en Niels var 46 ára þegar keppnin fór fram. Lagið var kannski gamaldags en þeir notuðu nýjustu tækni, auto-tune, á ákveðnum stað í laginu sem gaf því nútímablæ. Olsen bræður byrjuðu að skemmta saman þegar þeir voru börn, eða árið 1965. Þeir hafa alls níu sinnum tekið þátt í Dansk Melodi Grand Prix, bæði fyrir og eftir árið 2000, en þetta var eina skiptið sem þeir komust áfram í Eurovision. Olsen bræður hafa verið vinsælir í Danmörku og víðar í meira en 50 ár, meðal annars hér á Íslandi.