Fyrsta rennsli fyrir úrslit Eurovision


Þá eru fréttaritarar FÁSES búnir að koma sér fyrir í blaðamannahöllinni eftir að hafa sinnt klúbbskyldum í morgun en aðalfundur regnhlífasamtaka OGAE International er alltaf haldinn á föstudegi fyrir Eurovisionúrslit. Á dagskrá núna er fyrsta rennsli fyrir úrslit Eurovision annað kvöld.

Það lítur allt út fyrir mjög spennandi úrslit á morgun. Jon Ola Sand hefur gefið upp á að í fyrri undankeppninni hafi einungis munað tveimur stigum á lögunum í 10. og 11. sæti og að dómnefndir og almenningur hafi verið sammála um 8 lög af 10. Í seinni undankeppninni hefur Ola Sand sagt að það hafi munað einu stigi á lögunum í 10. og 11. sæti og að dómnefndir og almenningur hafi verið sammála um 7 lög af 10.

Opnunaratriði Eurovisionúrslitanna minnir á eitt risastórt WOW partý. Netta kemur fljúgandi á flugvél til Tel Aviv og að sjálfsögðu er Jon Ola Sand flugumferðarstjórinn. Við sjáum upplýsingar um komu “farþeganna” , þ.e. flytjenda, á skjá í bakgrunni og allir dansarnir eru klæddir í flugþjónabúninga. Já allt opnunaratriðið er flugþema – erfitt að segja hvort þetta sé skelfing eða snilld. Eiginlega bara svo hallærislegt að það fer hringinn. Fánaatriði ársins felst síðan í því að flytjendur koma inn einn af öðrum og eru boðnir á velkomnir á sínu eigin tungumáli. Dana International syngur síðan sigurlag sitt frá 1998, Ilani fyrsti Eurovision keppandi Ísraels tekur númerið sitt frá 1973 og síðan kemur hinn eini sanni Golden boy Nadav Guedj og syngur lagið sitt frá 2015.

Rásröðin fyrir úrslitin var tilkynnt í gær og eins og flestir hafa séð er Ísland 17. í röðinni. Við áttum alveg eins von á því að Hatari fengi að loka Eurovision og vera síðastir á svið en því miður gerðist það ekki. Það er þó ekki alls slæmt að vera nr. 17. Alls sjö sinnum hafa sigurvegarar Eurovision: 1971, 1980, 1992, 1996, 2006, 2007 og 2012. Júbb við gætum verið í verri aðstöðu!

Almennt má segja um æfinguna í dag að flytjendur voru að spara sig fyrir kvöldið. Sérstaklega átti það við um þá keppendur sem komust upp úr seinni undankeppninni í gærkveldi. Margir keppendur voru ekki klæddir í sviðsbúninga og létu æfingafatnað nægja. Æfingin byrjaði heldur brösuglega því Michela frá Möltu byrjaði aftur á sínu framlagi því hún hafði ekkert hljóð í inneyra. Allt gekk hnökralaust fyrir sig en þegar Sergey kom á svið var algjörlega ljóst að hann ætlaði ekkert að eyða kröftum í þessa æfingu. Það er að sjálfsögðu tíðindi að Serhat frá San Marínó hélt lagi sæmilega á æfingunni í dag. Einnig John Lundvik og The Mamas ekki upp á sitt besta og vantaði eilítið upp á samhljóminn í æfingunni. Duncan frá Hollandi skrúfaði frá sjarmanum og átti góða æfingu. Norðmennirnir áttu sömuleiðis fínt rennsli en í dag er þjóðhátíðardagur Norðmanna svo við vitum að þau voru að fartinu í morgun að fara í sendiráðsboð og tilheyrandi.

Að sjálfsögðu var beðið á íslenska blaðamannaborðinu með eftirvæntingu eftir æfingu Hatara. Það er hlé á undan okkar fólki og vilja sumir meina að það gæti þýtt að fólk standi upp frá tækjunum og missi af þessu frábæra íslenska atriði. Í fullri einlægni hlýtur póstkort Hatara að vera það flottasta í ár, algjörlega hlutlaust mat að sjálfsögðu. Íslendingarnir mæta á svið í Hatara-æfingagöllum og er það í fyrsta skipti sem við sjáum það svona leður-laust. Eins og við höfum áður sagt finnst okkur eins og það sé bara ýtt á play þegar Hatari byrjar og það var ekkert öðruvísi í þetta skipti – algjör negla hjá okkar fólki! Hvíldin á sundlaugarbakkanum hefur greinilega borgað sig og átti Klemens sérstaklega góðan sprett.

