Tungumálahlaðborðið 2018


Síðan 1999, þegar ný tungumálaregla gerði þjóðum kleift að syngja á hvaða tungumáli sem er var komið á, hafa einungis tvö sigurlög Eurovision verið flutt á öðru tungumáli en ensku. Auk þess hefur meirihluti framlaga hvert ár síðan þá verið á hinni útbreiddu ensku. Alltaf er þó einhver fjöldi laga hvert ár flutt á móðurmáli landa sem ekki eru enskumælandi eða jafnvel á tungumálum sem ekki eru töluð í viðkomandi landi og jafnvel bara ekki til yfirhöfuð.

Mismikill fjöldi laga á öðru tungumáli en ensku hefur fengið að leika um eyru okkar á hverju ári en sigurlag Portúgala í fyrra, sem einmitt var flutt á móðurmáli þeirra portúgölsku, gæti hafa haft áhrif á það hversu mörg lög eru flutt á öðru tungumáli en ensku í ár.

Heildarfjöldi slíkra laga er hvorki meira né minna en 13 stykki sungin á 12 tungumálum. Það er ansi mikil aukning frá því fyrra, en þá voru einungis fjögur lög sungin alfarið á öðru máli en ensku og þrjú sungin á blöndu af ensku og öðru tungumáli. Fjöldinn í ár slær þó ekki neitt met, en árið 2013 býr yfir tungumálametinu, en þá voru hvorki meira né minna en 17 framlög sungin á öðru máli en ensku, og árið 2008 voru það 15 lög. Árið 2018 nær þó að koma sér upp í bronssætið, sem það deilir með árinu 2010.

Í tilefni þess að boðið er upp á ágætis hlaðborð af tungumálum í ár ætlum við að fara yfir þessi 12 tungumál sem finna má í 13 framlögum ársins 2018.

Albanska 

Albanir bjóða okkur upp á móðurmál sitt albönsku í ár. Er þetta í 15. skiptið sem Albanía tekur þátt í Eurovision en einungis í fimmta skiptið sem þeir syngja alfarið á albönsku. Af þeim fjórum framlögum úr fortíðinni sem hafa verið á albönsku hafa tvö komist áfram í úrslitin – 2008 og 2012 – en tvö þeirra þurft að sitja eftir í undanúrslitunum – 2006 og 2013. Tvö albönsk framlög hafa verið mest megnis á ensku en svo með smá lagabút á albönsku – 2007 og 2011.

Albanska er af indó-evrópskum uppruna þar sem það tilheyrir sinni eigin ættkvísl. Tungumálið er opinbert tungumál í Albaníu, Kosovo og Makedóníu, en er þó talað víðar. Albani má finna víða um Evrópu ásamt því að vera nokkuð fjölmennir í Bandaríkjunum, Kanada, Argentínu, Ástralíu og Egyptalandi. Talið er að um 5,5 milljónir einstaklinga tali albönsku að móðurmáli.

Armenska

Framlag Armena er flutt á móðurmáli þeirra armensku og er þetta í fyrsta skiptið sem lag alfarið á armensku heyrist í Eurovision. Textabútar á armensku hafa þó heyrst þrisvar áður, en í framlögum Armena árin 2007, 2008 og 2009 mátti heyra glitta í armensku, mismikla þó. Framlagið frá 2009 hafði fram til ársins í ár verið það framlag sem innihélt hvað mest af armensku en nánast helmingur lagsins er á móðurmálinu en restin á ensku.

Armenska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir sinni eigin ættkvísl. Tungumálið býr yfir sínu eigin stafrófi og mælum við eindregið með að fletta því upp á veraldarvefnum af fagurfræðilegum ástæðum. Tungumálið hefur þó orðið fyrir miklum áhrifum frá persnesku, svo mikið að um tíma héldu fræðimenn að tungumálið tilheyrði indó-írönsku ættkvíslinni. Í dag samanstendur um 40% af orðaforða armensku af tökuorðum úr persnesku. Talið er að armenska sé móðurmál um sex til sjö milljóna einstaklinga. Armenska er opinbert tungumál í Armeníu, ásamt því að vera talað víða um heim en hægt er að finna samfélög Armena í öllum heimsálfunum.

