Eurovisionfíknin er oft óyfirstíganleg og það á einnig við um keppendurna. Við þekkjum öll hana Valentinu Monettu sem er eflaust orðin heiðursgóðkunningi Eurovision, að minnsta kosti svona í seinni tíð. En það er ekki hún Valentina okkar sem er í sviðsljósinu að þessu sinni heldur þeir keppendur ársins í ár sem eru ekki að stíga sín fyrstu skref á Eurovision sviðinu.
Holland
Fyrir hönd Hollands keppir kántrírokkarinn Waylon, en hann birtist okkur fyrst sem partur af The Common Linnets sem flutti framlag Hollendinga árið 2014, Calm after the storm. Lagið vakti mikla lukku en það lenti í öðru sæti, 52 stigum á eftir sigurlaginu frá Austurríki. Lagið öðlaðist svo nýtt líf hér á landi fyrr á þessu ári í flutningi Ágústu Evu og Magna Ásgeirssonar. Laginu var snarað yfir á íslensku af Sævari Sigurgeirssyni og fékk heitið Þegar storminn hefur lægt.
Noregur
Norðmenn bjóða okkur upp á kanónu góðkunningja í ár, en það er enginn annar en fyrrum sigurvegarinn frá 2009 Alexander Rybak. Líkt og þá kemur hann í ár með sína eigin tónsmíð en að þessu sinni eru þetta IKEA leiðbeiningar um hvernig á að semja lag; óvitahelt og ekkert sem að einn skiptilykill getur ekki reddað. Alexander setti stigamet síðast þegar hann tók þátt, nú er spurning hvað kemur upp úr atkvæðakössunum.
Ekki eru allir góðkunningjar ársins fyrrum aðalnúmer, en það eru heilar þrjár fyrrum bakraddir sem mæta í aðalhlutverkinu í ár.
Austurríki
Hinn viðkunnarlegi Cesár Sampson keppir fyrir hönd heimalands síns í ár en þetta er alls ekki hans fyrsta skipti á stóra sviðinu. Hann var nefnilega í bakraddateymi Búlgara bæði 2016 og 2017. Það sást glitta í hann sem partur af bakraddateymi hennar Poli Genovu árið 2016, þegar Búlgarar náðu sínum besta árangri í sögunni. Hann sést í mynd þegar bakraddirnar koma fram á síðustu mínútunni og er hann lengst til vinstri, frá okkar sjónarhorni. Hann mætti svo aftur ári seinna sem bakrödd fyrir Búlgaríu með hinum unga Kristian Kostov sem náði að toppa gengi Poli með því að ná silfrinu. Hann var þó ekki í mynd þá, en við fengum bara að njóta tónanna í staðinn.
Búlgaría 2016
Búlgaría 2017
Bretland
Hin breska SuRie er í aðalhlutverki fyrir heimaland sitt Bretland í ár, en hennar fyrri reynsla kemur úr herbúðum Belga. Hún var í bakraddateymi Belga sem þekkt er fyrir sín listrænu dansspor í belgíska atriðinu sem Loic Nottet flutti árið 2015. Einnig kom hún að listrænni stjórnun á belgíska atriðinu hjá Blanche árið 2017. Í ár er hún komin á heimaslóðir og ætlar sér langt fyrir hönd Breta.
Slóvenía
Lea Sirk er mögulega sá góðkunningi þar sem endurkoman hefur ekki vakið eins mikla athygli og hjá hinum. Í ár flytur hún framlag Slóvena en hún hefur áður verið í bakraddateymi Slóvena tvisvar, hjá Tinköru Kovac árið 2014 og hjá ManuEllu árið 2016. Hún sást vel í mynd árið 2014 en var þó með svart hár en ekki sitt fölbleika líkt og í ár. Hins vegar voru bakraddirnar fyrir utan svið árið 2016 og fékk hún því ekki að njóta sviðsljóssins þá. En annað er sko uppi á teningnum í ár þar sem hún er í aðalhlutverki.
Slóvenía 2014
Slóvenía 2016
Næstum því endurkomur
Í ár fáum við að njóta krafta tveggja söngkvenna sem búa yfir sterkum tengslum við Eurovision þótt þær hafi hvorugar keppt í Eurovision. Önnur hefur þó fengið að stíga á svið, hin komst ansi nálægt því.
Byrjum á hinni áströlsku Jessicu Mauboy. Hún flytur framlag Ástralíu í ár en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún birtist okkur á Eurovision-sviðinu. Þegar keppnin var haldin í Kaupmannahöfn 2014 fengu Danirnir Ástrali til að koma með smá skemmtiatriði, bæði til að leyfa okkur að njóta og til að heiðra hinn óbilandi áhuga Ástrala á keppninni. Það ár voru Ástralir nefnilega ekki byrjaðir að taka þátt, sem þeir áttu svo reyndar eftir að gera ári seinna, en höfðu verið mikil áhugamannaþjóð um keppnina í mörg ár. Atriðið var kynnt sem hreint skemmtiatriði og ekkert var minnst á verðandi þátttöku þeirra. En ætli EBU hafi ekki verið búið að ákveða að Ástralir væru að fara að mæta á svæðið og mögulega viljað búa okkur Evrópubúa undir komu þeirra.
Næsti næstum því góðkunningi er hin rússneska Julia Samoylova, en eins og eiginlega allir ættu að vita þá fékk hún ekki að keppa í Úkraínu í fyrra vegna ástæðna sem við förum kannski ekkert nánar út í hér því það tæki heilan pistil ásamt því að vel var farið yfir þau mál í fyrra. En lagið var gefið út og fékk meira að segja að vera með á opinbera disknum sem gefinn var út á vegum keppninnar. En nú er hún Julia loksins mætt á svæðið og flytur framlag Rússa í ár. Nú er bara að bíða og sjá hvernig henni tekst til í sinni annarri tilraun.
Þetta voru góðkunningjar ársins í ár, að minnsta kosti þegar kemur að aðalsöngvurum. Allnokkrir lagahöfundar eru með endurkomur, sumir eru meira að segja búnir að mæta svo oft á Eurovision að varla er hægt að tala um endurkomur. Frekar að þeir séu bara orðnir „part of prógrammet“ eins og maður segir á góðri íslensku. Má þar á meðal nefna Söndru Bjurman, sem hefur samið nokkur framlög Asera, hinn rússneska Filip Kirkorov, sem semur lag Moldóvu í ár en hefur komið að nokkrum atriðum frá Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi og síðast en ekki síst Thomas G:son, höfund Euphoria, en hann semur lag Maltverja í ár.