Ari negldi algjörlega aðra æfingu eftir umferðartafir!

Mynd: Anders Putting

Ari og íslenski hópurinn tóku daginn snemma í dag enda önnur æfing hópsins á sviðinu á dagskránni. Það gekk þó ekki allt alveg samkvæmt áætlun þar sem mikil umferðarteppa var hér í Lissabon í morgun og hópurinn komst því ekki í höllina í tæka tíð fyrir æfingu. Það kom þó ekki að sök því að Albanía hljóp í skarðið og íslenski hópurinn komst á svið að æfa á eftir þeim.

Eins og við sáum á fystu æfingunni hefur atriðið tekið á sig nýja mynd frá því í Söngvakeppninni, engin hljóðfæri eru á sviðinu og bakraddir standa að baki Ara. Atriðið byrjar í bláu og hvítu en aðallitaþemað er rautt og gyllt. Rétt eins og við var að búast negldi Ari öll þrjú rennsli lagsins og óhætt að segja að stemmingin á sviðinu er alveg í anda lagsins.