Tungumálasúpan 2019


Tungumálareglunni var kannski breytt árið 1999 sem gerði það að verkum að meirihluti þjóða sem tóku þátt ákváðu að nýta sér engilsaxneskuna í sínum framlögum. En það kemur þó ekki í veg fyrir að á hverju ári eru alltaf nokkrar þjóðir sem velja að syngja á móðurmálinu, já eða jafnvel tilbúnum tungumálum.

Í ár eru það 13 þjóðir sem annað hvort syngja alfarið á öðru tungumáli en ensku eða blanda saman enskunni við önnur tungumál. Svo eru það fjórar þjóðir sem bjóða okkur uppá smá smjörþef af fjórum tungumálum sem hafa sjaldan, aldrei eða jafnvel fyrir svolitlu löngu síðan heyrst í Eurovision.

En byrjum á þeim sem bjóða uppá allt framlag sitt eða part af því á öðrum tungumálum en enskunni.

Íslenska

Eins og flestir ættu að muna eftir þá heyrðist íslenskan síðast í Eurovision árið 2013, þegar Eyþór Ingi söng lagið “Ég á líf”  (nei, við erum ekki að taka “google translate” útgáfuna af íslensku sem Danirnir komu með í fyrra með). Eyþór og félagar enduðu í 17. sæti í úrslitunum, sem er einmitt annar besti árangur Íslands í keppninni frá því að Jóhanna Guðrún kom heim með silfrið árið 2009. Það er því með sanni hægt að segja að íslenskan eigi alveg heima á Eurovision sviðinu. Nú er því bara að bíða og sjá hvernig Höturum vegnar syngjandi á okkar ástkæra ylhýra í Tel Aviv.

Pólska

Pólverjar bjóða okkur upp á lag í ár sem að mestu leyti er sungið á móðurmálinu pólsku. Pólska heyrðist síðast í Eurovision í framlagi þeirra árið 2014, þegar um helmingur lagsins var á pólsku og hinn helmingurinn á ensku. Pólverjar hafa þó verið nokkuð duglegir að bjóða uppá móðurmálið í keppninni, en framlagið í ár verður það sjöunda síðan 1999 sungið að hluta til eða í heild sinni á pólsku.

Pólska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir ættkvíslinni vestur-slavnesku. Pólska er opinbert tungumál Póllands en er einnig töluð af mörgum í Tékklandi, Þýskalandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og já á Íslandi. Talið er að um 45 milljónir hafi pólsku að móðurmáli sínu.

Slóvenska

Ekki er nú langt síðan við fengum að njóta slóvensku í keppninni, en framlag Slóvena í fyrra var flutt á móðurmálinu. Lagið í ár verður tíunda framlag Slóvena sem flutt er alfarið eða að hluta til á móðurmálinu frá 1999.

Slóvenska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir ætt slavneskra tungumála. Líkist það serbnesku, króatísku og bosnísku, en tilheyrir þó sinni eigin undirættkvísl. Slóvenska er opinbert tungumál Slóveníu ásamt því að vera talað í Ítalíu, Austurríki, Ungverjalandi og Króatíu en um 2,5 milljónir einstaklinga hafa það að móðurmáli.

Ungverska

Ungverjar syngja á ungversku þriðja árið í röð og í ár er það góðkunninginn Joci Pápai sem er mættur á ný. Verður þetta í fimmta skiptið sem Ungverjar syngja á móðurmálinu síðan 1999, en einnig voru stuttir bútar af framlögum þeirra árin 2008 og 2011 á ungversku.

