30 ár síðan Júgóslavía vann í Lausanne.


Við höldum áfram afmælisumfjöllun FÁSES þar sem stiklað er yfir Eurovision söguna í stórum dráttum. Nú er reyndar komið að þeirri keppni sem flestir Íslendingar vilja gleyma, en það eru heil 30 ár síðan keppnin fór fram í Sviss í kjölfar sigurs Celine Dion árið 1988. Allt í lagi, við fengum smávegis núll stig en það er samt svo ótalmargt annað sem stóð upp úr þetta ár, og við skulum endilega einblína á það jákvæða og gleyma því neikvæða. Til að mynda var Celine Dion við það að slá í gegn á heimsvísu og í byrjun keppninnar flutti hún ballöðuna “Where does my heart beat now?” en það lag var fyrsta lagið sem hún gaf út á ensku og fyrsti smellur hennar í Bandaríkjunum, komst í topp fimm á Billboard listann það árið, og við vitum öll hvert leið hennar lá eftir það.

Það var smá vesen heima fyrir í aðdraganda keppninnar vegna fjárhagsvanda RÚV og minnkandi áhuga landsmanna og var fyrirkomulagi Söngvakeppninnar breytt sem lagðist misvel í lagahöfunda landsins. Við ætlum ekki að fara nánar í það í þetta skipti en áhugasömum er bent á frábæra 30 ára afmælisyfirferð þeirra Eyrúnar Ellýjar Valsdóttur og Hildar Tryggvadóttur Flóvenz á síðunni Allt um Júróvisjón. Allavega var það lag Valgeirs Guðjónssonar “Það sem engin sér” í flutningi Daníels Ágústar sem sem stóð uppi sem sigurvegari og fór fyrir hönd Íslands til Lausanne í Sviss.

Svisslendingar voru afskaplega stoltir af því að fá að halda keppnina, en þrátt fyrir að hafa verið ein af stofnþjóðum Eurovision var þetta aðeins í annað skipti sem að þeir unnu, en Lys Assia gerði sér lítið fyrir og sigraði allra fyrstu keppnina fyrir hönd Sviss árið 1956, eins og frægt er orðið. Það var að sjálfsögðu mikill munur á milli þessara 33 ára en árið 1989 var keppnin orðin miklu stærri og náði þ.a.l. til miklu fleiri og Svisslendingar nýttu sér það í hörgul til að kynna þetta gullfallega land í ógleymanlegum póstkortum. Keppendur voru sýndir víðsvegar um kantónur landsins og náttúrufegurðin var hreint út sagt mögnuð! Íslendingarnir voru sendir til kantónunnar Friburg við rætur Alpanna, í þorpið Gruyer, sem einmitt eru heimkynni ostsins fræga, en þar fengu Valgeir og Daníel að bera oststykkið á höfðinu að sið heimamanna og í lokin sást Valgeir leiða þorpsbörnin á braut í anda sögunnar um Rottuleikarann frá Hameln. En Valgeir skilaði nú krakkagreyjunum á endanum.

Það var margt um sögulegar stundir í keppninni 1989. Fyrir það fyrsta vann að sjálfsögðu Júgóslavía, en þetta var í fyrsta og eina skiptið sem Júgóslavía vann sem sameinað ríki, en fáeinum árum síðar liðaðist það í sundur í stríðsátökunum á Balkanskaganum. Það var hljómsveitin Riva, með söngkonuna Emiliju Kokic í broddi fylkingar sem fór með keppnina heim til Júgóslavíu en á nútímamælikvarða hefðu þau keppt fyrir hönd Króatíu, enda voru meðlimir sveitarinnar bornir og barnfæddir í Zagreb. Í seinni tíð hafa menn ekki verið sammála um gæði þessa sigurlags og telja margir að Svíþjóð eða Austurríki hefðu betur átt að sigra. Svíþjóð lenti í 3. sæti með kraftslagarann “En Dag” í flutningi Tommy Nilson en Austurríkismenn enduðu í 5. sæti með hið gullfallega “Nür Ein Lied” sem flutt var af Thomas Forstner.

Þegar Sandra Kim sigraði þremur árum áður, var hún, eins og allir vita, einungis 13 ára gömul og þótti það að sjálfsögðu fullungur aldur til að taka þátt í jafn stórri keppni og Eurovision. En þarna var greinilega ekki búið að setja hið víðfræga 16 ára aldurstakmark því keppendurnir frá Frakklandi og Ísrael voru einungis 11 og 12 ára gömul og olli það heilmiklum titringi í Evrópu. Í kjölfarið setti EBU reglurnar um aldurstakmark og uppfrá 1990 hefur sú regla staðið. Frá Ísrael kom hinn 12 ára gamli krúttmoli Gili Netanel í fylgd söngkonunnar Gali Burg-Michel og söng lagið “Derech Hamelech” og uppskáru þau 12. sætið í kjölfarið. Natalie Paque flutti lagið “Jái voilé la vie” með bravúr fyrir hönd Frakka, þrátt fyrir að vera ekki komin með alla endajaxla, og endaði í 15. sæti. Enn þann dag í dag á hún metið sem yngsti keppandi í sögu Eurovision og verður það að sjálfsögðu aldrei slegið.

Danir mættu til leiks með ofurhressa slagarann “Vi maler byen rød”, sem var flutt af söngkonunni Birthe Kjær og samið af massatvíeykinu Sören Bundgaard og Keld Heick en þeir eru sennilega frægustu og virtustu dönsku lagahöfundarnir í Eurovision, með ótalmarga júrósmelli á ferilskránni. Danir urðu í 3. sæti þetta árið og vildu margir þakka frábærri sviðsetningu þann árangur, ekki síður en laginu. Birthe, Sören og Keld voru upphaflega þrjú á sviðinu í syngjandi sveiflu. Hún í dásamlegum rauðum kjól, og þeir í hvítum jakkafötum. Um miðbik lagsins bentu þau hljómsveitarstjóranum Henrik Krogsgaard að koma upp á sviðið, og hann var ekki lengi að gefa frá sér sprotann í hendur svissneska hljómsveitarstjórans og stökk upp á sviðið og gekk til liðs við Sören og Keld. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem hljómsveitarstjóri var allt í einu orðinn hluti af bakröddum í Eurovision og var þetta stórskemmtilegt tvist á kvöldinu, enda verður seint sagt um Henrik Krogsgaard og restina af danska hópnum að þau séu einhver dauðyfli!

Eurovision 1989 var kannski ekki einhver sögulegur hápunktur þannig lagað. Það var engin Celine Dion að stíga sín fyrstu skref, engin ABBA á barmi heimsfrægðar og engin Riverdance, en þessi keppni átti þó sín sögulegu móment engu að síður eins og sjá má af umfjölluninni. 30 ár voru það, heillin og þó svo Ísland hafi dregið allra stysta stráið það árið, hafði það ekki teljandi áhrif á Daníel Ágúst sjálfan, enda er hann einn af fremstu söngvurum þjóðarinnar og verið framámaður sveitanna Nýdönsk og GusGus, og alheimsþekktur í kjölfar velgengni þeirrar síðarnefndu. Og margir vilja nú meina í seinni tíð að “Það sem engin sér” sé einstaklega vanmetið lag og hafi alls ekki átt þessa útreið skilda.