Þá er loksins komið að því kæru Söngvakeppnisaðdáendur – þetta er byrjað að rúlla! Í kvöld var sýndur kynningarþáttur á RÚV um keppendur og framlögin í Söngvakeppninni 2019. Í vikunni fengum við að sjá sýnishorn af sviðinu sem verður notað og einnig var tilkynnt að Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson verði kynnar í ár ásamt Björgu Magnúsdóttur sem staðsett verður í græna herberginu.
Eins og aðdáendur þekkja var fyrirkomulaginu á Söngvakeppninni breytt í ár. Nú verða tíu lög en ekki tólf eins og undanfarin ár og koma þau bæði úr hópi innsendra laga en einnig frá höfundum sem voru ráðnir til að semja sérstaklega fyrir keppnina í ár. Tvo lög komast áfram úr hvorri undankeppni, 9. febrúar og 16. febrúar. Alls keppa því fjögur lög í úrslitum 2. mars nk. en framkvæmdastjórn keppninnar hefur þó möguleika á að hleypa einu lagi til viðbótar áfram, Svarta Pétri, telji hún það eiga sérstakt erindi í úrslit. Lögin í úrslitakvöldinu í Laugardalshöll gætu því orðið fimm.
Það verður að segjast eins og er að Söngvakeppnin í ár er fjölbreytt og m.a. boðið upp á sálnasöng, þungt rokk, nútímapopp, jaa og eitthvað fleira sem við vitum ekki alveg hvað er enn þá. Það vekur þó óneitanlega athygli að í keppninni ár eru átta sólóistar og bara tvær sveitir (Hatari og Elli Grill, Skaði og Glymur). Stóru fréttirnar fyrir Eurovision aðdáendur eru að sjálfsögðu þær að Hera Björk (Eurovision 2010) og Friðrik Ómar (Eurovision 2008) komi aftur í keppnina.
Daníel Óliver með lagið Samt ekki / Licky Licky
Lag: Daníel Óliver Sveinsson, Linus Josefsson og Peter von Arbin
Íslenskur texti: Daníel Óliver Sveinsson
Enskur texti: Daníel Óliver Sveinsson og Linus Josefsson
Daníel Olíver, sem tók þátt í Idol Stjörnuleit um árið, starfaði lengi við tónlist í Svíþjóð en er nú fluttur heim. Eins og flestir muna tók Daníel þátt í Söngvakeppninni 2015 með sólbrúna tríóinu í CADEM þar sem þau sungu lagið Fyrir alla. Daníel sýndi það fyrir fjórum árum að hann er liðtækur dansari svo það verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út á sviðinu. Lagið Samt ekki er skemmtilegt klúbbalag svo við búumst við fjöri og dansi á sviðinu.
Þórdís Imsland með lagið Nú og hér / What are you waiting for?
Lag: Svala Björgvinsdóttir og Bjarki Ómarsson
Íslenskur texti: Stefán Hilmarsson
Enskur texti: Svala Björgvinsdóttir og Bjarki Ómarsson
Svala Björgvins er enginn nýgræðingur þegar kemur að Söngvakeppninni en hún var eins og alþjóð veit fulltrúi Íslands í Kænugarði 2017 þar sem hún flutti lagið Paper sem komst því miður ekki áfram í úrslitakeppni Eurovision. Svala er einnig höfundur hins goðsagnakennda Söngvakeppnislag Wiggle Wiggle Song sem tók þátt árið 2008 sem margir vilja meina að hafa verið langt, langt, langt á undan sinni samtíð. Þórdís Imsland er nýliði í Söngvakeppninni en margir þekkja hana úr The Voice Iceland þar sem hún komst í úrslit 2017. Þar var Þórdís einmitt í Team Svala. Greinilega hefur það samstarf gengið vel því Svala segir að Þórdís sé með allan pakkann fyrir Eurovision og bað hana sérstaklega um syngja lag sitt í keppninni. Lagið Nú og hér er hresst teknó- og transpopp og vonandi megum við eiga von á einhverri sýningu á sviðinu.
