Blaðamannafundir stóru þjóðanna fimm og gestgjafa


Þá er komið að blaðamannafundum stóru þjóðanna fimm og gestgjafa. Fréttin verður uppfærð eftir því sem blaðamannafundum vindur fram.

Kobi frá Ísrael

Kobi undirbýr sig fyrir æfingu baksviðs. Mynd: Thomas Hanses.

Kobi er mjög tilfinninganæmur og átti fannst erfiðast að reyna að syngja á sviðinu án þess að fara að gráta. Sjá mátti að hann felldi tár á æfingunni áðan og hann klökknaði við að segja frá þessu á blaðamannafundinum. Það er ýmislegt í atriðinu sem hann vill breyta og það er verkefnið framundan hjá Ísraelska hópnum. Kobi leitaði ráða hjá listamönnum sem hafa keppt áður fyrir Ísrael, þeirra á meðal Nettu, Hovig, Imri og Dönu International (eða National eins og hún er kölluð hér). Þau voru einhljóma um að hann ætti að njóta sín og skemmta sér á Eurovision því fyrir flesta er Eurovision “Once In A Lifetime” tækifæri. MIkil athygli fylgir því að taka þátt í Eurovision og honum þykir vænt um þá ást sem fólk hefur sýnt honum. Lagið hefur breyst frá útvarpsútgáfunni og er núna í sviðsútgáfu eins og hann kallar það. Það var gert til að vekja meiri viðbrögð hjá áhorfendum. Útvarpsútgáfan verður þó áfram sú sama. Æskuvinkona Kobis hvatti hann til að taka þátt í ísraelsku forkeppninni. Hún sagði að Kobi hljómaði of mikið eins og einhleypu vinir þeirra sem væru of hræddir til að skrá sig á stefnumótavefi, en væru samt að kvarta undan því að vera einhleypir. Fyrirmynd Kobis er móðir hans og hann reynir að heyra alltaf í mömmu sinni áður en hann fer á svið. Heilt yfir er Kobi ánægður með lagið og er mjög ánægður að hafa eignast lag sem hann mun hafa með sér um ókomna tíð. Kobi er mikill Eurovision áhugamaður og uppáhaldslagið hans er lagið Angel sem Chiara frá Möltu söng árið 2005 og lenti í öðru sæti. Þegar Kobi var yngri var hann feitur og honum þótti svo magnað að sjá að söngkona sem var vaxin eins og hann gæti lent í öðru sæti í Eurovision og allir áhorfendur samþykktu hana fyrir það hver hún er. Það gaf honum mikinn kraft að hafa fyrirmynd eins og Chiöru sem á þremur mínútum breytti áliti hans á sér og heiminum. Kobi hefur misst 50 kg, en áður en hann grenntist sagði fólk ljóta hluti um hann, ekki bara börn heldur líka fullorðnir. Hann hélt að ef hann myndi grennast yrði hann ánægður. Þegar hann hafði grennst um 50 kg áttaði hann sig á því að hann var ekki ennþá ánægður. Þá áttaði hann sig á því að hann yrði ekki ánægður fyrr en hann yrði ánægður með sjálfan sig. Í dag er Kobi jójó í þyngd og fer vigtin upp og niður.

Bilal frá Frakklandi

Bilal baksviðs í dag fyrir æfingu í Expóhöllinni. Mynd: Thomas Hanses.

