Kom så Danmark, taka stökk til hærri jörð!

DMGP

Nú styttist í að frændur okkar Danir velji sitt framlag fyrir Tel Aviv. Tíu lög keppa á morgun í Boxen í Herning á Jótlandi. Að þessu sinni er enga íslensku að finna, líkt og Rasmussen og hinir víkingarnir buðu okkur upp á í fyrra, sælla minninga. Línan Taka stökk til hærri jörð gleymist seint. En þótt enga íslensku sé að finna í keppninni í ár þurfa áhorfendur ekki að örvænta, Danir bjóða upp á afar fjölbreytt lagaúrval þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Það er hin 23 ára Kaupmannahafnarmær, Simone Emelie, sem ríður á vaðið með lagið Anywhere. Hún stundar nám í alþjóðaviðskiptum en er jafnframt hokin af reynslu í tónlistarbransanum og hefur ferðast um heiminn sem sópran söngkona með stúlknakór ásamt því að hafa komið víða fram með ýmsum hljómsveitum.

Jasmin Gabay býður upp á suðrænan zumba-smell, Kiss Like This, sem vel er hægt að dilla sér við. Jasmin er 31 árs og gerði garðinn frægan í danska raunveruleikaþættinum Den store bagedyst í haust þar sem hún komst alla leið í úrslit með litríku sætabrauði og dillandi skopskyni.

Jasmin Gabay

Jasmin er margt til lista (og jafnvel lysta) lagt…

En Jasmin getur meira en að baka. Hún hefur sungið frá því hún var barn og hefur komið fram víða á tónlistarsviðinu. Hvort sem um er að ræða jazz, gospel, stórsveitir eða Mariuh Carey… Jasmin hefur verið þar. Og Eurovision-sviðið er henni kunnugt líka því hún var ein af bakröddunum hennar Önju Nissen í Kænugarði 2017.

Næst er komið að heimamanni en Rasmus Faartoft er fæddur og uppalinn í Herning. Hann er ekki óvanur sviðsljósinu enda sprenglærður í tónlist frá sviðslistaskólanum Den Danske Scenekunstskole. Hann hefur komið fram í fjölda söngleikja, m.a. einum sem hét því skemmtilega nafni Shu-bi-dua – The Musical. Merkilegt nokk þá fjallaði þessi söngleikur ekki um framlag Íslands í Eurovision 1996. Lagið heitir Hold My Breath og mætti segja að það séu nokkurs konar öfugmæli því Rasmus þenur svo sannarlega lungun í þessari nútímalegu kraftballöðu.

Hin 33 ára Marie Isabell er Instagram-stjarna sem notaði samfélagsmiðilinn til að koma sér á framfæri í keppninni. Hún starfar við heimahjúkrun og syngur fyrir eldri borgara þegar hún heimsækir þá. Hún hefur komið fram á karaoke-börum og með ýmsum hljómsveitum og nýtir, sem fyrr segir, Instagram til þess að deila tónlist sinni með heiminum. Lagið Dancing with You in My Heart er hressilegt country-skotið popplag sem auðvelt er að fá á heilann.

Næstur á svið er X-Factor keppandinn Sigmund Trondheim en hann hefur áður stigið á svið í Boxen í Herning. Árið 2015 tók hann þátt í sýningu tileinkaðri Lady Gaga í tilefni af 5 ára afmæli Boxens. Sigmund er dansari í grunninn og lærði ballet í Det Kongelige Teaters Balletskole. Það verður spennandi að sjá hvort við fáum ekki einhver vel valin danspor með danslaginu Say My Name annað kvöld.

Þótt goðið Kim Larsen hafi kvatt þetta jarðlíf síðasta haust mætti halda að hann hafi birst strákunum í hljómsveitinni Humørekspressen í draumi og hvatt þá til að taka þátt. En Kim Larsen tók einmitt þátt í Melodi Grand Prix árið 1979 og lenti í 3. sæti.

Þeir Frandsen, Krölstrup, Strejferen og Peber mynda kvartettinn Humørekspressen og bjóða upp á eina lagið á dönsku í keppninni í ár og það hljómar eins og Kim Larsen sálugi hafi haft fingurna í því. Kumpánarnir vonast einmitt til þess að geta endurvakið danska tónlistarmenningu í anda Kim Larsens og gamanmyndanna um Olsen Bandið. Lagið Dronning af baren endurspeglar svo sannarlega hið fræga ligeglad-viðhorf sem Danir eru þekktir fyrir.

Þá er komið að nýju tungumáli! Dúettinn Julie og Nina flytur okkur þjóðlagapopp frá Grænlandi. Lagið heitir League of Light og er bæði á ensku og grænlensku en þetta er aðeins í annað skiptið sem grænlenska heyrist í dönsku undankeppninni. Þær stöllur hafa þekkst í yfir 20 ár og hafa gert sig gildandi á tónlistarsviðinu hvor um sig. Þetta er þó í fyrsta skiptið sem þær sameina krafta sína í dúett. Fari svo að Danir velji League of Light sem sitt framlag í Tel Aviv þá verður það í fyrsta skipti sem grænlenska heyrist í Eurovision.

Enn á ný verður hægt að hreyfa skankana þegar Teit Samsø stígur á svið með lagið Step It Up. Teit býr í Fredericia og er fastráðinn við leikhúsið þar. Hann hefur tekið þátt í fjölda stórra sýninga, m.a. Aladdin og Tarzan, en þekktastur er hann þó fyrir titilhlutverkið í söngleiknum Seebach sem fjallar um Eurovision-reynsluboltann Tommy Seebach sem þrívegis var fulltrúi Dana í keppninni.

Aðspurður um boðskap lagsins segir Teit að það fjalli um það sama og lífið sjálft, að maður verði einfaldlega að hafa gaman.

Yngsti keppandinn í Dansk Melodi Grand Prix í ár er Leonora Colmor Jepsen, tvítug skautadrottning frá Hellerup.

Leonora

Leonora hefur þrívegis orðið Danmerkurmeistari í Junior flokki í listdansi á skautum.

Hún hefur raðað inn verðlaunum í listdansi á skautum frá barnsaldri en starfar nú sem skautaþjálfari og danshöfundur. En fyrir utan skautana er það tónlistin sem heldur henni gangandi. Hún hefur samið sína eigin tónlist árum saman og vonast til þess að geta gefið út plötu á næstunni. Lagið Love Is Forever er á 4 tungumálum, ensku, dönsku, frönsku og þýsku og telja veðbankar það sigurstranglegast annað kvöld. Söngstíllinn minnir á Lily Allen og eitt er fyrir víst, hér er um eyrnaorm að ræða.

Það kemur í hlut hinnar 34 ára gömlu Pernille-Leeloo að ljúka veislunni í Boxen. Leeloo er enginn nýgræðingur í tónlistinni og árið 2010 túraði hún um Bandaríkin og Evrópu til að fylgja eftir plötunni sinni I Am What You Want. Lagið That Vibe er sannkallaður klúbba-smellur sem vafalaust fær einhverja til að taka nokkur hliðar-saman-hliðar og smella fingrum í takt.

Nú er ekki eftir neinu að bíða… nema morgundeginum. Þeir sem eru viðþolslausir af spennu geta hlusta á öll lögin hér. Skellum svo Dannebrog á stofuborðið og poppi í skál og bíðum spennt eftir dönskum úrslitum.