Ungverska er nokkuð sér á báti þegar kemur að flokkun en það er af úrölskum uppruna, nánar tiltekið finnó-úgrík og er því tæknilega séð af sama uppruna og finnska og eistneska. Sáralítil líkindi eru þó með ungversku og fjarskyldum ættingjum þeirra frá Finnlandi og Eistlandi. Aðra fjarskylda ættingja má líka finna í tungumálum sem töluð eru í Rússlandi, þar á meðal udmurt sem rússnesku ömmurnar árið 2012 sungu einmitt á. Ungverjaland er umkringt löndum sem tala tungumál af slavneskum uppruna og hefur það því verið hálfgerð ráðgáta meðal fræðimanna hvernig ungverska þróaðist í það tungumál sem hún er í dag. Að auki ratar ungverska á marga lista yfir erfiðustu tungumálin í heiminum. Ungverska er opinbert tungumál Ungverjalands ásamt því að vera töluð meðal annars í Austurríki, Póllandi, Úkraínu og Slóvakíu. Talið er að um 13 milljónir einstaklinga hafi ungversku að móðurmáli.

Serbneska

Þrátt fyrir að hafa bara byrjað að keppa undir nafni Serbíu árið 2007 er framlag þeirra í ár það níunda sem flutt er á serbnesku. Öll framlög þeirra frá 2007 til 2013 voru sungin alfarið á móðurmálinu. Serbar tóku sér svo pásu frá móðurmálinu í þrjú skipti en mættu aftur á svið í fyrra með serbneskuna í fararbroddi. Í ár er stærstur hluti lags þeirra á móðurmálinu, en smá bútur er þó á ensku.

Serbneska er af indó-evrópskum uppruna, tilheyrir ætt slavneskra tungumála og er náskyld bosnísku, króatísku og svartfellsku. Serbneska er opinbert tungumál í Serbíu ásamt því að vera eitt af þremur opinberum tungumálum í Bosníu-Hersógovínu og eitt af tveimur í Kosovo. Um 12 milljónir einstaklinga tala serbnesku að móðurmáli, en fyrir utan þau lönd sem hafa það að opinberu tungumáli er serbneska einnig töluð meðal annars í Svartfjallalandi, Króatíu og Makedóníu.

Georgíska

Er þetta annað árið í röð sem Georgíumenn flytja framlag sitt alfarið á georgísku, og í annað skiptið sem það á sér stað síðan þeir hófu þátttöku árið 2007. Að vísu voru fyrstu línur framlags þeirra árið 2012 á georgísku á meðan restin af laginu var á ensku, en hver man svo sem eftir því.

Georgíska tilheyrir Kartvelian tungumálaættinni, en sú ætt samanstendur af fjórum tungumálum. Georgíska er þó eflaust sú þekktasta en hin tungumálin þrjú eru í raun ekki opinber tungumál neins lands og eru þau öll töluð innan Georgíu. Líkt og armenska þá býr georgíska yfir sínu eigin stafrófi, sem við mælum einnig með að fletta upp á veraldarvefnum. Um 3,7 milljónir einstaklinga tala georgísku að móðurmáli, en fyrir utan Georgíu er tungumálið talað meðal annars í Rússlandi, Íran, Tyrklandi, Aserbaídsjan og Bandaríkjunum.

Portúgalska

Portúgalir eru mjög duglegir að breiða út boðskap sinn í Eurovision á móðurmálinu portúgölsku, en framlög þeirra hafa ávallt verið alfarið á portúgölsku fyrir utan þrjú þeirra sem innihéldu búta á ensku. Í ár er engin undantekning þar sem framlag þeirra er sungið á móðurmálinu.

Portúgalska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættkvíslinni. Er tungumálið því náskylt frönsku, spænsku og ítölsku. Þrátt fyrir að Portúgal sé ekki gríðarstórt land þá tala um 220 milljónir einstaklinga portúgölsku að móðurmáli, en hún er einnig opinbert tungumál í Brasilíu, Grænhöfðaeyjum, Mósambík, Gíneu-Bissau, Angóla og São Tomé & Principe. Einnig er tungumálið talað í Austur-Tímor, Miðbaugs-Gíneu og á Macau. Þakka má útbreiðslunni hinum afkastamiklu landkönnuðum Portúgala ásamt þeirri staðreynd að Portúgal var eitt sinn helsta nýlenduveldi heims.

