Kaos í Slóveníu – eða ekki


Forkeppnin Evrovizijska Melodija (EMA) í Slóveníu fór fram síðastliðið laugardagskvöld. Tíu lög tóku þátt í keppninni og komust tvö stigahæstu lögin áfram í einvígi eins og við þekkjum í Söngvakeppninni hér heima. Stigahæst eftir fyrri kosninguna voru dúettinn Zala Kralj & Gašper Šantl með lagið Sebi og Sara Briški Cirman, sem er betur þekkt undir listamannsnafninu Raiven, með lagið Kaos. Lagið Sebi fékk öruggan meirihluta í símakosningunni í einvíginu og verða þau Zala Kralj & Gašper Šantl fulltrúar Slóveníu í Eurovision í ár.

Lagið Sebi fjallar um erfiðleika sem maður stendur frammi fyrir og að maður þurfi að vera trúr sjálfum sér. Lagið er mínimalískt rafpopp og minna þau Zala og Gašper óneitanlega á hjónakornin í Madame Monsieur, með lágstemmdri sviðsframkomu sem hæfir laginu vel. Zala og Gašper hafa starfað saman frá árinu 2017. Þau vildu nota tækifærið til að kynna sig og tónlistina sína fyrir fleira fólki, svo þau ákváðu að senda lagið inn í EMA. Viðtökurnar sem lagið fékk virðast hafa komið þeim mjög á óvart og þau áttu ekki von á því að sigra EMA. Af slóvenskum Eurovision lögum heldur Gašper mest upp á lagið Dan ljubezni sem keppti fyrir Júgóslavíu árið 1975 og uppáhaldslagið hennar Zali er Samo ljubezen sem keppti fyrir Slóveníu árið 2002.

Eins og áður segir voru tíu lög sem kepptu í EMA árið 2019. Hér er listi yfir lögin og hlekkur á Youtube myndbönd frá EMA:

Það vantaði ekki reynsluboltana í dómnefnd kvöldsins, sem var skipuð þeim Darja Švajger, Lea Sirk og Vladimir Graić. Darja hefur tvisvar keppt í Eurovision fyrir Slóveníu, árin 1995 með Prisluhni mi og 1999 með lagið For a Thousand Years. Darja náði besta árangri Slóvena í Eurovision árið 1995 þegar hún lenti í fimmta sæti. Lea Sirk var fulltrúi Slóvena í Lissabon í fyrra með lagið Hvala ne, sem kom Slóvenum í úrslit í fyrsta skipti í þrjú ár. Vladimir Graić samdi Molitva, sigurlag Eurovision árið 2007, sem Marija Šerifović flutti. Vladimir samdi líka Verjamem sem var framlag Slóvena árið 2012 og aðdáendasmellinn Beauty Never Lies, sem var framlag Serba í Vínarborg árið 2015. Í hópi lagahöfundanna voru líka margir góðkunningjar Eurovision og ber þar kannski helsta að nefna fulltrúa Slóvena frá 2015, dúettinn Maraaya, sem sömdu tvö lög í EMA í ár.

Slóvenum hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel í Eurovision síðan þeir tóku fyrst þátt árið 1993. Besti árangur þeirra er sjöunda sætið, sem Slóvenar hafa tvisvar sinnum vermt. Eins og kom fram hér fyrr í pistlinum lenti Darja Švajger í sjöunda sæti með lagið Prisluhni mi árið 1995 og árið 2001 lenti Nuša Derenda í sjöunda sæti með lagið EnergyEftir að undankeppnirnar í Eurovision voru fyrst kynntar til sögunnar hafa Slóvenar einungis fimm sinnum komist í úrslit. Ætli þeim Zala Kralj og Gašper Šantl takist að komast í úrslit fyrir Slóveníu?