Franska

Frakkar syngja á sínu móðurmáli í ár líkt og þeir hafa gert í nánast öllum framlögum sínum. Frakkar hafa reyndar ekki ennþá sent framlag í keppnina sem sungið er alfarið á ensku, en komust nálægt því árið 2008 þegar lag þeirra innihélt einungis tvær línur á frönsku en restin var á ensku. Einnig hafa Frakkar boðið okkur upp á önnur tungumál sem töluð eru í Frakkland – eins og korsísku, bretónsku og haítíska kreólsku – en það er nánast efni í sér pistil út af fyrir sig.

Franska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættkvíslinni. Hennar nánustu ættingjar eru meðal annars spænska og ítalska. Franska er ansi útbreitt tungumál en hún er opinbert tungumál í 29 löndum í fimm heimsálfum og talið er að á milli 75 til 80 milljónir einstaklinga tali frönsku að móðurmáli. Bara í Evrópu er franska opinbert tungumál í Frakklandi, Belgíu, Sviss, Mónakó og Lúxemborg.

Georgíska

Georgía býður okkur uppá móðurmál sitt nánast í fyrsta skiptið í ár. Er þetta fyrsta framlag landsins sem flutt er eingöngu á georgísku, en við fengum að heyra fjórar línur á tungumálinu í upphafi framlags Georgíu árið 2012. Þar fyrir utan hafa önnur framlög Georgíu verið á ensku.

Georgíska tilheyrir Kartvelian tungumálaættinni, en sú ætt samanstendur af fjórum tungumálum. Georgíska er þó eflaust sú þekktasta en hin tungumálin þrjú eru í raun ekki opinber tungumál neins lands og eru þau öll töluð innan Georgíu. Líkt og armenska þá býr georgíska yfir sínu eigin stafrófi, sem við mælum einnig með að fletta upp á veraldarvefnum. Um 3,7 milljónir einstaklinga tala georgísku að móðurmáli, en fyrir utan Georgíu er tungumálið talað meðal annars í Rússlandi, Íran, Tyrklandi, Aserbaídsjan og Bandaríkjunum.

Gríska

Grikkir mæta til leiks með framlag alfarið á móðurmáli sínu grísku í fyrsta skiptið síðan 2010 og er þetta einungis í annað skiptið síðan 1999 sem það gerist. Gríska hefur þó heyrst í nokkrum framlögum Grikkja síðan þá til blands við ensku. Framlag þeirra árið 2013 var reyndar að mestu leyti á grísku en viðlagið var á ensku – sem var þó bara tæknilega séð sama setningin endurtekin aftur og aftur. Grikkir hafa reyndar verið svolítið í því að syngja versin á einu tungumáli og viðlagið á öðru, en árið 2016 var viðlagið á ensku en versin á grísku og svo öfugt árið 2011. Gaman er þó að segja frá því að bæði framlög voru líka blanda af söng og rappi. Svo má nú reyndar ekki gleyma framlagi Grikkja árið 2001 sem sungið var á blöndu af grísku og ensku þar sem við kynntumst drottningunni Helenu Paparizou.

Gríska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir sinni eigin ættkvísl. Tungumálið er sögulegt fyrir þær sakir að vera elsta indó-evrópska tungumálið sem enn er talað, en elstu skriflegu heimildir um grísku eru um 3400 ára gamlar. Gríska er opinbert tungumál í Grikklandi og Kýpur ásamt því að vera talað meðal annars í Albaníu, Ítalíu, Ungverjalandi og Rúmeníu. Talið er að um um 13,5 milljónir einstaklinga hafi það að móðurmáli.