Hatari með lagið Hatrið mun sigra
Lag og texti: Hatari
Hér eru svo sannarlega hressandi nýliðar á ferð! Klemens Hannigan, Matthías Tryggvi Haraldson, og Einar Stéfansson mynda hljómsveitina Hatara (eða margmiðlunarverkefnið eins og þeir vilja kalla þetta) sem hefur orð á sér fyrir að vera gjörsamlega tryllt tónleikaband. Þeir hafa t.d. verið lofaðir í hástert fyrir frammistöðu sína á Iceland Airwaves 2016, 2017 og 2018 og The Reykjavík Grapevine kaus Hatara besta tónleikabandið tvö ár í röð. Fyrir þá sem ekki hafa séð Hatara á sviði er einungis hægt að segja: Sjón er sögu ríkari! Tónlist Hatara hefur verið lýst sem pönkuðu heimsendarafpoppi og eru textar sveitarinnar grjóthörð ádeila um tilgerðina sem felst í mannlegri tilveru. Sviðsframkoma strákanna er æði sérstakt leikrit, allt að því einhvers konar trúarleg, ögrandi uppákoma, og klæða þeir sig upp fyrir hverja tónleika í BDSM-goth klæði. Það eru hreinlega stórtíðindi að Hatari sé að taka þátt í Söngvakeppninni og eins og einn FÁSES félagi komst að orði að þá sé Hatari í rauninni mikilvæg tenging á milli íslenska „indie“ tónlistarheimsins og þessa box sem íslenskt júró hefur oft verið í. Þetta hljóta líka að vera góðar fréttir fyrir Hatara-aðdáendur en sveitin sendi frá sér tilkynningu fyrir síðustu áramót um að hún ætlaði að ljúka störfum því „aðstæður á markaði væru slíkar að rekstur Hatara uppfyllir ekki arðsemiskröfur stjórnarinnar að svo stöddu. Þá væri einnig ljóst að markmið sveitarinnar um að afhjúpa linnulausa svikamyllu hversdagsleikans náðist ekki á tilsettum tíma.“ Eins og kom fram í kynningarþætti RÚV áðan er Eurovision einn liður í áætlun Hatara að knésetja kapítalismans. Einnig er það markmið Hatara að afhjúpa svikamylluna sem við köllum hversdagsleikann. Er það ekki akkúrat það sem Eurovision snýst um? Við hreinlega getum ekki beðið eftir að sjá hvað Hatari býður upp á Söngvakeppnissviðinu!
Hera Björk með lagið Eitt andartak / Moving on
Lag: Örlygur Smári, Hera Björk Þórhallsdóttir og Valgeir Magnússon
Íslenskur og enskur texti: Hera Björk Þórhallsdóttir og Valgeir Magnússon
Nú eiga íslenskir Eurovision aðdáendur eftir að hoppa hæð sína í loft upp því Hera Björk er komin aftur! Auðvitað vita allir að Hera vann Söngvakeppnina 2010 með lag sitt og Örlygs Smára Je ne sais quoi. Hún fór síðan alla leið í úrslitin í Osló það árið og endaði í 19. sæti. Aðdáendur þekkja Heru sína en svona til að rifja aðeins upp þá söng hún Mig dreymdi í Söngvakeppninni 2007 en laut í lægra haldi fyrir Eiríki Haukssyni. Árið 2008 lenti Hera í 2. sæti dönsku undankeppninnar fyrir Eurovision, Melodi Grand Prix, með megahittarann Someday. Hún hefur síðan gert æði mikið af því að syngja bakraddir í Eurovision, t.d. árið 2008 með Eurobandinu, árið 2009 með Jóhönnu Guðrúnu og árið 2015 með Maríu Ólafs. Hera hefur einnig verið dugleg að ferðast út um allar trissur á Eurovision tengda viðburði og verður t.d. gestur á skemmtun hollenskra Eurovision aðdáenda í vor. Örlygur Smári er með heil fjögur Eurovision lög á samviskunni, Tell me frá 2000, This is my life frá 2008, Je ne sais quoi frá 2010 og Ég á líf frá 2013. Það er virkilega tímabært að fá Heru aftur á Eurovision-sviðið og við getum ekki beðið eftir að sjá þetta!