Franski hópurinn hefur verið í Ísrael frá því á mánudaginn og hafa æft í 6 tíma á hverjum degi síðan þau komu. Bilal vandist sviðinu fljótt og er ánægður með æfinguna. Draumur Bilals er að vera hann sjálfur og um leið ekki ofhugsa drauma sína. Með Bilal á sviðinu eru tveir dansarar. Önnur er heyrnarlaus frá Tævan (náðum því miður ekki nafninu) og Lizzie sem hefur vakið athygli fyrir að vera ekki vaxin eins og flestir dansarar. Fólk hefur sagt við Bilal og dansarana tvo sem eru á sviðinu með honum að það geti ekki gert ýmsa hluti vegna þess hvernig þau líta út en þau vilja sýna fram á hvað þau geta gert. Ef þau hefðu ekki látið sig dreyma og hlustað á drauma sína væru þau ekki hér í dag. Lizzie missti móður sína þegar hún var 5 ára gömul og frænka hennar sem ól hana upp skráði hana í allskonar frístundir til að dreifa huga hennar. Þar á meðal skráði hún hana í dans sem hún elskaði mikið og hefur dansað síðan þá. Lizzie er frá Bandaríkjunum og hafði aldrei heyrt um Eurovision fyrr en hún var fékk tölvupóst í mars þar sem var verið að biðja hana um að taka þátt. Hún leitaði að Eurovision og sá að Celine Dion hafði unnið keppnina og vissi þá að þetta væri alvöru keppni. Heyrnarlausi dansarinn hefur dansað í 20 ár og hefur á ferli sínum heyrt það marg oft frá öðrum að hún geti ekki dansað. Hún er sko búin að sýna þeim í dag að það var ekki rétt – því hún var frábær á sviðinu. Bilal er kominn af Múslimum en álítur sig ekki Múslima þó að fjölskyldan hans sé það. Hann fær fullt af andstyggilegum skilaboðum á samfélagsmiðlum á hverjum degi en er ekki að taka það inn á sig. Það sem skiptir máli fyrir Bilal er að syngja lagið sitt um sjálfsvirðingu og að koma skilaboðum sínum áleiðis til þeirra 200 milljóna sem munu horfa á keppnina. Bilal er upp með sér að vera líkt við Conchitu, en vill um leið fá að vera hann sjálfur til að geta komið skilaboðum sínum áleiðis. Svo segir Bilal að það sé frábært að í framtíðinni geti hann sagt börnunum sínum að hafi tekið þátt í Eurovision og að þau eigi að fara að klára að vaska upp. Bilal er líka ánægður með að fá tækifæri til að sýna hvernig ungdómurinn í Frakklandi er og geta um leið átt tækifæri á að breyta heiminum. Bilal er mikill aðdáandi Eurovision og finnst skrítið eftir að hafa margoft kosið Sergey árið 2016, að vera að keppa við hann í dag. Þegar Conchita vann árið 2014 var Bilal 14 ára gamall og þegar hann skoðaði tónlistarmyndbandið hennar Conchitu var hann í áfalli þegar hann sá hvað margir voru að skrifa ljóta hluti um hana svo hann ákvað að skrifa falleg skilaboð til Conchitu á Youtube. Bilal hefur greinilega kynnt sér lögin í keppninni eins og hann segist gera á hverju ári því hann kom með tilvitnun í lag Asera í ár “Shut Up About It”. Bilal lýsti því fyrir blaðamönnum hvernig myndvarpi er notaður til að varpa mynd á andlitið á sér og hvernig myndvarpinn getur ellt hann á sviðinu svo hann geti hreyft sig.

Miki frá Spáni

Miki frá Spáni undirbýr sig fyrir æfingu. Mynd: Thomas Hanses.

Miki vildi útskýra fyrir blaðamönnum söguna sem atriðinu er ætlað að segja. Á sviðinu eru einskonar dúkkuhús þar sem hann og dansararnir byrja hvert í sínu herbergi að gera eitthvað hversdagslegt í einrúmi. Miki fer svo milli hæða í húsinu til að vekja alla upp til lífsins og þá lýsist herbergið upp eftir því sem hann fer milli herbergja. Stóra strengjabrúðan sem heitir Bako mætir svo inn á sviðið og á að standa fyrir neikvæða hluti í lífinu. Dansararnir og Miki losa sig svo við neikvæðu hlutina og strengjabrúðan fer af sviðinu. Þegar hann er farinn sameinast þau öll á sviðinu og dansa. Miki fer svo að bjóða áhorfendum í salnum að taka þátt í dansinum. Á skjánum sjást fingraför sem þau segja að standi fyrir það að við erum eins en á sama tíma höfum við ólík fingraför og þess vegna einstök. Miki talar um að við þurfum að hætta að líta til baka og reyna að horfa til framtíðar. Í forkeppninni á Spáni segist Miki hafa verið orðinn mjög móður í lok lagsins þar sem hann var ekki í nógu góðu formi. Hann hefur notað tímann síðan hann vann til að æfa cross fit og útihlaup til að geta haldið laginu uppi. Það hefur greinilega gengið mjög vel hjá honum því að hann virtist ekki hafa átt í miklum erfiðleikum með að syngja þrátt fyrir að hafa verið á fullu á sviðinu á æfingunni í dag.

Mahmood frá Ítalíu

Mahmood frá Ítalíu undirbýr sig fyrir fyrstu æfingu í Expóhöllinni. Mynd: Thomas Hanses.

