James Bond lagið í ár kemur frá Póllandi


Pólverjar völdu framlag sitt til Eurovision keppninnar þann 23. febrúar síðastliðinn. Söngvakeppnin þeirra heitir Szansa na Sukces – Eurowizja 2020. Þrjá sunnudaga þar á undan voru haldnar forkeppnir. Í hverri þeirra kepptu sjö flytjendur um að verða fulltrúi Póllands og einn komst áfram. Mismunandi þemu voru í hverri undankeppni. Í fyrstu keppninni sungu allir ABBA lög, Eurovisionlög voru flutt í annarri forkeppninni og Bítlalög í þeirri þriðju. Í forkeppnunum var það dómnefnd sem sá um að velja flytjanda sem færi áfram. Hana skipuðu þekktir pólskir Eurovisionfarar, Cleo sem margir muna eftir frá 2014 þegar hún flutti lagið My Słowianie – We Are Slavic, Michał Szpak sem flutti lagið Colour of Your Life 2016 og Gromee, sem samdi lagið Light Me Up sem var framlag Póllands 2018. Pólverjar hafa verið með í Eurovision síðan 1994 og voru þeir því að velja sitt 23. framlag. Fjórtán sinnum hafa Pólverjar verið með úrslitunum. Besta árangri sínum náðu þeir í fyrstu tilaun 1994 þegar Edyta Górniak söng To nie ja. Þeir hafa tvisvar verið á topp tíu eftir þetta, 2003 og 2016.

Þrír söngvarar voru því í úrslitakeppni Szansa na Sukces og gilti símakosning til helmings á móti dómnefndinni sem var eins skipuð. Hver keppandi flutti tvö lög, gamlan Eurovisionsmell og lagið sem viðkomandi hugðist fara með til Rotterdam.

Kasia Dereń var fyrst á svið. Flutti hún þýska smellinn Satellite frá 2010 og svo lagið Count on Me. Kaise hefur verið virk í tónlist síðastliðin fimm ár og meðal annars the þátt í The Voice of Poland.

Næst á svið var Alicja Szemplińska sem flutti lögin Euphoria og Empires. Hún hafði tekið lagið To nie ja í undankeppninni þegar það var Eurovisionþema. Alicja sló í gegn í haust þegar hún tók þátt í The Voice of Poland. Frami hennar hefur því verið skjótur en hún verður 18 ára í næsta mánuði.

Að lokum var það Albert Černý sem flutti lögin Fairytale og Lucy. Eurovisionaðdáendur kannast líklega við Albert, enda er hann söngvari tríósins Lake Malawi sem flutti lagið Friend of a Friend fyrir Tékkland í Tel Aviv í fyrra.

Að lokum var það hin unga og efnilega Alicja sem landaði sigri með lagið Empires. Lagið er eftir Patryk Kumór, Dominic Buczkowski-Wojtaszek, Frazer Mac og Laurell Barker. Hún mun flytja lagið í fyrri hluta seinni forkeppninnar í Rotterdam þann 14. maí, alveg eins og hann Daði okkar.  Lagið er kraftballaða og myndi sóma sér vel í eins og einni James Bond mynd. Síðan Conchita Wurst vann 2014 hefur stundum verið haft á orði að eitt James Bond lag sé í hverri Eurovision keppni og í ár kemur það semsagt frá Póllandi.