Þriðji dagur blaðamannafunda í Tel Aviv


Að vanda munum við á FÁSES.is fylgjast með fyrstu blaðamannafundum keppenda í dag.

Það er þétt dagskrá hjá keppendum í Tel Aviv. Við komuna í Tel Aviv Expo þar sem keppnin er haldin er byrjað á að fara í gegnum öryggisleit. Þegar inn er komið er farið í 30 mínútna langa inneyra æfingu áður en farið er á stóra sviðið og fyrsta rennslið tekið. Svo fá keppendur 20 mínútur í áhorfsherberginu þar sem þau fá að sjá hvernig atriðið kemur út á skjánum til að geta komið með tillögur að breytingum og betrumbótum á atriðinu og í kjölfarið er farið yfir sminkið. Að loknu öllu þessu ferli hitta listamennirnir samfélagsmiðla Eurovision og eftir það hefjast svo hinir viðfrægu blaðamannafundir í blaðamannahöllinni. Að sjálfsögðu verða blaðamenn FÁSES viðstaddir blaðamannafundina og munum við birta hápunktana frá þeim í þessari færslu sem verður uppfærð eftir því sem fundunum fram vindur.

Srbuk frá Armeníu

Srbuk er að reyna að skapa sama andrúmsloft á sviðinu eins og í tónlistarmyndbandinu og hún er þess fullviss að það muni takast. Hún hefur tekið þátt í mörgum keppnum og er mjög sjálfsörugg. Srbuk er dansari en lagið bíður ekki beinlínis uppá mikla danssýningu á sviðinu. Þetta var samt rétt val fyrir sig. Lagið er valdeflandi og ekki aðeins fyrir konur heldur fyrir alla. Srbuk hefur ánægju af því að taka þátt í keppnum og lýsir sjálfri sér sem mikilli bardagamanneskju. Armenía komst ekki áfram í fyrra og Sbruk talar um að það sé mikil pressa að reyna að komast í úrslitin. Sbruk tók þátt í úkraínska Voice og þar tók hún lag á pólsku svo hún hefur eignast stóran aðdáendahóp í þessum löndum. Sbruk hefur gaman af garðyrkju – skemmtilegt nokk!

Sbruk gerir sig klára fyrir fyrstu æfingu í Tel Aviv 6. maí 2019. Mynd: Thomas Hanses/Eurovision.tv

Sarah frá Írlandi

Sarah segir að lagið hafi 50s vibe og þess vegna hafi þau ákveðið að vera með það þema í sviðssetningunni. Þau eru með mjólkurhristinga á sviðinu, en þau eru opin fyrir því að bæta við hjólaskautum til að fara all in í 50s stemminguna. Í febrúar var Sarah beðin um að vera fulltrúi Írlands í Eurovision, en mátti ekki segja frá því strax. Hún reyndi að fara huldu höfði því hún á erfitt með að ljúga og henni fannst erfitt að horfa framan í fólk og geta ekki sagt frá því að hún væri að fara í Eurovision. Lagið 22 er númer 22 á disknum, hún keppir í undankeppni númer 2 og Netta sigurvegarinn í Eurovision 2019 var númer 22 á svið í Eurovision í fyrra – þetta er allt í talnaspekinni. Mamma hennar Söruh er svo stolt af dóttur sinni að hún getur ekki hætt að gráta. Sarah skildi barnið sitt eftir heima því að það er enn svo lítið að bæði Sarah og barnið myndu ekki njóta þess að vera í Tel Aviv. Sarah hefur gert ýmislegt í lífinu, m.a. lært hjúkrun, förðunarfræði og svo syngur hún. Hún vill elta drauma sína og gera það sem henni finnst gaman. Tónlistarmyndbandið var tekið upp á ströndinni á nokkrum klukkutímum því að þau vildu ná fram Instagram áhrifum í myndbandinu. Myndbandið var framleitt af sama framleiðanda og gerði myndband Írlands í fyrra. Það var mjög mikið rok og snjókoma daginn sem myndbandið var tekið og hún ætlaði að vera með hárgreiðslu sem fór öll úr skorðum. Sarah tók þátt í forvali í San Marínó með laginu Eye of the Storm sem aðdáendur Söngvakeppninnar muna eftir í flutningi Karlottu árið 2016.

Sarah frá Írlandi á inneyraæfingu í Tel Aviv 6. maí 2019. Mynd: Thomas Hanses/Eurovision.tv

Carousel frá Lettlandi

Carousel var dúó þegar þau unnu Supernova, undankeppnina í Lettlandi, en hafa nú hleypt sellóleikaranum Stanislav og trommaranum Marik í bandið. Að sögn Carousel gekk æfingin vel og þau dást að færa tæknifólkinu hér í Eurovision. Það er þó enn rúm fyrir eitthvað óvænt – hver veit! Einföld sviðsetning passar samt þessu lagi vel. Lagið That night var samið af Marcis þegar hann var að gutla með gítarinn í stúdióinu. Carousel hendir síðan í nýtt lag sem þau hafa ekki spilað áður. Hundur Marcis er að hans sögn í góðum höndum því frændi hans er að passa hann – hvernig það kemur Eurovision frammistöðu þeirra við vitum við því miður ekki. Carousel fær síðan gjöf frá einum blaðamannanna hér alla leið frá Suður-Afríku, geisladiska með tónlist þeirra.

