Dora, undankeppni Króata fyrir Eurovision, var haldinn í Opatija í gærkveldi. Undankeppni Króata hefur eitthvað legið í dvala síðustu ár og var þetta í fyrsta sinn í átta ár sem keppnin er haldin. Alls kepptu 16 lög um miðann til Tel Aviv í maí og fór valið fram með aðstoð símakosningar, sem gilti 50% og héraðsdómnefnda frá tíu stærstu borgum Króata, sem höfðu 50% vægi.
Á endanum varð Roko Blažević hlutskarpastur Dorukeppenda – bæði hjá dómnefndum og símakjósendum – með lagið The Dream. Lagið er eftir Jacques Houdek sem keppti fyrir hönd Króata í Kænugarði 2017. Þið munið kannski eftir kauða; hann söng poppóperudúett við sjálfan sig. Charlie Mason samdi texta lagsins en hann er enginn aukvisi þegar kemur að Eurovision því hann samdi einnig textann við lagið Rise Like a Phoenix. Roko þessi er fæddur árið 2001 og hefur sungið frá barnsaldri. Hann hefur tekið þátt í allmörgum stjörnuleitarsjónvarpsþáttum, þ.á m. Zvjezde (Stars) þar sem hann var undir handleiðslu Jacques Houdek.
Það verður ekki tekið af Roko elskunni að hann reynir við Conchitu taktana og tekst bara ágætlega upp í hæstu nótunum með þessa líka fögru englavængi á herðunum. Lagið The Dream fellur í flokk hinna hefðbundnu Eurovisionballaða með hækkun á réttum stað og kraftmiklum endi. Það skemmir síðan ekki fyrir að lagið er bæði á ensku og króatísku sem hlýtur að falla í kramið hjá hinum kröfuhörðum Eurovisionaðdáendum.