Ítalska

Ítölsku er að finna í ekki einu, heldur tveimur framlögum í ár. Það ætti ekki að koma á óvart að Ítalir flytji framlag sitt á móðurmáli sínu en það er einnig annað land sem er nú ekki sérlega þekkt fyrir ítölskukunnáttu sína sem nýtir sér það, Eistland. Er þetta í fyrsta skiptið sem Eistar syngja á ítölsku, en nágrannar þeirra Lettar brugðu á það ráð að syngja á ítölsku árið 2007. Gaman er að segja frá því að bæði lögin eru einmitt óperulög. Ítalir hafa hins vegar alltaf sungið á ítölsku, að minnsta kosti að hluta til. Þrjú framlög þeirra hafa verið á blöndu af ítölsku og ensku – 2011, 2012 og 2016.

Ítalska er af indó-evrópskum uppruna, nánar tiltekið af rómönsku ættkvíslinni. Meðal hennar næstu nágrannar eru spænska og franska. Ásamt því að vera opinbert tungumál Ítalíu er hún það einnig í San Marínó. Sviss og Vatíkaninu. Einnig er tungumálið móðurmál flestra þeirra sem búa á Istra-skaganum, en Ítalía, Króatía og Slóvenía deila honum á milli sín. Talið er að um 90 milljónir einstaklinga hafi ítölsku að móðurmáli sínu.

Portúgalska

Portúgal er annað land sem hefur alltaf sungið á portúgölsku, en í þremur framlögum þeirra hefur þó fundist partur af texta á ensku – 2003, 2005 og 2006. Síðan þá hefur framlag Portúgala verið 100% á portúgölsku og þykir þeim eflaust engin ástæða til þess að breyta því, þar sem þau enskuskotnu vöktu nánast enga athygli en Portúgölum tókst loksins að vinna keppnina með lagi á móðurmálinu.

Portúgalska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættkvíslinni. Er tungumálið því náskylt frönsku, spænsku og ítölsku. Þrátt fyrir að Portúgal sé ekki gríðarstórt land þá tala um 220 milljónir einstaklinga portúgölsku að móðurmáli, en hún er einnig opinbert tungumál í Brasilíu, Grænhöfðaeyjum, Mósambík, Gíneu-Bissau, Angóla og São Tomé & Principe. Einnig er tungumálið talað í Austur-Tímor, Miðbaugs-Gíneu og á Macau. Þakka má útbreiðslunni hinum afkastamiklu landkönnuðum Portúgala ásamt þeirri staðreynd að Portúgal var eitt sinn helsta nýlenduveldi heims.

Serbneska

Serbar flytja sitt framlag í ár á móðurmáli sínu serbnesku, en síðustu þrjú framlög þeirra hafa verið á ensku. Þar á undan voru öll framlög þeirra á serbnesku frá því að þeir tóku fyrst þátt sem sjálfstæð þjóð árið 2007. Framlag Serbíu og Svartfjallalands var einnig flutt á serbnesku árið 2004. Einnig voru nokkur framlög Júgóslavíu, þegar það var og hét, flutt á serbnesku. Þar á meðal framlög Júgóslavíu árið 1974 og 1991.

Serbneska er af indó-evrópskum uppruna, tilheyrir ætt slavneskra tungumála og er náskyld bosnísku, króatísku og svartfellsku. Serbneska er opinbert tungumál í Serbíu ásamt því að vera eitt af þremur opinberum tungumálum í Bosníu-Hersógovínu og eitt af tveimur í Kosovo. Um 12 milljónir einstaklinga tala serbnesku að móðurmáli, en fyrir utan þau lönd sem hafa það að opinberu tungumáli er serbneska einnig töluð meðal annars í Svartfjallalandi, Króatíu og Makedóníu.

Slóvenska

Slóvenar hafa sent okkur framlög bæði á slóvensku og á ensku í gegnum tíðina, en framlag þeirra í ár er fyrsta framlagið alfarið á slóvensku síðan 2012. Önnur framlög fram að því voru á ensku, fyrir utan lagið frá 2014 sem sungið var á blöndu af slóvensku og ensku.

Slóvenska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir ætt slavneskra tungumála. Líkist það serbnesku, króatísku og bosnísku, en tilheyrir þó sinni eigin undirættkvísl. Slóvenska er opinbert tungumál Slóveníu ásamt því að vera talað í Ítalíu, Austurríki, Ungverjalandi og Króatíu, en um 2,5 milljónir einstaklinga hafa það að móðurmáli.

