Stóru þjóðirnar fimm og gestgjafirnir æfa í fyrsta skipti


Nú hafa öll lönd í fyrri og seinni undankeppni æft tvisvar sinnum á sviðinu hér í Expóhöllinni. Þá er loksins komið að fyrstu æfingum stóru þjóðanna fimm, Frakklandi, Spáni, Ítalíu, Bretlandi og Þýskalandi. Margir velta fyrir sér af hverju fimm þjóðir komist sjálfkrafa í úrslit Eurovision. Ástæðan er sú að þessar þjóðir leggja meira til keppninnar og uppsafnað áhorf í þessum löndum er það mikið að án þeirra væri erfiðara að selja auglýsingar. Í dag æfa gestgjafarnir, Ísrael, einnig í fyrsta skipti, en þeir komast að sjálfsögðu beint í úrslitin þar sem keppnin er haldin hér.

Fréttin verður uppfærð eftir því sem æfingum vindur fram í dag.

Kobi frá Ísrael

Ísrael á sinni fyrstu æfingu. Mynd: Andres Putting.

Gestgjafarnir með lagið Home hefja fyrstu æfingar landa sem eru komin beint í úrslit Eurovision. Kobi Marimi er mættur á svið í svörtum smókingjakka með þverslaufu með silfurbrúnum (svolítið eins og Hovi Star, Ísrael 2016). Með Kobi á sviðinu eru fimm bakraddir, tvær söngkonur og þrír söngvarar. Það eru sex stöplar á sviðinu og við sjáum fimm Kobi-a á þeim, í svipuðum dúr og í myndbandinu við lagið. Hér er greinilega verið að nota sömu leikmynd og við sáum hjá Rússum og Norður-Makedóníu. Í síðasta rennslinum fáum við að sjá vænan Gullfoss (e. golden shower). Eins og okkur grunaði vantar ekkert upp á sönginn hjá Kobi og Ísraelarnir á vinnusvæði blaðamanna eru greinilega sáttir við sinn mann miðað við klappið í blaðamannahöllinni. Hér er á ferðinni gott gestgjafaatriði sem fór fram úr væntingum sem gerðar voru til þess í byrjun.

Bilal frá Frakklandi

Frakkland á æfingu í dag. Mynd: Andres Putting.

Bilal frá Frakklandi hefur mátt þola harða gagnrýni vegna uppruna síns en hann er frá Marakkó. Bilal er klæddur í hvítar buxur og magabol með síða ljósa hárkollu sem heitir víst Eurovision (en ef þú kynnist henni vel máttu víst kalla hana Wiwi). Við byrjum á að sjá andlit Bilal í rammanum og á það er varpað bakgrunni, við sjáum að hann grætur tárum í frönsku fánalitunum og orðið kóngur á mörgum tungumál (halló Mans Zelmerlov 2015 og Aserbaíjan í ár). Inn á svið kemur Lizzy sem er þekktur bandarískur dansari (m.a. fræg fyrir að dansa burlesque) sem er ekki vaxinn samkvæmt hefðbundnum viðmiðum dansara. Hún er einnig með einhvers konar sjúkdóm sem veldur bólgum í heila. Því næst fáum við dansara sem er sjón- og heyrnarlaus. Í bakgrunni sjáum við myndir af dönsurunum og ummælum um þær á samfélagsmiðlum. Dansararnir eru greinilega ekki að leika neitt hlutverk heldur eiga að vera þær sjálfar. Hér á greinilega að höfða til minnihlutahópa. Í lok atriðisins sjáum við mynd af barnungum Bilal sem gerir kórónumerkið sem hann er þekktur fyrir. Í bakgrunninum stendur: We are all kings, we are all queens. Frammistaða Bilal í söngnum fer svolítið fyrir ofan garð og neðan því fólk í blaðamannahöllinni er svo hrifið af sviðsetningunni og er mikið klappað í blaðamannahöllinni.

Miki frá Spáni

Spánn æfir í Expóhöllinni. Mynd: Andres Putting.

