Partývakt FÁSES.is djammar með aðdáendum!


Partývakt FÁSES.is hefur aldeilis mátt hafa sig alla við að fylgja eftir fjörinu í Lissabon! Hér úir allt og grúir af partýþyrstum Eurovision aðdáendum og ekki úr vegi að lesa yfir kreditkortafærslurnar og skoða símamyndirnar til að sjá hvar besta partýið var.

Fyrir fyrri undankeppni Eurovision síðastliðinn þriðjudag stóðu Flosi Jón Ófeigsson, formaður FÁSES og Gili Taranto, meðlimur í OGAE Ísrael fyrir Eurovision Zumba á skemmtistað aðdáenda Eurocafé. Okkur kom skemmtilega á óvart að yfir 100 manns mættu til að svitna og hita upp fyrir undankeppnina. Flosi og Gili skiptust á að taka Eurovision lög og lög úr undankeppnum fyrir Eurovision og var stemningin svo mikil á tímabili að danspallur kennaranna hrundi! Mesta fjörið var þó þegar kýpverska Eurovision lagi í ár var tekið enda er Fuego með Eleni svo sannarlega Zumbavænsta lagið í ár.

Síðar sama dag stóð FÁSES.is fyrir fyrirpartý á Eurocafé til að hita upp fyrir undankeppnina. Þar var hægt að stilla saman strengi, mála sig með fánalitum og spá og spekúlera fyrir kvöldið. Sérdeilis ánægjulegt þótti Partývaktinni að sjá fjölskyldu Ara þarna alla með tölu og aðra aðstandendur íslenska hópsins hér í Lissabon. Partývaktin dreif sig síðan upp í höll upp úr klukkan sex til að missa ekki af því sem menn áttu síðar um kvöldið eftir að kalla bestu Eurovision undankeppni allra tíma (já eða sumsé frá því að menn byrjuðu með svona undankeppnir). Kvöldið endaði ekki á besta veg fyrir Ísland en við gætum þó ekki verið stoltari af okkar manni sem skilaði sínu 150% og hélt síðan upp stuðinu í græna herberginu með Mikolas frá Tékklandi. Eftir undankeppnina skunduðum við að sjálfsögðu á Eurocafé og sleiktum sárin með hinum svartfellska Slavko sem tróð upp með númerið sitt Space frá því í fyrra.

Í gærkveldi var síðan stóra aðdáendapartý allra 44 OGAE klúbbanna haldið á Eurocafé. Þar tróðu meðal annarra upp Sanna Nielsen (Svíþjóð 2014), Flor de lis (Portúgal 2009), Suzy (Portúgal 2014) og Baccara (Luxembourg 1978). Ari Ólafsson og íslenski hópurinn kom og tók Eurovision syrpu, María Ólafsdóttir (Ísland 2015) tróð upp með Unbroken og Euophoria og Fókus hópurinn tók lagið sitt úr Söngvakeppninni í ár Battleline.

Við látum fylgja með nokkrar myndir af fjöri síðustu daga. Við hvetjum ykkur líka eindregið til að kíkja á myndirnar úr OGAE International partýinu á facebook.