Ótrúlegt ævintýri 10 ára


Árið er 2009 og Eurovisionkeppnin er haldin í Moskvu í Rússlandi, en vorveðrið þar hefur sjaldan verið betra. Keppnin fór fram dagana 12, 14. og 16. maí á Ólympíuleikvanginum í Moskvu. Það eru því 10 ár í dag síðan úrslitin fóru fram og ekki úr vegi að rifja það kvöld og aðdragandann upp.

Georgíska laginu We Don´t Want to Put In hafði verið hafnað um þátttöku, það þótti vera með pólitískar yfirlýsingar í óþökk Vladimirs Putin Rússlandsforseta. Tomlaschevy tvíburasysturnar sáust í opnunaratriði fyrri forkeppninar, en þær tóku svo þátt fyrir Rússland árið 2014 með lagið Shine. Í lok hvers póstkorts var  smá rússneksukennsla þar sem áhorfendum gafst kostur á að læra nokkur orð í rússnesku. Frá því byrjað var að halda forkeppnirnar árið 2004 voru kynnarnir með umslög með þeim 10 löndum sem komust áfram og opnuðu þau í tilviljanakenndri röð. Síðan 2009 hefur þessu verið tölvustýrt og var Ísland einmitt fyrsta landið til að koma í síðasta tölvugerða umslaginu í fyrri forkeppninni þriðjudagskvöldið 12. maí. Og eins og við munum trúlega flest hefur það gerst aftur eftir þetta. Við Íslendingar unnum þessa forkeppni og höfum því tæknilega séð unnið Eurovision einu sinni.

Aðalkvöldið 16. maí byrjaði á glæsilegu opnunaratriði, þar sem sigurvegari árins á undan, Dima Bilan kom fram og flutti sigurlagið sitt Believe, reyndar gekk það ekki alveg 100%, en nógu vel samt. Kynnar á lokakvöldinu voru Ivan Urgant og Alsou, sem var fulltrúi Rússa í keppninni árið 2000. Stigin skiptust ótrúlega þetta árið, Tékkum tókst hið nær ómögulega að fá núll stig, en Norðmenn af öllum þjóðum slógu hins vegar stigametið svo um um munaði! Nánar um efstu lögin hér að neðan, en meðal keppanda þetta árið var Malena Ernman fyrir Svíþjóð með lagið La Voix, en dóttir hennar er Greta Thunberg, 16 ára gömul stúlka sem hefur vakið athygli undanfarið fyrir vinnu sína að loftlagsmálum. Hinn gríski Sakis Rouvas var að keppa í annað sinn, hafði áður flutt lagið Shake it árið 2004 og verið kynnir í Aþenu árið 2006. Núna var hann mættur með lagið This is Our Night. Hann endaði í sjöunda sæti sem var trúlega undir markmiðinu.

Í þriðja sæti urðu AySel og Arash með lagið Always fyrir Azerbaijan. AySel er frá Azerbajian, en Arash er fæddur í Íran, en bjó í Svíþjóð sem barn. Lagið fékk 207 stig og voru Azerar að ná sínum besta árangri í Eurovision til þessa. AySel gifti sig og fór að eignast börn árið 2012 og hefur ekkert verið í tónlist síðan. Arash er hins vegar virkur í tónlistarlífinu.

Í öðru sæti með 218 stig, þau langflestu sem við Íslendingar höfum fengið einni keppni, var Jóhanna Guðrún Jónsdóttir með Is It True? Jóhanna var aðeins 18 ára þegar keppnin fór fram, en var vissulega alvön að syngja opinberlega, enda var hún 9 ára þegar fyrsta platan hennar kom út. Í bakröddum hjá Jóhönnu voru Erna Hrönn Ólafsdóttir, sem hefur margoft verið bakrödd í Eurovision og Söngvakeppninni, Friðrik Ómar sem keppti árið á undan og Hera Björk sem keppti árið á eftir. Flestir eru trúlega sammála um að flutningur Jóhönnu var óaðfinnanlegur. Jóhanna söng einnig lagið Nótt í Söngakeppninni hér heima árið 2011, en var ekki valin sem fulltrúi þjóðarinnar.  Síðan hefur hún gefið út nokkrar plötur og verið mikið í tónleikahaldi. Jóhanna gengur nú með sitt annað barn, dreng sem er væntanlegur í heiminn í næsta mánuði.

Lagið Fairytale með Alexander Rybak fékk hvorki fleiri né færri en 387 stig og sigraði með yfirburðum. Þetta stigamet hélst meðan þetta stigakerfi var við líði eða til ársins 2016. Alexander vann lika með mestum yfirburðum í Norsk Melodi Grand Prix, undankeppninni í Noregi. Lagið varð í framhaldinu mjög vinsælt um alla Evrópu og víðar. Hann hefur komið til Íslands, var til dæmis leynigestur á Söngvakeppninni 2017. Alexander snéri svo aftur árið 2018 með lagið That´s How You Write a Song