Danssmellur frá Norður-Makedóníu


Framlag Norður-Makedóníu í Eurovision í ár er lagið You sem Vasil Garvanlie flytur. Ríkissjónvarpið í Norður-Makedóníu, MRT, bað Vasil að taka verkefnið að sér sem hann þáði. Ekki var nein söngvakeppni haldin í ár frekar en oftast áður. Vasil er ekki alveg ókunnur Eurovision, en hann var í bakröddum hjá Tamöru Todevska í laginu Proud í fyrra, en þá náði Norður-Makedónía sínum besta árangri í Eurovision frá upphafi. Tamara vann dómnefndarkosninguna, en það uppgötvaðist reyndar ekki fyrr en á miðvikudeginum eftir keppni. Fram að því voru Svíar taldir sigurvegarar dómnefndarkosningarinnar. Þegar atkvæðum úr símakosningu hafði verið bætt við endaði Norður-Makedónía í 7. sæti og bætti þá árangur sinn um fimm sæti. Besti árangur fyrir þann tíma var 12. sæti árið 2006, þegar landið hét Fyrrum júgóslavneska lýðveldið Makedónía. Þjóðin reyndi fyrst að vera með í Eurovision árið 1996, en á þeim tíma þurfti að fara í gegnum síu. Makedónía komst ekki í gegnum hana fyrr en árið 1998.

Myndaniðurstaða fyrir vasil garvanliev

Tamara Todevska og Vasil Garvanlie

Lagið Proud fjallaði um konur og lagið í ár er eftir konu, Nevönu Neskosa. Hún er makedónísk söngkona og framleiðandi, fæddist reyndar í Ohrid og er alin upp í Chicago. Hún lærði lagasmíðar í Berklee College of Music. Textinn er eftir þrjár konur, Nevena Neskoska, Kalina Neskoska og Alice Schroeder.

Vasil Garvanlie er fæddur árið 1985 og er mjög reyndur söngvari. Hann byrjaði að koma fram þegar hann var sjö ára. Þegar hann var 12 ára flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna. Þar hélt hann strax áfram í tónlist, byrjaði þar í barnakórnum í Chicago. Vasil flutti aftur til Norður-Makedóníu fyrir tveimur áfram og hefur gert lögin Gjerdan, Patuvam, og Mojata Ulica mjög vinsæl. Vasil mun taka þátt í fyrri forkeppni Eurovision í ár. Lagið er tíunda Eurovision lagið sem hefur titil sem byrjar á You og eitt annað heitir líka bara You, sænska Eurovisionframlagið 2013. Lagið er skemmtilegur danssmellur sem er auðveldlega hægt að dansa við núna þegar maður á að halda sig heima.