Kristina Skoubo Bærendsen með lagið Ég á mig sjálf / Mama said
Lag: Sveinn Rúnar Sigurðsson
Íslenskur texti: Valgeir Magnússon og Sveinn Rúnar Sigurðsson
Enskur texti: Sveinn Rúnar Sigurðsson og Valgeir Magnússon
Kristina er þekkt kantrí- og gospelsöngkona í Færeyjum og eflaust muna margir eftir henni úr Söngvakeppninni 2017 þar sem hún söng lagið Þú og ég með Páli Rósinkranz. Svein Rúnar Sigurðsson þarf vart að kynna fyrir lesendum fáses.is þar sem hann er tíður þátttakandi í Söngvakeppninni og Eurovision. Sveinn er örugglega frægastur fyrir Heaven með Jónsa sem var Eurovision framlag Íslendinga 2004, Valentine Lost með Eiríki Hauks sem keppti í Helsinki 2007 og að sjálfsögðu Hugarró með Magna sem keppti í Söngvakeppninni 2012. Skemmst er að minnast þess að Sveinn Rúnar tók þátt í Söngvakeppninni 2017 og 2018 þar sem Aron Hannes söng lögin Tonight og Golddigger. Með aðstoð Alls um Júróvisjón telst okkur til að þetta sé 17. lagið hans í Söngvakeppninni, ef Heaven frá 2004 er talið með en það ár var ekki haldinn Söngvakeppni heldur lagið valið af RÚV. Að sögn lagahöfundar fjallar lagið um málefni líðandi stundar: Sterkar konur.
Ívar Daníels með lagið Þú bætir mig / Make me whole
Lag: Stefán Þór Steindórsson og Richard Micallef
Íslenskur texti: Stefán Þór Steindórsson og Nikos Sofis
Enskur texti: Stefán Þór Steindórsson og Nikos Sofis
Ívar Daníels er einn af nýliðunum í Söngvakeppninni í ár en kannski muna einhverjir eftir honum sem annar helmingur dúettsins Ívar og Magnús sem tók þátt í Ísland got talent árið 2015 (en Alda Dís sem keppti í Söngvakeppninni 2016 vann einmitt þá keppni). Ívar lærði klassískan söng í Söngskólanum í Reykjavík. Eurovision aðdáendum þykir eflaust skemmtilegt að komast að því að lagahöfundurinn Richard Micallef samdi og söng lagið Coming Home með hljómsveitinni Firelight sem var fulltrúi Maltverja í Eurovision 2014. Lagahöfundurinn Stefán Þór Steindórsson er ekki ókunnugur Eurovision heldur því hann stóð á sviðinu með Eiríki Haukssyni í Helsinki 2007 og með Magna í Söngvakeppninni 2012 við flutning lagsins Hugarró. Lagið Þú bætir mig er kántrílag þar sem rödd Ívars fær að njóta sín.
Friðrik Ómar með lagið Hvað ef ég get ekki elskað? / What if I can‘t have love?
Lag: Friðrik Ómar Hjörleifsson
Íslenskur texti: Friðrik Ómar Hjörleifsson
Enskur texti: Sveinbjörn I. Baldvinsson og Friðrik Ómar Hjörleifsson
Hann er mættur aftur! Maðurinn á bak við Rigg viðburði og hina árlegu Fiskidagstónleikana. Maðurinn sem var kosinn Herra Söngvakeppni í kosningu FÁSES hér um árið til að fagna 30 ára þátttökuafmæli Íslands í Eurovision! Maðurinn sem hefur haft skoðun á öllu sem tengist Eurovision frá hvítu jakkafötunum hans Ara Ólafssonar til notkunar kynjakvóta í Söngvakeppninni. Það hlaut að koma að því að við fengjum einn af Júró-Dalvíkingunum aftur! Friðrik Ómar á langa júró-sögu að baki. Hann hefur þrisvar tekið þátt í Söngvakeppninni; árið 2006 með lagið Það sem verður, árið 2007 með lagið Eldur en það ár varð hann í 2. sæti og er það lag oft nefnt í samhengi við lagið sem átti að vinna en vann ekki. Loks vann hann Söngvakeppnina 2008 með lagið This is my life með Regínu Ósk. Saman mynduðu þau Eurobandið í aðalkeppni Eurovision í Serbíu og lentu í 14. sæti. Að lokum má alls ekki gleyma því að Friðrik Ómar var einn af mönnunum á bak við 2. sæti Íslands árið 2009 þegar hann var bakrödd hjá Jóhönnu Guðrúnu. Eins og kom fram í kynningarþætti RÚV er Friðrik búinn að vera með lagið Hvað ef ég get ekki elskað? í höfðinu í tvö og hálft ár og að hann sjái þetta allt fyrir sér á Eurovision sviðinu. Við þykjumst vita að Frómarinn tekur ekki þátt í Söngvakeppninni nema til að vinna svo hér verður allt upp á 12 stig; söngur, sviðsetning og lag!
