Góðkunningjar Eurovision 2019


Eurovision er eins og Pringles, einu sinni smakkað þú getur ekki hætt! Þessari uppáhalds söngvakeppni Evrópubúa og Ástrala fylgir ákveðin fíkn og keppast sömu einstaklingar stundum ár eftir ár við það að komast á stóra Eurovision sviðið.
Og mörg þeirra sem komast þangað á endanum fá ekki nóg við eitt skipti heldur vilja koma aftur og aftur.
Í ár er engin undantekning þar á enda eru nokkrir góðkunningjar Eurovision sem munu stíga á svið, já eða verma bekkinn baksviðs, í Tel Aviv.

 

Norður-Makedónía

Hið nýendurnefnda land Norður-Makedónía býður uppá fyrsta góðkunningjan í ár, en það er hin 33 ára Tamara sem mun heiðra okkur með endurkomu sinni. Tamara þessi kom okkur aðdáendum fyrst fyrir sjónir í framlagi Makedóníu árið 2004 þegar hún var í bakröddum fyrir Tose Proeski. Árið 2008 stóð hún öðru sinni á Eurovision sviðinu í laginu “Let Me Love You”. Lagið flutti hún með kollegum sínum þeim Vrčak og Adrian í seinni undankeppninni það ár. Þau enduðu í 10. sæti með 64 stig en komust þó ekki áfram í aðalkeppnina. Reglurnar árið 2008 voru nefnilega á þá leið að dómnefndin bjó yfir því valdi að velja tíunda lagið áfram ef upp kæmi sú staða að áhorfendur og dómnefnd væri ekki sammála um þau tíu atriði sem kæmust í aðalkeppnina. Dómnefnd valdi Svíagrýluna Charlotte Perelli með lagið “Hero” áfram og þess vegna þurfti Tamara og félagar hennar að sitja eftir með sárt ennið í undankeppninni það árið. Og nú 11 árum seinna er Tamara mætt á ný með það að markmiði að koma Norður-Makedóníu í aðalkeppnina í fyrsta skiptið síðan 2012.

Tamara hefur reyndar stigið einu sinni á Eurovision sviðið þarna í millitíðinni, en hún var í bakraddateymi Makedóna árið 2014, en það var einmitt eldri systir hennar hún Tijana sem flutti framlag Makedóna það ár, “To the Sky“.

Rússland

Hinn eini sanni Sergey Lazarev er mættur á ný. Hann vakti mikla athygli í Stokkhólmi 2016 þar sem hann var að berjast um toppsætið við Úkraínu og Ástralíu. En eftir æsispennandi stigagjöf þar sem Rússar unnu símakosninguna en lentu “bara” í fimmta sæti hjá dómnefndum endaði rússneski sjarmörinn með bronsið í höndunum. Aðdáendur misstu næstum andann af spenningi þegar Sergey var tilkynntur sem fulltrúi Rússa í ár og rauk Rússland á toppinn hjá veðbönkum þrátt fyrir að lag hefði ekki verið valið. Spenningurinn hélst lengi þar sem Rússar voru með þeim síðustu sem kynntu lagið sitt. Þeir hafa þó haldist við toppinn á meðal veðbanka og nú er bara að bíða og sjá hvort að hann Sergey nái að toppa árangur sinn frá því 2016.

San Marínó

San Marínó á líklegast metið þegar kemur að endurkomum Eurovision-stjarna á stóra sviðinu. Valentina Monetta er náttúrulega ókrýnd endurkomudrottningin þar sem hún hefur til þessa keppt fyrir hönd smáríkisins San Marínó hvorki meira né minna en fjórum sinnum. En í ár er það tyrkneski sjarmörinn Serhat sem hefur ákveðið að splæsa í endurkomugjaldið að þessu sinni. Serhat vakti mikla athygli árið 2016 og má dæma hvort sú athygli hafi verið góð eða slæm. En diskópabbinn með hattinn sinn smeygði sér inn í hjörtu margra aðdáenda og glöddust ansi margir þegar Serhat var tilkynntur sem fulltrúi San Marínó í ár. Landið hefur bara einu sinni komist í úrslitin en Serhat var þó ekki langt frá því 2016, þar sem hann lenti í 12. sæti í fyrri undankeppninni sem var tveimur sætum ofar en okkar eigin Greta Salóme. En nú er hann mættur aftur og ætlar sér að koma örríkinu San Marínó í annað sinn í úrslitin.

