Spá FÁSES meðlima fyrir seinni undankeppni Eurovision 2018


Meðlimir FÁSES voru spurðir í vefkönnun að því hvaða tíu lög þeir teldu komast áfram úr fyrri undankeppni Eurovision og reyndust þeir hafa 7 af 10 rétt. Litháen, Albanía og Írland komust áfram en FÁSES taldi Asera, Belga og Grikki komast í aðalkeppni Eurovision. Nú er komið að því að fara yfir spá FÁSES-liða um hverjir komast áfram í úrslitin úr seinni undankeppni Eurovision í kvöld.

Tölfræðispekingar FÁSES hafa setið sveittir í blaðamannahöllinni í Lissabon í morgun og liggja niðurstöðurnar loksins fyrir. Hér á eftir er listi í stafrófsröð yfir hvaða lög FÁSES meðlimir telja að komist áfram í úrslit í kvöld;

Ástralía: Jessica Mauboy „We Got Love“
Danmörk: Rasmussen „Higher Ground“
Malta: Christabelle „Taboo“
Moldavía: DoReDos „My Lucky Day“
Noregur: Alexander Rybak „That’s how you write a song“
Pólland: Gromee feat. Lukas Meijer „Light me Up“
Serbía: Sanja Ilić & Balkanika „Nova Deca“
Svíþjóð: Benjamin Ingrosso „Dance You Off“
Ungverjaland: AWS „Viszlát Nyár“
Úkraína: Melovin „Under the Ladder“

Staðan í blaðamannakosningunni 10. maí klukkan 14:21. Skjáskot.

OGAE International stendur fyrir kosningu meðal blaðamanna í höllinni. Í dag þegar þetta er ritað eru FÁSES meðlimir sammála blaðamönnum um 9 af 10 lögum sem þau spái í úrslit. FÁSES-liðar segja að Serbía fari í úrslit en blaðamenn telja að Hollendingar fari í úrslit.

Ef við skoðum veðbankann hjá Eurovisionworld.com þá eru FÁSES meðlimir sammála veðbankanum um átta af tíu lögum í úrslit. Veðbankinn spáir Hollandi og Lettlandi í úrslit í stað Serbíu og Möltu.