Hver vinnur Eurovision 2018 – Spá FÁSES-liða fyrir kvöldið


Þá eru niðurstöður skoðanakönnunar meðal FÁSES meðlima um hvaða land er sigurstranglegast í kvöld komnar í hús. FÁSES meðlimir telja að Frakkland sé sigurstranglegast með laginu „Mercy“ flutt af Madame Monsieur. Kýpverjar eru næst sigurstranglegastir með lagið „Fuego“ flutt af Eleni Foureira og Rasmussen frá Danmörku með lagið „Higher Ground“ í þriðja sæti. Veðbankarnir sem hafa verið á mikilli hreyfingu í vikunni eru eins og staðan er núna ekki sammála FÁSES meðlimum. Í veðbanka Eurovisionworld.com er Kýpur líklegast til að vinna, Ísrael og Eistland fylgja svo fast á hæla í öðru og þriðja sæti.

Mynd: Andres Putting

FÁSES liðar höfðu rétt fyrir sér með hvaða átta af tíu löndum kæmust áfram í úrslit úr seinni undankeppninni. FÁSES spáðu Ástralíu, Danmörku, Möltu, Moldóvu, Noregi, Póllandi, Serbíu, Svíþjóð, Ungverjalandi og Úkraínu áfram. En í stað Möltu og Póllands fóru Holland og Slóvenía í úrslit.

Þess má geta að röð landa á tilkynningu stiga dómnefndar hefur verið kynnt. Sérfræðingar FÁSES hafa rýnt í röðina til að finna út hvernig framleiðendur Eurovision raða upp löndunum til að gera stigagjöfina mest spennandi. Samkvæmt sérfræðingunum er líklegt að Búlgaría leiði stigagjöfina framan af en Ísrael taki við sér um miðbikið. Kýpverska lagið fer síðan á toppinn í lokin en miðað við hvernig röð ríkja Vestur-Evrópu er sett upp í stigagjöfinni eru miklar líkur á því að franska lagið “Mercy” sé að fara sigra Eurovision 2018.