Við sjáum risastórt dúkkuhús á sviðinu sem Miki og fjórir dansarar standa inn í. Í bakgrunni sjáum við margar litasprengjur, næstum því eins og vera staddur í paintball orrustu. Spánverjar telja greinilega ekki nóg að vera sex á sviðinu því þeir eru mættir með risastórt vélmenni á sviðinu. Nei bíddu við, það er maður sem stjórnar vélmenninu strengjabrúðunni sem lítur út eins og gína sem er lýst innan frá. Það er mikið partý á sviðinu eins og við var að búast. Miki dregur upp Gopro myndavél og tekur mynd af áhorfendunum sem er varpað á bakgrunninum. Svo taka þau fimm sprettinn út á landganginn. Miki og félagar fá frábært klapp í blaðamannahöllinni eftir vel heppnaða æfingu.

Mahmood frá Ítalíu

Fulltrúar Ítalíu æfðu í fyrsta skiptið í dag á stóra sviðinu. Mynd: Andres Putting.

Það má skera spennuna í blaðamannahöllinni með hníf, svo spenntur er mannskapurinn eftir æfingu Ítalanna. Ekki bara er heiti flytjandans líkt íslensku hljómsveitinni Mammút heldur fjallað lagið um peninga eins og Hatrið má sigra. Ofan á það líkist Mahmood Friðriki Dór.  Mahmood er mættur á sviðið með þrjár dansara með sér. Hann er klæddur í húðlitaðan rúllukragabol, skyrtu með páfuglamynstri, svörtum buxum og þykku ítölsku attitúdi. Dansarar eru klæddir í sparieinkennisbúning álversins í Straumsvík en eru væntanlega betri söngvarar en dansarar. Í bakgrunni sjáum við texta lagsins, útlínur fegðanna sem lagið fjallar um, andlit Mahmood brotan í marga hluta og dollarar brenna. Í blaðamannahöllinni er klappað með lagi Mahmood – meira segja á réttum stöðum – og stemningin góð. Sviðsetning Soldi fær eilítið misjafnar viðtökur, margir mjög ánægðir en aðrir vonsviknir.

Michael frá Bretlandi

Michael Rice æfir á sviðinu í Tel Aviv. Myndir: Andres Putting.

Michael byrjar lagið Bigger than us í Lundúnarþoku. Við fáum að sjá ljós sem tifa í takt við lagið og bakgrunnurinn er stjörnuþoka. Michael er svartklæddur og í leðurjakka með fimm hvítklæddar bakraddir. Bretar eru ekki með flugelda á sviðinu en við sjáum reyksprengjur. Í risi lagsins birtist eldhringur í sviðsgólfinu sem sexmenningar standa öll á. Frammistaða Michael í söngnum er góð en fátt annað í sviðsetningunni vekur áhuga. Bretarnir í kringum fréttarritara í salnum eru ekki hrifnir af æfingunni en það er þó klappað í lok æfingar fyrir Michael.

S!sters frá Þýskalandi

Fulltrúar Þýskalands á æfingu í dag. Mynd: Thomas Hanses.

Sviðsetning lagsins Sister er einföld. Laurita er klædd í svartan samfesting með gylltum blómum og Carlotta er svörtum leðurbuxum og magabol. Þær byrja á sitthvorum enda sviðsins og ganga síðan landganginn og mætast í miðjunni. Í bakgrunni er að finna valin orð úr texta lagsins og myndir af systrum í bakgrunni en endar síðan á tveimur kvennamerkjum sem renna saman í friðarmerkið. Klappið er ekki sterkt í blaðamannahöllinni eftir æfingu systranna, sem eru ekki systur, en þó til staðar. Í síðasta rennslinu fáum við síðan að sjá gullfoss í lok atriðisins. Í hreinskilni sagt er fátt sem vekur athygli eða hrifningu á þessu þýska framlagi. Kannski ættu þær að biðja aðalstyrktaraðila keppninnar í ár, My Heritage, um DNA greiningu og kanna hvort þær eru systur í raun og veru – það væri áhugaverðara!