Eurovisionlög með boðskap


Eurovisionkeppnin í ár er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er metfjöldi tungumála en 13 Eurovisionlög í ár eru sungin á 12 tungumálum. Það er ansi mikil aukning frá því fyrra, en þá voru einungis fjögur lög sungin alfarið á öðru máli en ensku. Í öðru lagi virðist sem að keppendum sé það mjög í mun að lög þeirra hafi boðskap sem skipti máli fyrir samfélag manna og þjóða. Má þar á meðal annars nefna friðarboðskap, baráttu gegn einelti og andlegum veikindum og óð #metoo byltingarinnar. 

 

Friðarboðskapur

Fyrst má kannski nefna friðarboðskapinn í Our Choice en Ísland er samt ekki eina landið á þeim nótunum.

Franska lagið Mercy vekur athygli á því hryllilega ferðalagi sem flóttamenn standa frammi fyrir þegar þeir flýja stríðsátök í heimalöndum sínum. Mercy fjallar um litla flóttamannastúlku sem fæddist um borð í skipi á Miðjarðarhafinu fullu af fólki á flótta og verður táknmynd fyrir von og nýtt og betra líf en einnig minni allra þeirra barna sem ekki lifa ferðalagi af. Þess má geta að Mercy og móðir hennar búa nú í flóttamannabúðum á Ítalíu.

Ítalir gera hryðjuverk undanfarinna ára að umtalsefni í sínu lagi Non mi avete fatto niente og koma þeim skilaboðum á framfæri að fólk muni ekki láta hryðjuverk og ótta stjórna lífi sínu og hryðjuverkamönnum muni því ekki takast það ætlunarverk sitt að ala á hræðslu, sundrung og hatri meðal almennings.

Jessicu Mauboy frá Ástralíu segist hafa sótt innblástur fyrir sitt lag til Bandaríkjanna en hún hreifst mjög af hugrekki og baráttu nemenda Marjory Stoneman Douglas framhaldsskólans í Flórída fyrir hertari byssulöggjöf í Bandaríkjunum en 17 nemendur og kennarar þess skóla voru myrtir í byssuárás 14. febrúar á þessu ári.

 

Andleg veikindi

Það eru fleiri keppendur sem liggja erfið málefni þungt á hjarta. Maltverska söngkonan Christabelle Borg vill með lagi sínu Taboo vekja athygli á andlegum veikindum og draga úr þeim fordómum sem fólk með andlega sjúkdóma verður fyrir. Hún vill draga umræðuna fram í sviðsljósið og draga þar úr þeirri hræðslu sem fólk upplifir við að viðurkenna að það þjáist af andlegum erfiðleikum. Christabelle var á dögunum skipuð sem sérstakur sendiherra málefna um andleg veikindi á Möltu.

 

Einelti

San Marínó og Sviss er einelti hugleikið enda senda bæði löndin frá sér lög þar sem einelti er kveikja að lagasmíðunum. We are who we are stappar stálinu í þá sem einhvern tímann hafa verið lagðir í einelti og Stones segir þolendum eineltis að gefast ekki upp. 

 

Hinsegin fólk

Írar og Finnar vekja athygli á hinsegin samfélaginu. Hin finnska samkynhneigða Saara Alto syngur lagið Monsters þar sem hún segist ekki lengur vera í felum heldur kemur fram stolt og hinsegin og lætur ekki aðra hræða sig né fótum troða vegna kynhneigðar sinnar.

Írinn Ryan segir það mikilvægt að fólk skilji að hinsegin fólk séu fullgildir og jafngildir einstaklingar samfélagsins og því ákvað hann að vera með tvo karlkynsdansara á sviðinu sem túlka ástfangið samkynhneigt par og er það í fyrsta sinn í sögu Eurovision.

 

#metoo

Margir vilja meina að lag Nettu frá Ísrael sé #metoo lag. Hún hefur reyndar ekki viljað staðfesta það en textinn virðist þó mjög í anda þess að virða líkama kvenna og segja predikurum til syndanna enda eru konur dýrðlegt sköpunarverk og heimskir strákar sem kunna ekki leikreglurnar mega bara hypja sig. Ef þetta er ekki valdefling í anda #metoo þá veit ég ekki hvað!

 

Svo er spurning hvað áhorfendur gera. Vilja þeir sigurvegara með boðskap eða munu þeir hrífast af fallegum kjól eða eldglæringum og glimmersjói? Það er nefnilega það fallega og skemmtilega við Eurovision, úrslitin eru óútreiknanleg og stundum viljum við undurfalleg lög sem hitta mann í hjartarætur en stundum vill maður bara stuð. Og hvoru tveggja á jafnmikinn rétt á sér.