Þriðji dagur æfinga í Expóhöllinni


Það er þriðji dagur æfinga í blaðamannahöllinni og nú er komið að löndunum í annarri undankeppninni 16. maí að taka sviðið. Í dag æfa Armenía, Írland, Moldóva, Sviss, Lettland, Rúmenía, Danmörk, Svíþjóð og Austurríki. Hér í höllinni er menn spenntastir fyrir að sjá Sviss og Svíþjóð enda eru þeir í topp 5 í veðbönkum.

Fréttin var uppfærð eftir því sem leið á daginn, æfingum mánudagsins er lokið.

Srbuk frá Armeníu

Srbuk frá Armeníu á fyrstu æfingu sinni í Expóhöllinni. Mynd: Andres Putting

Því miður missti fréttaritari FÁSES á vakt af æfingu Armeníu vegna viðtals við KAN sjónvarpsstöðina hér í Ísrael. Að sögn blaðamanna hér í höllinni var sviðsetning ekki tilkomumikil þar sem Srbuk stendur ein á sviðinu allan tímann en söngur hennar var víst afburðagóður. Það er mikið um flugelda, eld og reyk á sviðinu svo fjáröflunin fyrir þetta atriðið hefur tekist vel!

Sarah frá Írlandi

Írland á æfingu í dag. Mynd Andres Putting.

Sarah er í þröngum rauðum kjól og á sviðinu er bar og barstólar þar sem hún hittir tvær bakraddasöngkonur í bleiku dressi. Búningarnir eru svolítið í anda sjötta áratugarins. Grafíkin er mjög litrík og í anda popplistar. í Miðju lagsins leggst hún á barborðið og tekur nokkra snúninga með því. Sviðsetning lagsins 22 veldur nokkrum vonbrigðum en góð sviðsetning hefði getað lyft laginu töluvert.

Carousel frá Lettlandi

Lettland á fyrstu æfingu sinni. Mynd: Andres Putting.

Söngkonan Sabine og gítarleikarinn Marcis mynda indiepoppdúettinn Carousel og með þeim á sviðinu í dag eru sellóleikari og trommari. Í bakgrunni er eru stjörnur og bláir og gylltir litir ráðandi. Sviðsetning er einföld og það er pínu útilegustemning í henni; fólk situr við varðeld og raular lag undir fallegu gítarspili.

Luca frá Sviss

Sviss á æfingu í höllinni í dag. Mynd: Andres Putting.

Luca mætir á sviðið klæddur í svört íþróttaföt og hefur fjóra rauðklædda dansara sér við hlið. Sjötti bakraddarsöngvarinn er örugglega vel geymdur bak við og heldur Luca uppi í fjörugasta dansinum. Grafíkin er rauð, hvít og svört og “utan þjónustusvæði” skjátruflanir eru áberandi eða eins og þeir segja fyrir vestan “það er bara snjókoma á skjánum”. Myndatakan er áhugaverð og það er skipt hratt á milli taka. Vissulega minnir sviðsetning á Fuego í fyrra en endurvinnslan er af ótrúlega góðum gæðum! Það er mikið klappað í blaðamannahöllinni eftir fyrsta rennsli Luca en sumir hafa á orði að frammistaðan nægi ekki til að vinna keppnina eins margir hafa spáð.

Anna Odobescu frá Móldóvu

Anna frá Moldóvu á fyrstu æfingu í Tel Aviv 2019. Mynd: Andres Putting/Eurovision.tv

Anna er í hvítum kjól á sviðinu með síða silfur eyrnalokka. Í bakgrunni er sandlistaverk eins og Mika Newton var með í atriði Úkraínu árið 2011 sem er gert á sviðinu og breytist eftir því sem líður á lagið. Það fer kliður um blaðamannahöllina þegar þeir átta sig á því að þetta er endurvinnsla á þessu flotta atriði frá 2011. Sandlistakonan er í svörtum glimmerkjól sem tindrar á í ljósadýrðinni. Listaverkið á bakgrunninum er skapað á einhversskonar altari á miðju sviðinu á bakvið söngkonuna Önnu. Sandlistaverkinu er líka varpað á sviðsgólfið sem sést í myndskotum sem eru tekin úr lofti beint niður á sviðið. Í lokin hendir sandlistakonan rós á sandlistaverkið sem verður mjög áhrifamikið í bakgrunninum – vonum að rósin lifi fram að seinni undankeppni í næstu viku.

Uppfært: Listakonan Kseniya Simonova sem gerði sandlistaverkið hjá Miku Newton árið 2011 er í ár með Önnu frá Moldóvu á sviðinu og skapar sandlist sína í beinni.

