Júró-Gróa vol. III


Júró-Gróa er misdugleg í djamminu en skellti sér á Euroclub eftir velheppnað dómararennsli hjá Hatara á mánudagskvöld. Gróa var sérdeilis ánægð með plötusnúð kvöldsins og tók marga snúninga á gólfinu með keppanda Breta í ár, Michael Rice, ásamt því að skella í einn dúett á bombunni Shallow með Lady Gaga og Bradley Cooper. Hápunktur kvöldsins var síðan þegar Hatrið mun sigra var sett á og Gróa skellti sér í öskureinvígi við Michael (sem kunni textann!). Þið megið geta hver vann það!

Júró-Gróa lenti líka á spjalli við Christer Björkman, framleiðanda Eurovision 2019, sem fílar víst atriði Hatara í botn. Hann telur reyndar að Ísland sé sigurstranglegast í ár og segist vera búinn pakka niður regn- og vindjakkanum… Júró-Gróa hitti í framhaldinu hluta af tæknikrúinu sem er víst ekkert spennt fyrir komunni til Reykjavíkur á næsta ári því það er svo kalt og dýrt.

Og meira af djamminu. Heyrst hefur að Victor Crone, keppandi Eista í ár, taki vel á því í djamminu hér í Tel Aviv. Hann var t.d. síðasti maðurinn af svæðinu eftir norræna partýið.

Nú þegar dómararennsli fyrir úrslit Eurovision standa fyrir dyrum hér í blaðamannahöllinni fara gróusögurnar á kreik. Júró-Gróa frétti t.d. í dag að úrslit seinni undankeppninnar fara illa í Lettana. Lettland mun þess vegna að öllum líkindum ekki taka þátt í Eurovision á næsta ári vegna slæms árangurs síðustu þrjú ár. Það heyrðist einnig hér á göngunum að Svíar eru víst búnir að dusta rykið af gestgjafahandbókinni fyrir næsta ár – greinilega spenntir fyrir að halda Eurovision aftur!

Það er mikið í húfi fyrir Hatara næstu tvö kvöld og gætu þeir náð besta árangri Íslands í ár. Þetta er eitthvað sem Júró-Gróa gerir sér grein fyrir og hefur hún því verið að blaðra við blaðamenn hér í höllinni í allan dag, sleikja upp mann og annan og bjóða fram þjónustu sína. Nú hefur Gróa fært sig vel upp á skaftið og nestar nú blaðamenn hér með fróðleik um Hatara sem þeir bera síðan í erlenda fjölmiðla. Gott plan!

Júró-Gróa ætlar að skella sér á galeiðuna í kvöld og fá sér einn eða tvo kokteila. Þetta gæti reynst þrautin þyngri því í dag er Shabbat, hvíldardagur gyðinga, og þá loka bæði Euroclub og Eurocafé og engar almenningssamgöngur virka. En það er að sjálfsögðu Eurovision og þá setja menn bara upp Eurovision shuttle buses og færa djammið í næsta hús við skemmtistaðina. Þá er þetta víst allt saman voðalega kosher!