Portúgalir ætluðu að sjálfsögðu að vera með í Eurovision árið 2020 og héldu sína hefðbundnu söngvakeppni Festival da Canção. Tvær forkeppnir fóru fram þann 22. og 29. febrúar síðastliðinn. Forkeppnirnar fóru fram í Lissabon en úrslitin í smábænum Elvas sem er ekki langt frá landamærum Spánar. Sextán lög kepptu í Festival da Canção í ár, átta í hvorri forkeppni. Fjögur lög komust áfram hvert kvöld og voru því átta lög í úrslitunum. Kynnar á úrslitunum voru Vasco Palmeirim og Filomena Cautela sem var einn af kynnunum þegar Portúgalir héldu Eurovisionkeppnina 2018.
Portúgalir hafa verið með í Eurovision síðan árið 1964, hafa reyndar fimm sinnum ekki verið með, og átti framlagið þeirra 2020 að verða 52. framlag þeirra. Árangur Portúgala í keppninni er ekki sá besti og hafa þeir meðal annars verið í síðasta sæti fjórum sinnum. Þeirra langbesti árangur var hins vegar sætur og öruggur sigur fyrir þremur árum þegar Salvador Sobral heillaði Evrópu með laginu Amar Pelos Dois. Portugölsku Eurovisionlögin hafa nær alltaf verið valin í gegnum Festival da Canção.
Eins og áður kom fram kepptu átta lög til úrslita í Festival da Canção þann 7. mars síðastliðinn. Þriðja árið í röð mátti syngja á hvaða tungumáli sem er. Úrslitin, bæði í forkeppnum og úrslitum, voru ákveðin með helmings vægi fagdómnefndar og helmings vægi almennings úr símakosningu. Sigurvegarinn varð Elisa með lagið Medo de sentir sem mætti þýða sem Tilfinningahræðsla. Hún varð í öðru sæti bæði hjá dómnefnd og almenningi, sem voru ekki sammála um hvaða lag væri best. Elisa, eða Maria Elisa Silva eins og hún heitir fullu nafni, er tvítug söngkona frá Ponta do Sol í Madeira. Tónlistarferill hennar er ekki langur en hún hefur þó tekið þátt í Idol keppninni í Portúgal. Hér að ofan má svo sjá hennar útgáfu af Amar Pelos Dois. Marta Carvalho er höfundur lagsins Medo de sentir sem er hugljúf og notaleg ballaða.