Finnar treysta á Aksel Kankaanranta og “Looking back” í Rotterdam.


Hin heittelskaða finnska undankeppni UMK eða Uuden Musikiin Kilpailu, var endurvakin í ár, eftir að hafa legið í nettum dvala síðan 2017 og gladdi það ótalmarga aðdáendur, enda hefur UMK verið ein skemmtilegasta forkeppnin hin síðari ár og gefið okkur óendanlega marga gullmola í gegnum tíðina. Finnar, líkt og við Íslendingar eru taldir til Norðurlandaþjóðanna, en ekki til Skandinavíu, hvað svo sem það á nú að þýða. Við erum öll á sama svæði hérna! En Finnar eiga það líka til að vera svona svolítið sérstök blóm í Eurovision og eru ekkert alltaf að elta straumana, ef svo má að orði komast. Og þeir skráðu sig enn og aftur í sögubækurnar undir kaflaheitinu: “Okkur er alveg sama hvað ykkur finnst”  þegar Aksel Kankaaranta og ballaðan “Looking back” unnu fremur óvæntan sigur seinasta laugardag.

Sex lög kepptu til úrslita í ár, og allt þar til seinustu stigin höfðu verið talin, var það mál manna að leðurklædda diskódrottningin Erika Vikman og bráðskemmtilegur aðdáunaróður hennar til ítölsku klámdrottningarinnar og stjórnmálakonunnar Cicciolinu, væri eina rökrétta niðurstaðan. Jæja, allt í lagi. Finnum er kannski ekkert ALLTAF alveg sama hvað öðrum finnst, því finnskur almenningur var svo sannarlega á bandi Eriku (og bjarndýranna hennar) því “Cicciolina” vann símakosninguna og var með 99 stig á móti 94 stigum Aksels.

En Eurovision er nú svo dásamlega óútreiknanleg alltaf og það kom berlega í ljós þegar alþjóðlegu dómnefndirnar höfðu sagt sitt, því þær voru flestar á allt öðru máli og settu Eriku í þriðja sæti en Aksel í fyrsta og þegar búið var að telja stigin saman, stóð Aksel uppi sem sigurvegari með 170 stig, en Erika varð að láta sér annað sætið lynda með 157 stig. Það er því mikill rólyndisdrengur frá Turku sem stígur á stokk í Rotterdam með fallega ballöðu í anda James Bay um það að fagna lífinu og vera ekki að dvelja of mikið í fortíðinni.

Það er nú ekki mikið vitað um hann Aksel Kankaaranta, annað en að hann varð í öðru sæti í The Voice: Finland árið 2017 og já, hann er fæddur í Turku. En hann er hörkusöngvari og með afskaplega fallega rödd og þurfum við að vita eitthvað meira en það að svo stöddu? Okkur þykir nú alltaf voða vænt um Finna og tengjum mikið við þá, og því skulum við bara óska Aksel Kankaaranta frá Turku alls hins besta í keppninni og læða því út í kosmósið að hann og Daði taki einn laufléttan dúett saman, því ef ein falleg karlarödd er silfur hljóta tvær þá að vera algjört gull. Onnea Suomeen!