Sagan á bak við nýja kylfu trommugimpsins


Um fátt var meira rætt eftir fyrstu æfingu Hatara hér í Tel Aviv en að Einar Hrafn Stefánsson, eða trommugimpið eins hann er vanalega kallaður, hefði skipt út gaddakylfunni sinni fyrir tvær svipur. Líktu einhverjir aðdáendur svipunum við afþurrkunarkústa eða pompoms eins og klappstýrur nota. Þóttu svipurnar tvær gefa Hatara mýkri ímynd og ljóst að aðdáendur eru að fíla í botn þessa hörðu, þversagnakenndu, ímynd Hatara.

Íslenska sendinefndin hefur greinilega hlustað á þessar athugasemdir því á annarri æfingu Hatara var búið að skipta svipunum út fyrir nýja kylfu eða nokkurs konar hamar. Óstaðfestar fregnir herma að Hataramenn hafi skroppið í byggingavöruverslun hér í Tel Aviv til að bjarga því sem bjarga varð.

Erfitt er að lesa úr svipbrigðum Einars hvernig honum líst á nýju kylfuna en glæsileg er hún. Mynd: Eric LeMan.

Salóme Þorkelsdóttir teipar tréprikið. Mynd: ruvgram.

Salóme Þorkelsdóttir og Gísli Berg teipa einhvers konar blöðrur eða bolta á enda trépriksins. Allt teipað mörgum sinnum. Mynd: ruvgram.

Á instagram reikningi RÚV er að finna nokkur skot af gerð leikmunarins umtalaða. Þar sjáum við Salóme Þorkelsdóttur og Gísla Berg, framleiðendur hjá RÚV, búa til leikmuninn með að teipa tréprik með svörtu gafferteipi. Þau teipa síðan það sem virðist vera tveir boltar eða blöðrur á endunum. Á öðrum endanum var síðan keðjum vafið um boltann. Sannarlega hugmyndaríkt fólk hér á ferðinni og gott dæmi um hugarfar Íslendingsins; þetta reddast!

Á blaðamannafundi Hatara eftir æfingu kom fram í máli Klemensar Hannigan að leikmyndahönnuðurinn Jörgen Getz, sem væri með doktorspróf í öreindafræði, vinni nú ötulega að leikmunagerð upp á hóteli íslensku sendinefndarinnar. Hamarinn mun nefnilega hafa brotnað í öllum hamaganginum á æfingunni í gær. Í ljósi myndskeiða á ruvgram drögum við það þó í efa Hatari sé með öreindafræðing með sér í Tel Aviv enda Klemens þekktur fyrir glens og grín. Góð saga á samt að sjálfsögðu aldrei að gjalda sannleikans!