Daníel Ágúst 50 ára


Daníel Ágúst Haraldsson fæddist þann 26. ágúst 1969 og fagnar því fimmtugsafmæli sínu í dag.  Hann er þekktastur fyrir að vera söngvari tveggja ólíkra hljómsveita, Gus Gus og NýDönsk, en hann tók einu sinni þátt í Söngvakeppninni.

Söngvakeppni Sjónvarpsins var haldin í fjórða sinn þann 30. mars 1989. Þar kepptu lögin Alpatvist, Línudans, Sóley, Þú leiddir mig í ljós og sigurlagið, Það sem enginn sér. Það var afmælisbarnið Daníel Ágúst Haraldsson sem flutti, en lagið er eftir Valgeir Guðjónsson sem hafði farið út tveimur árum áður með lagið Hægt og hljótt.  Daníel var því ekki orðinn tvítugur þegar hann keppti í Eurovision þann 6. maí 1989 í Lausanne í Sviss. Með honum á sviðinu voru Valgeir lagahöfundur, Eva Ásrún Albertsdóttir, Eva Leila Benanie, Kristján Viðar Haraldsson og Atli Örvarsson. Eins og þekkt er orðið gengu Íslendingar í núll stiga klúbbinn þarna og erum þar ásamt 18 öðrum þjóðum í dag. Ólíkt öðrum listamönnum sem höfðu hlotið þessi örlög var Daníel að stíga sín fyrstu spor á tónlistarsviðinu, en flestir aðrir voru orðnir vel þekktir og með mikla reynslu þegar skellurinn kom.

Árið 2006 sendi Tim Moore frá sér bókina Nul Points. Þess má geta að sambýliskona Tims er íslensk og heitir Birna Helgadóttir. Þar fjallar hann um lögin sem fengu núll stig í Eurovision á tímabilinu 1975-2003, það er frá því að tólf stiga kerfið er tekið í notkun og þar til forkeppnirnar hófu göngu sína. Það má því segja að þessi lög hafi öll haft svipaða möguleika á að ná því að fá engin stig. Það var þannig sum fyrstu ár Eurovision að það var hreinlega ekki hægt að fá núll stig. En í bókinni Nul Points er sér kafli um hvert lag og er kaflinn um Það sem enginn sér og Daníel Ágúst er hvorki meira né minna en 30 blaðsíður. Þar er skemmtileg lýsing á því þegar Tim fer að hitta Daníel, en hann bjó í Brussel á þessum tíma. Þar ræddu þeir um ævintýrið í Lausanne og Daníel sagði þetta haf verið góð reynsla og það jákvæðasta auðvitað að fá að byrja tónlistarferilinn á að syngja fyrir 500 milljónir manna. Tim hélt sjálfur upp á lagið og talaði um að mörgum mánuðum eftir keppnina var fólk enn að raula lagið, enda angurvært og fallegt.

Ritstjórn FÁSES.is óskar Daníel til hamingju með daginn!