Birgitta Haukdal fertug


Birgitta Haukdal Brynjarsdóttir fagnar 40 ára afmæli í dag. Hún fæddist 28. júlí 1979 og ólst upp á Húsavík. Hún er þekktust fyrir að vera söngkona hljómsveitarinnar Írafár, en hefur einnig komið að mörgum öðrum tónlistarverkefnum sem sólósöngkona. Í þessum pistli verður farið yfir feril Birgittu í Söngvakeppninni og Eurovision.

Birgitta kom fyrst fram í Söngvakeppninni árið 2001 þegar hún söng lagið Aftur heim ásamt Eyjófi Kristjánssyni, en lagið er líka eftir hann.

Árið 2003 var svo árið hennar Birgittu. Hún var mjög vinsæl á þessum tíma og flestir lagahöfundar sem náðu inn með lag í Söngvakeppnina buðu henni að syngja lagið sitt. Hún valdi að syngja lag Hallgríms Óskarssonar, Segðu mér allt. Og það var ekki að spyrja að því, lagið vann yfirburðasigur. Þegar út til Riga var komið var lagið komið með enskan texta og hét þá Open Your Heart. Lagið endaði í 8. – 9. sæti og deildi því með Beth frá Spáni sem flutti lagið Dime. Birgitta fékk tólf stig frá Möltu og Noregi í hreinni símakosningu. Í dag er þetta fimmti besti árangur Íslands í Eurovision.

Árið 2006 flutti Birgitta lagið Mynd af þér í Söngvakeppninni, en lagið er eftir Svein Rúnar Sigurðsson. Magni Ásgeirsson og Birgitta fluttu lagið Núna veit ég eftir Hafdísi Huld Þrastardóttur í Laugardagslögunum árið 2008.

Í Söngvakeppninni árið 2013 flutti Birgitta lagið Meðal andanna sem er eftir hana, Sylvíu systur Birgittu og Jonas Gladnikoff. Jonas er sænskur og hefur samið fjöldan allan af lögum sem hafa keppt víða um Evrópu um að komast í Eurovision. Hann hefur þrisvar átt sigurlög sem hafa farið alla leið og öll fyrir Írland, Et Cetera 2009, It´s for You 2010 og Heartbeat árið 2014.

Birgitta hefur komið fram á Söngvakeppninni við fleiri tilefni og má þar til dæmis nefna dásamlegan flutning hennar, Ingibjargar Stefánsdóttur, Sigríðar Beinteinsdóttur, Sigrúnar Evu Ármannsdóttur og Helgu Möller á ítalska sigurlaginu 1964, Non Ho L’étà eða Heyr mína bæn í Söngvakeppninni 2015.

Ritstjórn FÁSES.is óskar Birgittu innilega til hamingju með daginn.