Serbía

Hin serbneska Nevena er mögulega ekki augljósasti góðkunninginn, en síðast þegar hún kom fyrir sjónir áhorfenda var hún partur af stúlkna-tríóinu Moje 3 sem flutti framlag Serbíu árið 2013. Það ár var Serbía hársbreidd frá því að komast í úrslitin, en þurftu að sætta sig við 11. sætið einungis sex stigum á eftir Eistlandi í 10. sætinu. Þær stöllur unnu þó eitt, en það voru hin umdeildu Barbara Dex verðlaun fyrir verstu búningana. En nú er Nevena komin aftur og í þetta skiptið sem sólóisti. Hún ætlar sér að koma Serbum í úrslitin og sleppa við Barbara Dex-verðlaunin í þetta skiptið.

Ungverjaland

Ungverjar bjóða okkur uppá sjarmatröllið hann Joci Pápai, en hann heiðraði Evrópu fyrst með nærveru sinni í Kænugarði árið 2017. Þá kom hann Ungverjum inn á topp 10 og leyfði okkur að njóta Róma-tungumáls sem talað er í Ungverjalandi í fyrsta skiptið í sögu Eurovision. Joci vakti mikla athygli á meðal aðdáenda og var því mikil eftirvænting þegar fréttist að hann væri að taka aftur þátt í forkeppninni í heimalandinu. Hann virðist njóta álíka vinsælda í Ungverjalandi því hann vann bæði dómnefnakosningu og símakosinguna í forkeppninni A Dal, og er því mættur aftur til að gera tilraun til að toppa árangur sinn fyrir tveimur árum.

 

Aðrir góðkunningjar

Ekki má þó finna góðkunningja einungis á meðal aðalsöngvaranna í ár en þó nokkrar endurkomur má sjá á meðal bakraddasöngvara í ár. Eistinn Stig Rästa mun styðja félaga sinn Victor Crone í ár, en hann semur einnig eistneska framlagið í ár. Í bakraddateymi Spánverja má finna Mikel Hennet sem partur var af strákasveitinni D’Nash sem tóku þátt fyrir Spán árið 2007. Hinn georgíski Oto verður studdur af Mikheil Javakhishvili sem var einn af meðlimum Ethno-Jazz Band Iriao sem voru fulltrúar Georgíu í fyrra. Hin sænska Sahlene verður í bakraddateymi Breta í ár, en hún flutti framlag Eista á heimavelli sínum árið 2002 ásamt því að vera í bakröddum þegar Svíar stálu af okkur sigrinum árið 1999, svo í teymi Maltverja í Svíþjóð árið 2000 og að lokum í teymi Ástrala árið 2016. Serbinn Mladen Lukić mun svo styðja góðkunningjann Nevönu, en hann var annar forsöngvarinn í Balkanika-hópnum sem flutti framlag Serba á fyrra. Króatinn Jacques Houdek í bakröddum fyrir Roko frá Króatíu en allir muna eftir Jacques fyrir óperupoppdúettinn sem hann söng við sjálfan sig árið 2017.

Einnig verður að nefna hinn litháíska Jurij Veklenko sem flytur framlag þeirra Litháa í ár. Hann er ekki að koma fram á Eurovision-sviðinu í fyrsta sinn, en hann var í bakröddum í framlagi Litháa árið 2013 og 2015. Að þessu sinni verður hann í aðalhlutverki.

Að lokum verður að gefa lagahöfundunum sem virðast vera orðnir fastir liðir eins og venjulega. Í ár er hinn rússneski Filip Kirkorov þar eflaust fremstur í flokki, en hann fer að slaga uppí vini okkar Ralph Siegel og Thomas G:son í fjölda laga í Eurovision. Í ár er hann höfuðið á bak við rússneska framlagið og bíðum við spennt eftir að sjá hvað hann mun endurvinna að þessu sinni. Hinn gríski Alex P. semur kýpverska lagið í ár, en á ferilskrá hans eru lög Grikklands 2007, Azerbaijan 2009 ásamt Kýpur 2012 og 2018. Landi hans hann Dimitris Kontopoulos er að mæta með sitt níunda framlag, en hann er í slagtogi með félaga sínum Filip Kirkorov í ár líkt og í fjögur önnur skipti. Auk þess hefur hann samið framlög Grikkja 2009 og 2017 og Asera 2013 og 2018.

 

Árið í ár því fullt af góðkunningjum og hlökkum við til að sjá þau aftur á stóra sviðinu.