Kristján Gíslason 50 ára


Kristján Gíslason fæddist þann 27. júlí 1969 og ólst upp í Skagafirði. Kristján varð fyrst þekktur á seinni hluta níunda áratugarins þegar hann var söngvari hljómsveitarinnar Herramenn sem sló fyrst í gegn með lagið Í útvarpi. Einnig er hann þekktur fyrir að vera söngvari hljómsveitarinnar Spútnik, auk þátttöku hans í Söngvakeppninni og Eurovision sem verður farið nánar yfir í þessum pistli.

Kristján tók fyrst þátt í Söngvakeppninni árið 1991 og lék þá ansi stórt hlutverk. Hann flutti lagið Stefnumót eftir Guðmund Árnason og Inga Gunnar Jóhannsson. Einnig flutti hann lagið Í dag ásamt Helgu Möller, Ernu Þórarinsdóttur og Arnari Gunnarssyni. Lagið er eftir Hörð G. Ólafsson og textinn eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Það lag varð í öðru sæti. Auk þess var Kristján í bakröddum í flestum hinna laganna. Stöð 2 var á þessum árum með söngvakeppnina Landslagið og tók Kristján einnig þátt í þeirri keppni árið 1991 þar sem hann flutti lagið Enginn eins og þú með Ruth Reginalds.

Tíu árum síðar eða 2001 sneri Kristján aftur í Söngvakeppnina. Eins og áður var hann þá í bakröddum í nokkrum lögum og eitt lagið söng hann sjálfur ásamt Gunnar Ólasyni, lagið Birta eftir Einar Bárðarson og Magnús Þór Sigmundsson. Það lag sigraði eins og þekkt er. Mikið var rætt um á hvaða tungumáli ætti að syngja lagið og fór af stað mikill fjölmiðlasirkus. Á endanum var þó ákveðið að syngja lagið á ensku og hét það þá Angel og Kristján og Gunnar kölluðu sig Two Tricky. Með þeim á sviðinu á Parken í Kaupmannahöfn voru Margrét Eir Hönnudóttir, Regína Ósk Óskarsdóttir, Yesmine Olsson og Nanna Ósk Jónsdóttir. Lagið fékk þrjú stig og deildu Íslendingar neðsta sætinu með Norðmönnum þetta árið. Úrslitunum var líkt við landsleik við Dani í fótbolta árið 1967 sem fór einnig fram á Parken þegar Danir unnu okkur 14-2, en Danir urðu einmitt í öðru sæti þetta árið með lagið Never ever let you go.

Kristján var bakrödd í mörgum lögum í Söngvakeppninni árið 2003. Árið 2011 söng hann lagið Þessi þrá eftir Albert Guðmann Jónsson sem hann flutti ásamt Íslenzku sveitinni. Sama ár var hann í bakröddum í laginu Ástin mín eina sem Erna Hrönn Ólafsdóttir söng,

Hin seinni ár má segja að Kristján sé ein af ríkisbakröddum Íslands. Hann var fyrst í bakraddateymi Íslands árið 2010. Þá flutti Hera Björk Þórhallsdóttir lagið Je Ne Sais Quoi eftir hana og Örlyg Smára. Kristján var í bakröddum ásamt Kristjönu Stefánsdóttur, Heiðu Ólafsdóttur, Ernu Hrönn Ólafsdóttur og Pétri Erni Guðmundssyni. Kristján var einnig í bakröddum í laginu þegar það vann hér heima.

Þremur árum síðar var Kristján aftur í bakröddum. Þá sendum við lagið Ég á líf sem Eyþór Ingi Gunnlaugsson söng. Lagið er eftir Örlyg Smára og Pétur Örn Guðmundsson. Aðrir í bakröddum voru Bergþór Smári Jakobsson, Einar Þór Jóhannsson og Hannes Friðbjarnarson.

Árið 2016 var Kristján svo í bakröddum hjá Gretu Salóme í laginu Hear Them Calling ásamt Lilju Björk Runólfsdóttur, Gísla Magna Sigríðarsyni, Pétri Erni Guðmundssyni  og Hafsteini Þórólfssyni.

Ritstjórn FÁSES.is færir Kristjáni bestu afmæliskveðjur í tilefni dagsins.