You Decide, hin stórskemmtilega forkeppni Breta fyrir Eurovision, verður haldin hinn 8. febrúar nk. Á árum áður fór BBC þá leið að biðja áhorfendur um að senda þeim póstkort með nafni lags eða þeim flytjanda sem þeir kysu að færu áfram fyrir hönd Breta. En síðustu ár hefur (sem betur fer) símakosning og/eða netkosning ráðið ríkjum um hver sigrar. Í keppninni í ár verður þeirri nýbreytni beitt að fimm frábærir sólóistar og eitt tríó munu keppa um vinningssætið en aðeins þrjú lög verða sungin. Hvernig þá, gætu einhverjir spurt sig, jú, hvert lag verður sungið tvisvar, í sitthvorri útfærslunni af tveimur mismunandi flytjendum.
Keppnina verður hægt að horfa á í beinni útsendingu á BBC 2 og hefst útsendingin klukkan 19:30 að íslenskum tíma.
Einvígi 1 – Lag: Sweet Lies – Flytjendur Anisa + Kerrie-Anne.
Lagahöfundar: Maria Broberg, Lise Vabble og Esben Svane.
Anisa er laga- og textahöfundur með meiru. Hún hefur komið fram með stórstjörnum á borð við Ne-Yo, Brandy, Ashanti, James Arthur og hinum sænska Frans. Frægðarsól Anisu hefur þó líklega aldrei skinið jafnskært og í kjölfar lagsins sem hún samdi með Ariana Grande, Piano, en það hefur verið spilað oftar en 35 milljón sinnum á Spotify. Anisa er elst þriggja systra og á ættir að rekja til Frakklands. Lagið sem hún flytur í keppninni í ár er það fyrsta sem hún flytur sem hún hefur ekki samið sjálf, þetta er þroskandi og lærdómsríkt ferli, en hún elskar Eurovision fyrir það hversu fjölþjóðleg keppnin er þar sem sérkenni hverrar þjóðar fá að skína í gegn.
Áður en Kerrie-Anne snéri sér að tónlistinni kláraði hún kennararéttindi og fór að kenna í Dubai. Það var þá sem hún byrjaði að skerpa á sönghæfileikunum, en hún er alin upp í mjög tónlistarvænu umhverfi, og ákvað í kjölfarið að flytja aftur heim til Bretlands og helga sig tónlistinni. Kerrie-Anne elskar tungumál og vill læra popplag á tungumáli allra landa sem hún heimsækir einnig er hún forfallin ABBA aðdáandi.
Texti lagins er beisk ádeila á það þegar það er alveg ljóst að það er eitthvað að í sambandi en ástin nær að yfirtaka erfiðleikana.
Einvígi 2 – Lag: Bigger Than Us – Flytjendur: Holly Tandy + Michael Rice
Lagahöfundar: Laurell Barker, Anna-Klara Folin, John Lundvik og Jonas Thander.
Holly Tandy er 17 ára gömul en hefur þrátt fyrir ungan aldur komið fram í The X Factor og uppfærslu af Galdrakarlinum í Oz. Hún þakkar 84 ára gömlum afa sínum fyrir að hún heillaðist af tónlist, en það var hann sem keypti fyrsta gítarinn handa henni. Hún elskar Eurovision vegna þess sameiningarkrafts sem keppnin hefur og hversu frábær vettvangur keppnin er til að kynna mismunandi menningu fyrir áhorfendum.
Michael Rice lærði að spila á píano gegnum myndbönd á YouTube og háði baráttu við einelti vegna þess að hann naut þess að syngja. Hann hefur mikið spilað fyrir vegfarendur á götum úti en það var einmitt þannig sem hann komst í sviðsljósið eftir að myndband af honum birtist á YouTube og náði yfir 250 þúsund áhorfum. Hann er virkilega geðþekkur og þegar hann sigraði BBC One Entertainment keppnina gaf hann mömmu sinni meiri hluta vinningsupphæðarinnar svo hún gæti fjárfest í vöfflu- og pönnukökudraumnum sínum. Hann hefur fylgst með Eurovision síðan hann var lítill polli og heldur mikið upp á Salvador Sobral og Måns Zelmerlöw.
Lagið Bigger Than Us fjallar um ástina og hvað hún er stór hluti af lífinu – sama hvað gengur á í lífinu er ástin stærri en allt.
Einvígi 3 – Lag: Freaks – Flytjendur: Jordan Clarke + MAID
Lagahöfundar: Jon Maguire, Rick Parkhouse, Corey Sanders and George Tizzard.
Jordan Clarke hóf ferilinn sem aukaleikari í kvikymdinni Finding Neverland með Johnny Depp og Kate Winslet. Hann er þekktastur fyrir þátttöku sína í Britain’s Got Talent árið 2013, en þar komst Jordan í úrslit með sveitinni The Luminites. Hann segir að ef hann kemst alla leið í Eurovision fyrir hönd Breta væri það eins og að keppa fyrir hönd Englendinga í Heimsmeistaramótinu í fótbolta. Lag Jordans er hresst popplag sem nær manni strax við fyrstu hlustun.
MAID er glæný stúlknasveit sem samanstendur af þeim Blythe, Miracle og Kat. Þær kynntust í leiklistarnámi og komu allar fram í West End leikhúsinu sem forfallaleikarar fyrir hina og þessa stórstjörnuna. Miracle er lagahöfundur og framleiðandi sveitarinnar, Blythe sér um allt sem tengist framkomu og samfélagsmiðlum á meðan hin hálf-norska Kat sér um viðskiptahliðina. Lag MAID er rólegt popplag þar sem raddir þríeykisins fá vel notið sín.
Texti lagsins Freaks fjallar um það að við erum eins mismunandi og við erum mörg, sumir verði stundum út undan, en það sé leið til að sameina okkur öll.
You Decide
Þegar að öll atriðin hafa verið flutt mun dómnefnd skipuð tónlistarfólki ákveða hvaða útgáfa af hverju lagi kemst áfram fyrir dóm þjóðarinnar. Þau þrjú atriði sem komast áfram verða þá flutt aftur og að loknum þeim flutningi hefst símakosningin.
Keppnin fer fram í Media City UK í Salford. Kynnar kvöldsins eru sjónvarpskonan Mel Giedroyc og fyrrum sigurvegari Eurovision Måns Zelmerlöw, sem eftirminnilega voru einnig kynnar í sömu keppni í fyrra. Måns mun ekki einungis vera kynnir heldur mun hann einnig flytja tónlistaratriði – spurning hvort að Surie sem vann í fyrra muni hjálpa honum eins og Lucie Jones sigurvegarinn 2017 gerði í fyrra.