Carousel í höllinni í dag. Mynd: Thomas Hanses.

Luca frá Sviss

Luca byrjar á því að segja okkur að æfingin hafi gengið vel og það hafi verið skemmtilegt að vera á stóra sviðinu. Hann ætlar að gera sitt besta til að koma Sviss í úrslitakeppnina. Gestgjafi blaðamannafundarins kennir Luca að segja Dirty Dancing á hebresku en það verður að segjast eins og er að það hljómar aðeins einkennilega. Luca hitti Nettu fyrir tilviljun á Kanaríeyjunum fyrir nokkru síðar. Hún sagði við að hann ef hann lenti í einhverjum vandræðum í Ísrael skyldi hann bara hringja í sig! Luca hefur fengist við mikið við ýmislegt t.d. verið undirfatafyrirsæta. Hann segir að það hjálpi á Eurovision sviðinu því að sjálfsögðu þarf maður að vera í réttum nærbuxunum á sviðinu. Luca finnur fyrir einhverjum þrýstingi að ganga vel í Eurovision en þetta sé um leið mikill heiður. Besta æfingin fyrir Eurovision er að syngja og dansa á sviði eins og hann hefur gert með bandinu sínu. Að sögn farastjóra Sviss er áhuginn á Eurovision að aukast þar og sérstaklega nú með þátttöku Luca.

Luca frá Sviss undirbýr fyrstu æfingu hópsins. Mynd: Thomas Hanses.

Anna frá Moldóvu

Það var víst fámenni í fundarsalnum þegar kom að blaðamannafundi Moldóvu svo sjálfboðaliðarnir hér í Expóhöllinni gengu á milli í blaðamannasalnum til að hóa fólki saman. Anna talar ekki ensku er og með túlk á fundinum og að sjálfsögðu er móldóvski fáninn með á sviðinu. Sandlistaverkið er víst ekki úr sandi heldur er verkið svokölluð snjólist (“snowart”) og var búinn til sérstaklega fyrir þetta tilefni. Æfingin gekk að sögn Önnu mjög vel, sérstaklega hljóðið, en auðvitað þarf að laga nokkur smáatriði, t.d. lýsingu (eitthvað sem margir eiga í vandræðum með í dag). Anna er fagmaður í fingurgóma og segist vera með fullkomnunaráráttu. Gestgjafi fundarins kennir Önnu að segja Stay á hebresku og gengur henni vel með þann frasa. Tengdaforeldrar Önnu starfa líka í tónlist og segist hún þakklát fyrir alla hvatninguna frá þeim. Rússneskur blaðamaður spyr spurningar á rússnesku og því fylgir langt svar á rússnesku – frekar óvenjulegt á blaðamannafundi í Eurovision. Enginn samkeppni er á milli söngkonunnar Önnu og listakonunnar Kseniya Simonova á sviðinu en auðvitað er þetta söngvakeppni svo söngurinn er í aðalhlutverki.

Fulltrúi Moldóva baksviðs í Expóhöllinni í dag. Mynd: Thomas Hanses.

Ester frá Rúmeníu

Það hitnaði heldur betur á sviðinu þegar eldglæringarnar fóru í gang á æfingunni. Ester segir það gefi sér aukna orku að vera í svona miklum hita. Ester er mikið fyrir ketti og á tvo ketti sjálf og hún saknar þeirra mikið og hugsaði reyndar um að reyna að fá vegabréf fyrir þá til að geta tekið þá með sér. Á sunnudögum finnst Ester best að liggja upp í rúmi og horfa á Netflix. Ester varð fræg fyrir að gera ábreiður af lögum og deila þeim á Youtube. Hún ráðleggur ungu fólki sem vill koma sér á framfæri til dæmis á Youtube að syngja alltaf frá hjartanu og gefa reglulega út nýtt efni.

Fulltrúar Rúmeníu baksviðs á æfingu í dag. Mynd: Thomas Hanses.

