Allsgáð búlgörsk tár


Svo við byrjum á að grípa til gamalkunnugs frasa; hér kemur ein, ung og upprennandi. Hún sker sig úr fyrir sérstaka rödd og stíl og hafa margir líkt henni við Billie Eilish. Hún heitir Victoria og er að hefja feril sinn í Búlgaríu. Og hvað er betra en að byrja glæstan feril í Eurovision?

Það gladdi marga Eurovisionaðdáendur þegar búlgarska sjónvarpið tilkynnti að þjóðin myndi taka þátt í Eurovision 2020 en þeir sátu hjá í fyrra vegna fjárhagsvandræða. Búlgarar tilkynntu í nóvember sl. að Victoria myndi flytja Eurovision framlag þeirra og enn einu sinni fórum við aðdáendur á mis við búlgarska undankeppni. Victoria þessi er mikill dýravinur og hún á fjóra hunda, tvær kanínur og páfagauk (það má nú ekki minna vera svona þegar samkomu- og útgöngubann er í gildi í meirihluta ríkja). Victoria varð fyrst þekkt fyrir þátttöku sína í X Factor Búlgaríu og gaf út lagið I Wanna Know í fyrra sem fór vel í landann. Fyrsta plata Victoriu er væntanleg síðar á þessu ári sem er bara býsna gott fyrir 22 ára gamlan tónlistarmann.

Lagið Tears Getting Sober fjallar um að komast yfir ótta og kvíða og halda áfram með líf sitt. Það er Victoriu hjartans mál að fjalla um geðheilbrigðismál ungs fólks og vonar hún að lagið gefi fólki von. Það er Victoria sjálf sem semur lagið ásamt tónlistarsamsteypunni Symphonix Internatinal. Lagið var efst í veðbönkum daginn sem tilkynnt var um að Eurovision 2020 væri aflýst. Nú er ljóst að Victoria mun keppa fyrir Búlgaríu í Eurovision 2021 en við verðum að bíða og sjá hvort hún finni annað lag sem fer jafn vel í aðdáendur og Tears Getting Sober gerði.