Elli Grill, Skaði, Glymur með lagið Jeijó, keyrum alla leið
Lag og texti: Barði Jóhannsson
Tónlistarmaðurinn og rapparinn Elvar Heimisson er betur þekktur sem Elli grill. Elli er forsprakki hljómsveitarinnar Shades of Reykjavík og gaf út sólóplötu í fyrra. Hann er þekktur fyrir að vera með gulltennur og ganga ávallt með sólgleraugu. Jú og fyrir að hafa sungið lag með Leoncie! Viðurnefnið Grill festist víst við hann þegar hann sem krakki fór á hjólabretti á Ingólfstorg og tók með sér samlokugrill til að grilla ostasamlokur ofan í hina hjólabrettakappana. Skaði Þórðardóttir er fjöllistakona sem fæst við tónlist og myndlist og hefur komið reglulega fram með Dragsúgi ásamt því að troða upp á Iceland Airwaves. Glymur er samkvæmt heimildum fáses.is Sigga Soffía danshöfundur sem hannar m.a. „dansa“ fyrir flugeldasýningar. Barða Jóhannsson þarf eflaust ekki að kynna fyrir lesendum fáses.is. Barði er þekktastur fyrir hljómsveit sína Bang Gang en hann samdi lagið Ho Ho Ho We Say Hey Hey Hey sem Merzedes Club flutti í Söngvakeppninni 2008. Að sögn höfundar leitast lagið Jeijó, keyrum alla leið við að skapa hressleika og einhvers konar kraft og þess vegna eigi það vel heima í Eurovision. Ef eitthvað er að marka viðtal RÚV við hópinn virðist 2. sæti í Söngvakeppninni árið 2008 sitja í Barða því í ár ætlar hann víst að vinna betur í því að láta glymja í tómum tunnum. Hér á flugeldadanshöfundurinn Glymur eflaust að koma sterk inn. Það er nokkuð ljóst að Jeijó, keyrum alla leið er djókatriði þessa árs og gæti minnt á þátttöku Club la Persé í finnsku undankeppninni fyrir Eurovision árið 2017.
Tara Mobee með lagið Betri án þín / Fighting for love
Lag: Andri Þór Jónsson og Eyþór Úlfar Þórisson
Íslenskur texti: Andri Þór Jónsson, Eyþór Úlfar Þórisson og Tara Mobee
Enskur texti: Andri Þór Jónsson og Eyþór Úlfar Þórisson
Hér eru komnir fleiri nýliðar í Söngvakeppnina! Tara gengur í Tækniskólann og hefur gefið út nokkur lög síðustu ár. Andri Þór og Eyþór Úlfar eru betur þekktir sem hljómsveitin September og hafa þeir m.a. gefið út lag með Maríu Ólafs, Eurovisionfara Íslendinga frá 2015. Gaman er að geta þess að Eyþór Úlfar er sonur Þóris Úlfarssonar sem ætti að vera aðdáendum Söngvakeppninnar að góðu kunnur, samdi m.a. lag Pálma Gunnarssonar Ég leiði þig heim í keppninni 2016 og lagið Sá sem lætur hjartað ráða för árið 2013. Lagið Betri án þín er algjör partísprengja svo það verður eflaust dans stemning á sviðinu í Háskólabíó!
Heiðrún Anna Björnsdóttir með lagið Helgi / Sunday boy
Lag: Heiðrún Anna Björnsdóttir
Íslenskur texti: Sævar Sigurgeirsson og Heiðrún Anna Björnsdóttir
Enskur texti: Heiðrún Anna Björnsdóttir
Heiðrún Anna Björnsdóttir var áberandi í íslensku tónlistarlífi um miðjan 10. áratuginn og söng meðal annars í hljómsveitinni Cigarette og með GusGus. Heiðrún hefur síðustu 20 ár búið í Englandi og hefur m.a. unnið sem lagahöfundur hjá Universal. Eins og við fengum að heyra í kynningarþætti RÚV finnst henni mjög gaman að lag hennar hafi verið valið til þátttöku í ár og lýsir laginu sínu sem grípandi útvarpslagi. Lagið fjallar um strák með skuldbindingarfælni og finnst pistlahöfundi lagið og Heiðrún minna sig á kvenkyns útgáfu af Prins póló – þetta verður skemmtilegt!