Duncan Laurence sem er talinn sigurstranglegastur af keppendum í Eurovision í ár fékk aukaæfingu eftir að stóru þjóðirnar fimm höfðu lokið annarri æfingu sinni í gær samkvæmt heimildum EscDaily. Á fyrri æfingunum tveimur vakti það athygli að Duncan fékk lengri tíma til æfinga en aðrir keppendur. EscDaily segja að hollenska sendinefndin hafi ekki verið ánægð með myndvinnslu gestgjafanna í síðustu viku. Snýst vandamálið um ljósahnött á sviðinu sem á að rísa upp á ákveðnum tímapunkti.
Það er sjaldséð í Eurovision að atriði fái fleiri æfingar heldur en eru á dagskrá, en árið 2011 fékk Eric Saade frá Svíþjóð aukaæfingu til að brjóta glerbúrið sem hann var með á sviðinu. Aukaæfingar eru einungis veittar ef vandamál við sviðsetningu atriðisins stafar af tækniörðugleikum en t.d. ekki vegna þess að flytjendur þurfa lengri tíma til að æfa atriði sitt.
Í blaðamannahöllinni er mikið skrafað um þetta og sitt sýnist hverjum. Margir velta því fyrir sér hvort að hann sé að fá aukaæfingu vegna þess að stjórnendur keppninnar hafi mikla trú á atriðinu eða hvort að það sé komin upp stress í hollenska hópnum. Það vekur alltaf eftirtekt samsæriskenningasmiðanna þegar lönd fá lengri æfingatíma eða breytt er út af dagskránni. Enda er það sjaldséð að lönd fái að breyta planinu sem venjulega er mjög strangt því allir eigi að fá sama tækifæri til að kynnast aðstæðum og æfa atriði sitt á sviði. Það vakti líka mikla eftirtekt þegar Austurríki og Svíþjóð skiptu um æfingatíma í dagskránni á þriðja degi æfinga. Þá heyrðist í blaðamönnum að Svíþjóð hafi fengið aukarennsli sem ekki var hægt að sjá á skjánum í blaðamannahöllinni þrátt fyrir að hljóðið hafi heyrst.
Að auki herma óstaðfestar fregnir að Eistland hafi fengið aukaæfingu um liðna helgi vegna erfiðleika við stormgrafíkina. Moldóva mun einnig hafa fengið aukaæfingu þar sem æfa þurfti gerð sandlistaverksins betur.