Joci og András snúa aftur í Ungverjalandi


Ungverjar velja sitt Eurovisionlag í kvöld, þegar úrslitin í lokakeppni A Dal fer fram. 30 lög hófu keppni í undanriðlum sem byrjuðu 19. janúar  og eftir standa 8 keppendur. Þar á meðal eru kunnugleg andlit en András Kállay Saunders er að taka þátt í A Dal í fjórða sinn. Hann vann í fyrsta sinn sem hann tók þátt með lagið Running og lenti í 5. sæti í 2014 í Danmörku.

Annar sigurvegari A Dal snýr einnig aftur en það er Joci Pápai sem vann 2017 með lagið Origo sem hann flutti svo eftirminnilega í Kænugarði, þar sem hann lenti í 8. sæti og eignaðist marga aðdáendur í júróvisjónheiminum í kjölfarið.

Það hefur gengið á ýmsu í A Dal keppninni í ár líkt og í mörgum öðrum undankeppnum þetta misserið. Einn keppandi í undanriðlunum, Kyra, fannst ómaklega vegið að henni af dómnefnd og líkt og kona gerir í þeirri stöðu hefur hún látið gamminn geysa á samfélagsmiðlum. Annar keppandi, Petruska, var rekinn úr keppninni þar sem lag hans þótti of líkt lagi Vampire Weekend White Sky. Hann harðneitar þessum ásökunum og segist hafa samið lagið undir áhrifum þjóðalagatónlistar frá Simbabawe og Malawi. En svo má gefa sér að bæði Vampire Weekend og Petruska hafi hugsanlega heyrt lag Paul Simon, You can call me Al.

 

Úrslit A Dal verða í kvöld kl. 18.30. Hægt er að horfa á keppnina hér. Og ef þið viljið kynna ykkur lögin fyrirfram þá er hér playlisti með lögunum átta.