Fyrsti blaðamannafundur Hatara


Eins og búast mátti við gekk fyrsta æfing Hatara samkvæmt áætlun. Pýróið og grafíkin komu vel út. Fundastjóri blaðamannafundarins var æst í að fá listamennina í Hatara til að brosa sem gekk svona upp og ofan. Klemens skaut á fundarstjóra að hún hafi greinilega valið að vera þægilega klædd umfram stíl. Klæðnaður Hatara er að mati Hatara mjög þægilegur og hannaður þannig til að anda í 30 gráðu hitanum í Tel Aviv. Hatari vilja vera í ljósum og glaðlegum fötum. Klemens og Matthías útskýrðu að Hatari sé ekki band heldur margmiðlunarverkefni. Utan sviðsins eru meðlimir hljómsveitarinnar bara venjulegt fjölskyldufólk og Matthías skaut því reyndar inn að hann væri atvinnulaus eins og er. Þau útskýrðu sambandið milli and-kapítalisma og BDSM, sem bæði losa mann og njörva niður á sama tíma.

Hatari lofar því að atriðið verði harðara í keppninni þó að Hatrið mun sigra sé eitt af mýkri lögum listamannanna. Til að koma skilaboðunum á framfæri þurfi samt ákveðna mýkt. Stjórnandi fundarins var spennt fyrir að heyra harðari lög Hatara, en liðsmenn svöruðu því til að til þess að heyra önnur lög Hatara væri fullt af tónleikum sem þau væru að fara að spila á í sumar og æstir aðdáendur gætu keypt sér miða á þá. Hatari ætla sér auk þess að halda áfram að selja söluvarning enda er dýrt að fella kapítalismann svo þeim veitir ekki af peningum til að ná ætlunarverki sínu.

Boð til forsætisráðherra Ísraels stendur enn um að glíma við Hatara. Hatari eru spenntir að fá tækifæri til að sýna heiðarlega íslenska glímu. Íslensk glíma er að mati Hatara heiðarleg leið til að leiða ósætti til lykta. Ef forsætisráðherra Ísraels samþykkir boðið og tapar glímunni munu Hatari stofna BDSM nýlendu í Ísrael. Ef við gleymum að sameinast og elska mun hatrið sigra. Byrjunin er að við elskum hvert annað og þróum þannig móttstöðu gegn popúlisma í heiminum.

Hatari er band þversagna, lifa í kapítalísku umhverfi og eru samt að berjast gegn því. Einn blaðamaður sagði Hatara vera fagra blakk Eurovision í ár og spurði hvort að meðlimum væri alvara. Hatari tekur atriðið sitt mjög alvarlega.

Á blaðamannafundum hér í Tel Aviv hafa fréttamenn frá innlendum fjölmiðlum í gestgjafalandinu (þar á meðal hermálaútvarpið) spurt spurninga um ástandið hér suður frá borginni þar sem fréttir hafa verið um sprengjuárásir. Stjórnandi fundanna svarar alltaf fyrst og segir að blaðamannafundurinn sé ætlaður til að kynnast keppendum en ekki til að ræða um varnarmál landsins – það sé í höndum annarra en skipuleggjenda og þátttakenda í Eurovision að svara spurningum um varnarmál. Þar á eftir gaf stjórnandinn Hatara færi á að svara spurningunni. Hatari ætla að halda áfram að nýta dagskrárvaldið sem þátttaka í Eurovision gefur þeim til að halda uppi gagnrýninni umræðu um gestgjafalandið. Hatari telja lagið sitt eigi við ástandið sem er í þessum hluta heimsins. Hatari ætla að taka þátt í Eurovision og flytja lagið í samræmi við reglur EBU. Í lokin segja meðlimir Hatara að um leið og landnámið endi muni friður skapast.

Blaðamannafundinn í heild sinni má nálgast í myndbandinu hér að neðan.