Mahmood er mættur á blaðamannafundinn í Prada-æfingagalla og er ánægður með æfinguna en fannst þriðja rennslið ganga best. Hann þarf ekki kennslu í því hvernig maður segir Soldi á hebresku heldur kann það utanbókar – vel undirbúinn náungi! Mahmood hefur jafnað sig eftir veikindin í fyrri hluta þessarar viku en finnst hann vera aðeins þreyttur. Lagið Soldi (peningar) er persónuleg saga Mahmood um æsku hans. Mahmood fannst honum þegar hafa afrekað miklu bara með þátttöku í Sanremo Festival og átti erfitt með að trúa því að hann hafi unnið. Honum finnst það sannur heiður. Mahmood lætur neikvæðar athugasemdir sem falla í hans garð sem vind um eyru þjóta. Hluti lagsins Soldi er á arabísku (væntanlega þriðja skipti sem það gerist í Eurovision – hin tvö skiptin eru Marakkó 1980 og Ísrael 2009) og eru orð sem móðir hans notaði í uppvexti Mahmood. Mahmood lokar blaðamannafundinum með því að taka Sound of silence með Simon&Garfunkel.

Michael Rice frá Bretlandi

Michael Rice frá Bretlandi á æfingu. Mynd: Andres Putting/Eurovision.tv

Michael á vöfflubúð sem að hann er búinn að loka tímabundið vegna þess að hann hefur ekki tíma til að sinna búðinni. Á fyrstu æfingunni var Michael mjög stressaður, en það rann af honum þegar leið á æfinguna. Síðast liðin tvö ár hefur Michael verið á fullu að koma sér á framfæri sem tónlistarmaður. Hann er í samskiptum við plötuútgáfur og ætlar sér að gefa út plötur eftir þátttökuna í Eurovision. Michael er með fullt af Eurovision stjörnum í liðinu sínu sem hafa ráðlagt honum að halda einbeitingunni og hafa trú á sjálfum sér. Hann finnur fyrir miklum stuðningi heima fyrir þar sem andlit hans er á auglýsingum á strætisvögnum og margir hafa skipt út prófílmyndinni sinni á Facebook fyrir mynd af honum. Í heimabæ Michaels er búið að setja upp stóran skjá til að fólk geti komið saman til að horfa á hann keppa í úrslitum Eurovision. Michael hefur tekið þátt í baráttunni gegn einelti, en hann hefur sjálfur lent í einelti. Atriðið er frekar látlaust og það er af ásettu ráði sem það var ákveðið að fókusa á Michael enda hefur hann mikinn sviðssjarma sem væri synd að láta skyggja á með leikmyndum.

S!sters frá Þýskalandi

S!sters undirbúa sig fyrir æfingu baksviðs í Expóhöllinni. Mynd: Thomas Hanses.

Systurnar (sem reyndar eru ekki alvöru systur) Laurita og Carlotta sem skipa dúettinn S!sters voru báðar hrifnar af salnum. Meðan þær biðu eftir að komast á sína æfingu fylgdust þær með Michael Rice sem lét þær fá gæsahúð með flutningi sínum. Carlotta hitti Lenu þegar hún var 12 ára og söng með henni. Hún var mjög upp með sér að fá að vinna með henni. Laurita er vinkona Lenu og hún segir að það sé gott að eiga vin sem hefur gengið í gegnum Eurovision ferlið og geta deilt með henni upplifun sinni. Það vekur athygli blaðamanna að systurnar eru með bæði þýska og ísraelska fánann með sér á blaðamannafundinum. Þær hittust fyrst þegar þær tóku upp lagið, fyrir það höfðu þær bara heyrst í síma. Símtölin voru eins og hraðstefnumót þar sem þær spurðu hvor aðra til dæmis á hvaða tónlist þær hlustuðu til að kynnast betur. Þeim finnst hjálp í því að vera tvær á sviðinu að ganga í gegnum þetta og öfunda ekki þá sem eru einir á sviðinu og geta ekki deilt athyglinni eða haft einhvern sem er að ganga í gegnum það sama við hliðina á sér. Árin 1979 og 1999 þegar keppnirnar voru haldnar í Ísrael lenti Þýskaland í þriðja og fjóra sæti. Þær finna ekki til mikillar pressu og ætla bara að gera sitt besta og skemmta sér. Þær vilja geta sagst hafa gefið sitt besta í flutninginn og vera ánægðar með frammistöðu sína og segjast ekki búast við neinu sérstöku, en leyfa sér að sjálfsögðu að dreyma. Formaður sendinefndar Þýskalands var með á sviðinu og hann segist hafa hitt systurnar fyrst þegar þær tóku upp lagið fyrir þýsku forkeppnina. Síðan þá hafa þau unnið náið saman og hafi ferðast mikið. Hann vill samt ekki taka svo djúpt í árinni og segja að hann sé þriðja systirin. Hann segir að samstarfið hafi gengið vel og vonar að samstarf þeirra endi ekki þegar Eurovision er búið. Hann kom með vinsamleg tilmæli til íbúa Tel Aviv að passa vel upp á hunda og ketti því að systurnar séu svo hrifnar af dýrum að þær væru vísar til að taka þá með sér heim.