Danska/Þýska

Danskan og þýskan fá að renna saman í eina umfjöllun að þessu sinni, þar sem bæði tungumál heyrast í sama laginu. Að vísu eru það bara nokkrar línur af hvoru tungumáli sem heyrist í danska framlaginu í ár, meira að segja bara ein lína á þýsku en höfundi þótti það engu að síður nógu stór partur af laginu til að fjalla um tungumálin sérstaklega. Danska hefur nefnilega ekki heyrst að neinu leyti í Eurovision síðan tungumálareglan var sett á árið 1999. Þýska hefur einnig heyrst lítið, og því er vert að nefna hana sérstaklega, en þó var framlag Þjóðverja árið 2007 að mestu leyti á þýsku. Það eru þó Austurríkismenn sem hafa flaggað þýskunni mest en framlög þeirra árin 2003, 2004 og 2012 voru á austurrískri þýsku.
Svo má reyndar ekki gleyma hinni ógleymanlegu Verku Serduchku frá Úkraínu en í lagi hennar frá 2007 mátti heyra hið ódauðlega “Sieben sieben ai-lju-lju, sieben sieben, ein zwei”.

Bæði danska og þýska eru indó-evrópsk mál sem tilheyra germönsku ættkvíslinni, en danska telst sem norður-germansk mál og þýska sem vestur-germanskt mál. Talið er að danska sé móðurmál um 5,5 milljóna og er að mestu leyti töluð í Danmörku, Grænlandi og Færeyjum. Þýska er talin vera móðurmál um 90 milljóna og er opinbert tungumál í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Það verður þó að nefna að þýskan sem töluð er í Austurríki annars vegar og Sviss hins vegar er nokkuð ólík þeirri sem töluð er í Þýskalandi, það væri næstum hægt að segja að þetta væru þrjú ólík tungumál. En við skulum ekkert vera að fara út á svo hálan ís að þessu sinni.

Króatíska

Meirihluti framlaga Króata frá 1999 hafa verið sungin alfarið eða að hluta til á króatísku, en sex framlög hafa verið á ensku og eitt á ensku og ítölsku. Framlag þeirra í ár er reyndar að mestu leyti á ensku, en síðasta versið er sungið á króatísku ásamt því að viðlagið er flutt tvisvar á króatísku í lok lagsins.

Króatíska er indó-evrópsk mál sem tilheyrir slavnesku ættkvíslinni, nánar tiltekið hinni serbó-króatísku. Talið er að um 5,6 milljónir tali króatísku að móðurmáli en fyrir utan Króatíu er hún einnig töluð í nágrannalöndunum Bosníu-Hersegóvínu, Serbíu, Svartfjallalandi og Rúmeníu.

Albanska

Meirihluti framlaga Albana síðan þeir hófu þátttöku árið 2004 hafa verið á ensku. Framlag þeirra í ár verður þó það sjötta sem flutt er alfarið á albönsku, en einnig hafa tvö framlög þeirra innihaldið búta á albönsku í bland við enskuna. Er þetta annað árið í röð sem Albanir flytja framlag sitt á móðurmálinu.

Albanska er af indó-evrópskum uppruna þar sem það tilheyrir sinni eigin ættkvísl. Tungumálið er opinbert tungumál í Albaníu, Kosovo og Makedóníu, en er þó talað víðar. Albani má finna víða um Evrópu ásamt því að vera nokkuð fjölmennir í Bandaríkjunum, Kanada, Argentínu, Ástralíu og Egyptalandi. Talið er að um 5,5 milljónir einstaklinga tali albönsku að móðurmáli.