Spænska

Spánverjar flytja framlag sitt á móðurmáli sínu spænsku, eða nánar tiltekið castellano. Þannig er mál með vexti að á Spáni eru í raun töluð nokkur tungumál og mállýskur sem öll eru náskyld hvert öðru, þar á meðal katalónska, valenciano og andalúsísk mállýska. Spánverjar eru ein af þeim þjóðum sem hafa verið dugleg að senda framlög á sínu móðurmáli, en undantekning var þó á árið 2016 er framlag þeirra var alfarið á ensku. Þá hafa einnig nokkur framlög verið á blöndu af spænsku og ensku – þar á meðal árið 2002, 2008 og 2014.

Spænska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættinni, ásamt frönsku, ítölsku og portúgölsku. Spænska er eitt útbreiddasta tungumál í heimi en það er opinbert tungumál um 20 landa, en meirihluti þeirra sem tala spænsku að móðurmáli koma frá Suður- og Mið-Ameríku. Tungumálið er talið vera annað mest talaða móðurmál heims, á eftir mandarísku. Á milli 470 og 500 milljónir einstaklinga tala spænsku að móðurmáli.

Svartfellska

Svartfellingar hafa boðið uppá blöndu af framlögum á ensku og móðurmáli þeirra svartfellsku síðan þeir hófu að taka þátt sem sjálfstæð þjóð.  Þar fyrir utan var framlag Serbíu og Svartfjallalands árið 2005 flutt á svartfellsku. Tvö síðustu framlög Svartfellinga voru á ensku og er þetta því fyrsta framlagið á svartfellsku síðan 2015.

Svartfellska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir ætt slavneskra mála. Er það náskylt serbnesku og lengi vel var ekki gerður munur á þessum tveimur tungumálum. Svartfellska sem eiginlegt sjálfstætt tungumál varð þó til við fall Júgóslavíu og var hún gerð að opinberu tungumáli Svartfjallalands árið 2007, er landið klofnaði frá Serbíu og öðlaðist sjálfstæði. Svartfellska er nánast eingöngu töluð í Svartfjallalandi og er talið að einungis um 230 þúsund tali hana að móðurmáli, þrátt fyrir að svartfellska þjóðin telji um 640 þúsund einstaklinga.

Ungverska

Af þeim tólf framlögum sem Ungverjar hafa sent til leiks síðan 1999 er framlag þeirra í ár það fjórða sem sungið er alfarið á ungversku – hin eru frá 2005, 2013 og 2017. Hin átta hafa þó ekki öll verið alfarið á ensku, en tvö þeirra innihéldu textabrot á ungversku – 2008 og 2011.

Ungverska er nokkuð sér á báti þegar kemur að flokkun en það er af úrölskum uppruna, nánar tiltekið finnó-úgrík og er því tæknilega séð af sama uppruna og finnska og eistneska. Sáralítil líkindi eru þó með ungversku og fjarskyldum ættingjum þeirra frá Finnlandi og Eistlandi. Aðra fjarskylda ættingja má líka finna í tungumálum sem töluð eru í Rússlandi, þar á meðal udmurt sem rússnesku ömmurnar árið 2012 sungu einmitt á. Ungverjaland er umkringt löndum sem tala tungumál af slavneskum uppruna og hefur það því verið hálfgerð ráðgáta á meðal fræðimanna hvernig ungverska þróaðist í það tungumál sem hún er í dag. Að auki ratar ungverska á marga lista yfir erfiðustu tungumálin í heiminum. Ungverska er opinbert tungumál Ungverjalands ásamt því að vera töluð meðal annars í Austurríki, Póllandi, Úkraínu og Slóvakíu. Talið er að um 13 milljónir einstaklinga hafi ungversku að móðurmáli.


Þá er þessari yfirferð á hinu vel útilátna tungumálahlaðborði ársins 2018 lokið. Nú er bara spurning hvort eitthvert þessara laga nái að feta í fótspor Portúgals og Serbíu og verða þriðja landið sem vinnur síðan 1999 með lag á öðru tungumáli en ensku.