Ester Peony frá Rúmeníu

Ester frá Rúmeníu á fyrstu æfingu í Tel Aviv 6. maí 2019. Mynd: Andres Putting/Eurovision.tv

Ester er klædd í svartan jakka og svart pils í hvítri skyrtu innan undir. Í upphafi atriðisins situr hún á rauðum einssætissófa á miðju sviðinu. Á landganginum eru tveir dansarar sem eru klæddir í svört vesti og ólar með hvíta kraga um hálsinn – Hatari inspired. Dansararnir færa sig upp á sviðið til Esterar þegar líður á lagið. Á brúnni vinstra megin standa bakraddasöngvararnir og á brúnni hægra megin stendur gítarleikari. Á ledsskjánum bakvið Ester birtast myndir úr kastala og skógi í takt við tónlistarmyndbandið. Sviðsetningin minnir mikið á Drakúla atriði eða senu úr Rocky Horror. Í lokin er öllu tjaldað til á sviðinu með miklum eldglæringar þar sem eldur skýst upp úr sviðsgólfinu og gullfoss tekur að falla fyrir aftan sviðið.

Leonora frá Danmörku

Leonora á fyrstu æfingu í Tel Aviv 6. maí 2019. Mynd: Andres Putting/Eurovision.tv

Blaðamenn FÁSES.is töldu það að Leonora blikkaði augunum 24 sinnum á meðan að á flutningi lagsins stóð sem er aðeins undir meðaltali samkvæmt upplýsingum af Vísindavefnum. Atriðið hefur lítið breyst frá dönsku forkeppninni. Leonora byrjar að syngja falin áhorfendum í salnum á bakvið spjöld sem svo færast í burtu og salurinn birtist fyrir aftan hana. Stóllinn er ennþá á sínum stað, en sviðið hér í Tel Aviv bíður líklega ekki upp á lyftuna svo hún klifrar upp á stólinn með timburstiga sem tveir dansarar sem eru á sviðinu leiða hana að. Uppi á stólnum bíða hennar tveir bakraddasöngvarar sem hafa bæst við frá keppninni heima í Danmörku. Líklega hefur þurft að bæta við bakröddum frá því í DMGP því að þar má vera með hluta af söngnum á upptöku en það er ekki leyfilegt í Eurovision. Dansararnir tveir á gólfinu klífa seinna upp timburstiga og setjast upp á stólinn með Leonoru og bakraddasöngvurunum tveimur. Leonora lítur út fyrir að njóta sín aðeins betur á sviðinu heldur en í DMGP og brosir meira heldur en heima í Herning. Förðunin er ekki að hjálpa Leonoru í lýsingunni á sviðinu sem að lætur hana líta út fyrir að vera veik. Blaðamönnum FÁSES er umhugað um öryggismál dansaranna sem klífa upp stigann með rassinn í stigann sem getur ekki verið öruggt. Þrátt fyrir það verður að segjast að það er mesta áhættan sem Danir taka í ár, enda atriðið í heild mjög öruggur leikur.

Pænda frá Austurríki

Fulltrúi Austurríkis á æfingu í dag. Mynd: Andres Putting.

Pænda er búin að skipta um hárlit – örvæntið ekki hárið er enn blátt en nú nokkrum tónum dekkra. Atriðið byrjar í svarthvítu og áður en hækkunin kemur færist litur á skjáinn. Hún stendur á miðju sviðinu umkringd einhvers konar ljósstöngum. Atriðið svipar mjög til atriðis Sönnu Nilsen frá árinu 2014 og eru ljóskastararnir notaðir í svipuðum tilgangi til að mynda súlur í salnum. Pænda er svartklædd í bol með engum hlýrum svo að þrjár stjörnur sem hún er með húðflúraðar á vinstri öxlina sjást vel. Lítið annað um atriðið að segja og líklegt að það muni falla í fjöldann – það gæti verið áhugaverðara að fylgjast með mælingum á rennsli í frárennsliskerfum Evrópu heldur en sjónvarpinu á þessum tímapunkti.

John Lundvik frá Svíþjóð

John Lundvik og bakraddirnar njóta sín í botn á fyrstu æfingu í Tel Aviv. Mynd: Andres Putting/Eurovision.tv

Já sælir hver er komin frá Stokkhólmi til að vinna Eurovision? JOHN LUNDVIK! Atriðið Too late for love byrjar eins og í Melodifestivalen þar sem John leggur sérstakan metnað í að gæla við myndavélina. Við sjáum skurðstofuljósið og bakraddirnar fjórar birtast í svörtum glimmerdressum undir ljósasúlum. Búningar John eru einnig breyttir; í staðinn fyrir svörtu 80’s dragtarbuxurnar er hann í svörtum 80´s dragtarbuxum úr satíni. Atriðið er nokkuð breytt frá Melodifestivalen og er nú miklu betur lýst með hvítum og gulum ljósasúlum sem tifa í takt við lagið. Við lok lagsins er eins og skurðstofuljósið breytist í heftara, sbr. frægan leikmun Sakis Rouvas 2009. John er sjarmatröll á sviði og mikil kemestría er á milli hans og bakraddanna, sem eru hreint út sagt geggjaðar. Ekkert er hægt að setja út á söng en í fyrsta rennslinu heyrðist of mikið í playbackinu og lítið í röddum en það verður að sjálfsögðu lagað eftir því sem líður á æfinguna. Svíar eru með ákaflega vel heppnaða heild í ár og sumir hér í blaðamannahöllinni segja að þetta sé besta framlagið sem við höfum séð á sviði í Expóhöllinni.