Í dag er komið að fyrstu æfingum stóru fimm þjóðanna (big 5) og Portúgals sem keppa ekki í undankeppnum heldur hefja keppni í úrslitunum laugardaginn 12. maí.
Fréttararitarar FÁSES.is eru mættir í blaðamannahöllina og munu segja frá því sem fyrir augu ber. Fréttin verður uppfærð eftir því sem æfingum fram vindur hér í Altice Arena í Lissabon
Portúgal – Cáudia Pascoal syngur O Jardim
Claudia og Isaura er með sömu uppsetningu á sviðinu og í undankeppninni í Portúgal. Myndatökunni hefur verið breytt mikið. Claudia er klædd í náttkjól og mussu utanyfir sem lítur út fyrir að vera spítalaklæðnaður. Hún er ennþá með fallega bleika hárið sitt. Isaura stendur nú á sviðinu við hliðina á Claudiu og birtist ekki fyrr en líður á lagið. Spennitreyjan sem Isaura klæddist í undankeppninni hefur blessunarlega verið skilin eftir og Isaura er nú klædd í Nirvana bol, galla leggings og íþróttaskó rétt eins og hún sé að mæta á rokktónleika. Flutningurinn hjá þeim stöllum er góður og blaðamenn fagna gestgjöfunum eftir flutninginn.
Bretland – SuRie syngur Storm
SuRie byrjar lagið í einhverskonar tígullaga ljósabakgrunn sem breytist svo í ljósagöng á sviðinu. Minni svolítið á Tonight Again frá 2015. SuRie er klædd í hvítan samfesting með víðum skálmum. Við söknum þess að hún hreyfi sig meira á sviðinu en hún virtist mun öruggari í rennsli númer tvö en í því fyrsta þar sem hún hreyfði sig lítið og var eins og föst við sviðið.
Spánn – Amaia y Alfred syngja Tu Canción
Dregið hefur stórlega úr klisjuvæmni atriðis Spánverja frá því í undankeppninni á Spáni. Söngvararnir Alfred og Amaia halda nú á hljóðnemum í staðinn handfrjálsa hljóðnemann sem þau voru með heima og hafa því mun minna svigrúm til að knúsast á sviðinu. Alfred hefur fengið lánuð jakkafötin hans Ara úr Söngvakeppninni og pimpað þau upp með glimmeri. Amaia hefur greinilega farið að versla með SuRie því þær eru báðar í hvítum ermalausum samfestingum. Hárgreiðslukonan hefur greinilega brætt úr hárþurrkunni í morgun þegar Jonas frá Danmörku var að æfa svo að ekki hefur náðst að blása hárið á Amaiu.
Þýskaland – Michael Schulte syngur You Let Me Walk Alone
Michael var eitthvað stressaður á æfingunni í dag og var ekki alltaf á réttum stað í laginu. Atriðið er mjög svipað og heima í Þýskalandi. Michael er klæddur í svartan síðerma bol og gallabuxur. Búið er að koma fyrir risastórum LED skjá á sviðið fyrir aftan hann þar sem texti lagsins birtist og í bakgrunni eru myndir af foreldrum með börnin sín. Einstaklega hugljúft en því miður gekk flutningurinn ekki nógu vel. Vonandi nær Michael að róa taugarnar fyrir laugardaginn 12. maí.
Ítalía – Ermal Meta e Fabrizio Moro syngja Non Mi Avete Fatto Niente
Bravissimo! Einstaklega vel heppnað atriði hjá Ítölum. Sviðið er lýst upp með rauðum ljósum. Félagarnir eru klæddir eins og þeir séu á leiðinni á tónleika á Ellefunni sálugu. Ermal er í dökkum jakka, bláum bol og gallabuxum. Hinn krullhærði Fabrizio er í hermannagrænum jakka, hvítum bol og gallabuxum. Á skjánum birtist texti lagsins á tungumálum Evrópu og þar á meðal kemur íslensk þýðing á setningunni „Perché tutto va oltre
Le vostre inutili guerre“. Á íslensku „það er til meira en tilgangslaus stríð þín“. Í lokin ganga kauðar yfir brúnna sitthvorum megin og yfir á kattabrúnna (e. catwalk) og mætast á miðju ytra sviðinu.
Frakkland – Madame Monsieur syngur Mercy
Andrúmsloftið í blaðamannahöllinni var rafmagnað áður en fyrsta rennsli Frakka hófst. Émilie er klædd í svartan rúllukragabol með herðapúðum og lítur út fyrir að vera karakter úr Star Trek og Jean-Karl er í venjulegum svörtum rúllukragabol og heldur á rauðum gítar í Lissabon. Atriðið er stílhreint eins og í París. Hjónin ganga niður á kattapallinn sitthvorum megin frá miðju sviðsins og enda á miðjum pallinum og byrja að lyfta upp hægri hendinni í takt við lagið. Það var sérstakt að sjá atriðið án áhorfenda í salnum, en það verður væntanlega mjög áhrifamikið þegar áhorfendur taka undir í lokin og byrja að lyfta hægri hendi í takt með hjónunum. Ljósin sem komu svo vel út í Destination Eurovsion vantar á sviðið og í staðinn er sviðið lýst upp með bláum og rauðum ljósum svo það virkar svolítið kalt í byrjun.