Æfingin gengur tiltölulega snurðulaust fyrir sig þangað til kemur að Frakklandi. Bilal er greinilega hás í dag og á ekkert sérstaka æfingu. Hin ástralska Kate hefur hvílt kórónuna í dag en mætir þó á sviðið í fína álfkonukjólnum. Spánn þarf að byrja aftur á sínu framlagi vegna einhverja leikmunavandræða að því er virðist. Nokkuð er af fólki í salnum sem tekur vel undir með spænska laginu.

Þá er komið að kosninguna og þá fáum við að sjá fleiri skemmtiatriði. “Mix and Switch” er eitthvað sem margir aðdáendur höfðu beðið eftir í ár en í því felst að Eurovision þátttakendur skiptast á lögum. Conchita, klædd í ákaflega hlutlausan svartan klæðnað með svarta stúdentshúfu, kemur á svið og tekur sigurlag Mans Zelmerlov frá 2015. Á meðan stendur Mans til hliðar og fylgist með. Svo er komið að honum að taka lag Eleni Foureira, Fuego, frá því í fyrra. Eleni bíður á meðan og fylgist með. Stráknum tekst bara nokkuð vel upp með þessa hægari útgáfu af Fuego (Mans-legri útgáfu er eiginlega orðið sem við erum að leita að með smá Ólsenbræðradassi). Eleni kemur síðan á svið, klæðir sig úr bleikum fjarðaslopp og er að sjálfsögðu í Andrean-sleiktum stjörnubúning og tekur Dancing Lasha Tumbai í hraðari útgáfu með fjóra dansara sér við hlið. Loks sjáum við Verku, klædda í hinn hefðbundna Verku búning, undirbúa sig undir flutning á sigurlagi Eurovision í fyrra Toy. Verka er með ömmuna á skemmtara sér við hlið og dansarana fjóra frá því í Helsinki 2007. Eins og atriði Verku þótti framúrstefnulegt á sínum tíma er það ekkert miðað við atriði Hatara í dag! Gali Atari er næst á svið með sigurlag sitt frá 1979 Haleljua. Mans Zelmerlov, Conchita, Verka og Eleni koma síðan og syngja bakraddir með Gali. Úff! Þetta var stórglæsilegt innlag og stefnir í að vera eitt besta skemmtiatriði Eurovision allra tíma – fyrir utan Riverdance og Love, Love, Peace, Peace að sjálfsögðu.

Idan Raichel, þekktur ísraelskur söngvari, tekur lagið Bo’ee (Come To Me) við píanó á meðan almenningur heldur áfram að kjósa. Næsta fáum við Nettu á svið með nýjasta smellinn sinn Nana Banana sem hún syngur úr risastórum bananastól með fjölda dansara sér við hlið. Lagið er ekki eins grípandi og Toy eða smellinn sem hún sendi frá sér eftir sigurinn í Eurovision, Bassa Sababa.

Mikil eftirvænting ríkir í blaðamannahöllinni þegar kynnarnir kynna Madonnu á svið en að sjálfsögðu er hún ekki á svæðinu að taka æfingu með almúganum. Madonna mun taka tvö númer á Eurovisionsviðinu, Like a prayer og nýtt lag sem kemur út í dag.

Eftir að æfingin hefur gengið í þrjá og hálfan tíma hefst loks atkvæðagreiðslan. Hún er að sjálfsögðu eingöngu til að æfa allt heila klabbið og fáum við að sjá hina ýmsu statista úr hópi tæknimanna fagna 12 stigum víða að. Eftir kynningu stiga frá dómnefnd er niðurstaðan sú að Ísland er í neðsta sæti – en það er allt í gamni! Svo er komið að tilkynningu símaatkvæða en fyrirkomulagið í ár er aðeins breytt. Nú eru símaatkvæði tilkynnt í þeirri röð sem dómnefndir settu framlögin og byrjað er neðan frá. Sumsé engar breytingar á stigakerfinu heldur eingöngu á kynningu símaatkvæða. Þetta gengur smurt hjá kynnunum og útsendingu hér í blaðamannahöllinni á þessu fyrsta rennsli fyrir úrslit Eurovision lýkur upp úr kl. 18 á á staðartíma.