Júró-Gróa er mætt til Tel Aviv


Júró-Gróa er mætt til Tel Aviv og er að sjálfsögðu á fullu í að snapa slúður hér í borginni milli þess sem hún fær sér hanastél á ströndinni (eitthvað sem fréttaritarar FÁSES.is hafa ekki tíma í).

Gróa er búin að finna út að finnska og íslenska sendinefndin búa á sama hótelinu. Gróa mætti að sjálfsögðu á staðinn til að taka út aðstæður og komst að því að allur vodki á hótelbarnum væri að klárast. Starfsfólki barsins ber ekki saman um hvor sendinefndin væri ábyrg fyrir þessari miklu aukningu í sölu á vodka. Líklegast gera heimamenn ekki greinarmun á hrognamálunum sem gestirnir úr norðri tala.

Í boði borgarstjóra Herzliya á mánudagskvöldið þar sem öllum sendinefndum var boðið, hittust flestir keppendur sem eru mættir til Tel Aviv og skemmtu sér saman. Að sjálfsögðu mætti Gróa og skemmti sér konunglega meðal stjarnanna. Vel fór á með pólsku stúlknasveitinni Tuliu og Gróu sem héldu uppi stuðinu með þjóðlegum hringdansi á dansgólfinu.

Sarah McTernan frá Írlandi var hressust á svæðinu og dansaði eins og villt grúppía upp við sviðið á meðan Albert í Lake Malawe var í ólympískum kraftsleik við kærustuna sína á barnum. Hatari létu sig að sjálfsögðu ekki vanta en voru upptekin allan tímann við að leyfa öðrum keppendum að fá myndir með sér.

Vel fór á með Serhat og Hatara sem fengu mynd af sér saman. Serhat er enginn aukvisi þegar kemur að því að heilla fólk upp úr skónum. Gróa og Serhat fengu sér að sjálfsögðu drykk saman og spjölluðu vel og lengi. Á meðan fór vel á með Sebastian frá Finnlandi og Pænda frá Austurríki á næsta borði.

Um miðnætti þegar partíið var farið að líða undir lok fengu Gróa og Pænda frá Austurríki að teika rútuna með tékknesku sendinefndinni aftur í bæinn. Þeir síðustu sem voru eftir á barnum þegar Gróa var að yfirgefa svæðið voru að sjálfsögðu úr finnsku sendinefndinni enda enn til nóg af vodka.

Júró-Gróa hefur einnig notað tímann til að skoða aðstæður í Tel Aviv Expo þar sem Eurovision er haldin. Hún gafst fljótlega upp á því að eyða tíma í Delegation Bubble þar sem keppendur og sendinefndir hafa aðstöðu til að slaka á milli æfinga, þar sem engir áfengir drykkir eru í boði þar. Það fer víst ekkert alltof vel í sendinefndirnar sem eru farnar að streyma yfir á kaffiteríu blaðamanna sem selur áfenga drykki gegn vægu gjaldi.

Böggull fylgir þó skammrifi, eða bjórnum í þessum tilfelli, því Júró-Gróa fékk sér kjúklingapítu með drykknum í matarvagni hér fyrir utan Expóhöllina. Hún var víst eitthvað skrýtinn þegar hún borðaði hana en nú er Júró-Gróa því miður límd við postulínið upp á hóteli vegna ófyrirséðna aðstæðna…