Franska

Frakkar hafa nánast allaf sungið sitt framlag alfarið eða að hluta til á frönsku. Þeir komust þó nálægt því að flytja eitt framlag sitt eingöngu á ensku, en lag þeirra árið 2008 var að mestu á ensku en innihélt þó nokkrar línur á móðurmálinu. Fyrir utan frönskuna sjálfa hafa Frakkar einnig boðið okkur uppá framlög á mállýskunum/tungumálunum korsísku, bretónsku og haítískri kreólsku. Í ár er framlag þeirra að mestu leyti á frönsku, en þó finnast nokkrar línur bæði í versunum og viðlaginu sem eru á ensku.
Danir bjóða þó einnig uppá frönsku í sínu framlagi en viðlag þeirra er sungið tvisvar sinnum á frönsku ásamt því að heyra má þrjár aðrar línur í laginu á móðurmáli þeirra Frakka.

Franska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættkvíslinni. Hennar nánustu ættingjar eru meðal annars spænska og ítalska. Franska er ansi útbreitt tungumál en hún er opinbert tungumál í 29 löndum í fimm heimsálfum og talið er að á milli 75 til 80 milljónir einstaklinga tali frönsku að móðurmáli. Bara í Evrópu er franska opinbert tungumál í Frakklandi, Belgíu, Sviss, Mónakó og Lúxemborg.

Spænska

Spánverjar hafa oftast sungið á spænsku, en nokkur framlög þeirra síðan 1999 hafa verið á bæði spænsku og ensku. Aðeins eitt framlag þeirra hefur verið sungið alfarið á ensku, en það var árið 2016. Í ár er framlag þeirra eingöngu á móðurmálinu.

Spænska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættinni, ásamt frönsku, ítölsku og portúgölsku. Spænska er eitt útbreiddasta tungumál í heimi en það er opinbert tungumál um 20 landa en meirihluti þeirra sem tala spænsku að móðurmáli koma frá Suður- og Mið-Ameríku. Tungumálið er talið vera annað mest talaða móðurmál heims, á eftir mandarísku. Á milli 470 og 500 milljónir einstaklinga tala spænsku að móðurmáli.

Ítalska

Ítalir eiga ennþá eftir að senda framlag sem alfarið er sungið á ensku, en þrjú framlög þeirra síðan 1999 hafa verið sungin á bæði ítölsku og ensku. Hafa verður þó í huga að þeir voru ekki með frá 1997 til 2011. Í ár er framlag þeir nánast alfarið á ítölsku, en heyra má þó nokkur orð á arabísku í laginu.

Ítalska er af indó-evrópskum uppruna, nánar tiltekið af rómönsku ættkvíslinni. Meðal hennar næstu nágranna eru spænska og franska. Ásamt því að vera opinbert tungumál Ítalíu er hún það einnig í San Marínó. Sviss og Vatíkaninu. Einnig er tungumálið móðurmál flestra þeirra sem búa á Istra-skaganum, en Ítalía, Króatía og Slóvenía deila honum á milli sín. Talið er að um 90 milljónir einstaklinga hafi ítölsku að móðurmáli sínu.

 

Heiðvirðar tilgreiningar (e.honourable mentions)

Þessi tungumál hér að ofan eru þó ekki þau einu sem heyrast í Eurovision í ár. Það eru nefnilega fjögur önnur tungumál sem við fáum heyra í mýflugumynd. Georgíska framlagið inniheldur eina línu á Abkazh-máli. Er það talað í de facto ríkinu Abkasíu sem staðsett er í norðausturhluta Georgíu. Í framlagi Norðmanna má heyra eina línu oftar en einu sinni sem er á norður-samísku, tungumáli Sama, sem búa í norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Búið var reyndar að nefna arabískuna í framlagi Ítala, en það þýðir samt ekki að hún megi ekki fá að vera með hér. Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem arabíska heyrist á Eurovision sviðinu en hluti af ísraelska framlaginu árið 2009 var á arabísku ásamt því að eina framlag Marókkó í keppninni frá árinu 1980 var flutt á tungumálinu. Að lokum er það svo tannlæknasjarmörinn Serhat sem kemur með tyrkneskuna aftur í Eurovision í framlagi sínu fyrir San Marínó en hún hefur ekki heyrst á Eurovision sviðinu síðan 2006 þegar hluti af tyrkneska framlaginu var flutt á móðurmálinu.