Leonora frá Danmörku

Leonora varð hissa þegar að led skjárinn í gólfinu fór að hreyfast undir gólfinu á henni á æfingunni áðan. Hún var skautari á sínum yngri árum og keppti í íþróttinni. Eftir að hún hætti að keppa á skautum fór hún að æfa listdans á skautum með bróður sínum. Hún þjálfaðist mikið í að koma fram þegar hún var að æfa skauta, bæði hvernig hún á að beita líkamanum og andlitinu og það hefur hjálpað henni mikið í tónlistinni. Leonora er vinur flestra keppendanna á samfélagsmiðlum eins og Instagram og hún var spurð hvernig það færi saman að vera vinir í keppni eins og Eurovision. Henni finnst það mikilvæt að keppendur skemmti sér, því þau þurfa ekki að keppa um athygli hvers annars heldur keppa um atkvæði þeirra sem kjósa sem eru í dómnefndum eða áhorfenda heima í stofu. Leonora er búin að breyta atriðinu frá því í DMGP þar sem hún tók lyftu til að komast upp á stólinn í atriðinu, en núna þarf hún að klífa upp stigann. Hún segir að það líti út fyrir að vera erfiðara en það er að syngja og einbeita sér að því að klífa upp stigann á sama tíma. Fyrir Leonoru hefur stóllinn sem hún sest upp á þá merkingu að maður þurfi að stíga upp úr átökunum til að geta séð hlutina í víðara ljósi því við erum öll hluti af stóru samfélagi. Ef við viljum eiga bjarta framtíð verðum við að læra af sögunni.

Leonora á fyrstu æfingu í Tel Aviv. Mynd: Thomas Hanses/Eurovision.tv

Pænda frá Austurríki

Pænda (borið fram Panda) var hrædd um að ganga út af pallinum sem hún stóð á sviðinu á æfinguna í dag en þetta var í fyrsta skipti sem hún æfði á honum. Að öðru leyti gekk æfingin vel. Lagið Limits er eitt laganna af annarri plötu Pænda, Evolution II, og er þriðja platan í vinnslu. Texti lagsins Limits varð til á undan laginu en vanalega er það á hinn veginn þegar Pænda semur lög. Lagið varð til þegar Pænda var að velta fyrir sér hvað hún vildi gera í lífinu og í hverju hamingjan felist í raun. Margir velta sér fyrir af hverju Pænda er með blátt hár en það er í raun engin ástæða fyrir því, hún litaði bara hárið. Pænda var valinn af ORF austuríska ríkissjónvarpinu til að taka þátt í Eurovision en þeir hættu að halda undankeppni fyrir nokkrum árum síðan vegna fjárhagslega ástæðna. Pænda semur alla tónlist sína í heimastúdói sínu því þannig er auðvelt fyrir hana að fá sér kaffi og þvo þvott. Þegar gestgjafinn spyr hvað Pændu finnst um að Madonna sé að koma fram í Eurovision fær hann tvíræð svör en það verði auðvitað gaman að sjá hana en við munum samt eingöngu sjá hana á skjánum.

Fulltrúi Austurríkis undirbýr sig fyrir æfingu í dag. Mynd: Thomas Hanses.

John Lundvik frá Svíþjóð

John er mjög ánægður með veruna í Ísrael og hversu góðar móttökurnar voru hér Tel Aviv, með kaffi og kökum. Það þarf greinilega lítið til að gleðja hann! Hann er líka mjög ánægður með æfinguna og er þakklátur fyrir hvað allt gekk vel. Gestgjafinn biður hann að segja Too late for love á hebresku en það er frekar flókið svo þetta gengur aðeins brösuglega. Hann tekur lagið á blaðamannafundinum og fær blaðamennirnir með sér í viðlagið – geggjað! Paris, ein bakraddanna, fékk símtal frá John þar sem hann sagðist þurfa “The Mamas” í lagið sitt. Paris hringdi í Ashley og hún kom frá Washington DC en hinar tvær koma frá Svíþjóð. Lil Lindfors er stór áhrifavaldur í Svíþjóð og er m.a. þekkt fyrir búningatrikkið 1985, sem var að sjálfsögðu planað en gott dæmi um húmor Lil. John lofar áheyrendur að hann muni ekki reyna eitthvað í þá veru. John er spretthlaupari og telur það hafa hjálpað sér til að vera í góðu keppnisformi í Eurovision, bæði andlega og líkamlega en einnig þegar hann setur sér markmið. John er einlægur og syngur frá hjartanum og telur að fólk finni það þegar hann syngur og almenningur finni það ef fólk er óeinlægt. John hefur samið lög í sjónvarpsþætti m.a. Empirer. Bigger than us er gospel ballaða en Too late for love er uptempo gospel lag að mati John – tvö frábær lög en það kemur ekki á óvart þar sem hann samdi þau bæði. Hann á tvö börn, strák og stelpu, og lenti á spjalli við lagahöfund um þurrmjólk og hvernig best sé að hita hana. Síðan sagði lagahöfundurinn að John ætti að taka aftur þátt í Melodifestivalen. John varð frekar stressaður við að heyra það en þeir ákváðu á staðnum að semja gospellag saman og þannig varð Too late for love til. Ferli lagaskrifa er mjög mismunandi hjá John, stundum byrjar það sem humm í bílnum eða stundum kemur það bara eftir pöntun tónlistarútgefanda en honum hentar best að semja á ensku.

Fulltrúi Svíþjóðar baksviðs í Expóhöllinni. Mynd: Thomas Hanses.