Blaðamannafundir dagur fjögur


FÁSES.is heldur áfram að fjalla um það sem fram kemur á blaðamannafundunum eftir æfingar keppenda í dag. Dagurinn hjá keppendum sem æfa í dag hefst á hálftíma inneyra æfingum baksviðs. Þá halda keppendur upp á stóra sviðið þar sem þeir fá æfingu í hálfa klukkustund með útsendingarteyminu. Eftir sviðsæfinguna fá keppendur að sjá atriðið sitt á tuttugu mínútu löngum fundi í áhorfs herberginu. Að honum loknum er fundur með smink ráðgjöfum. Samfélagsmiðlar Eurovision eiga svo stefnumót með keppendum í 35 mínútur og í lokin er svo blaðamannafundur í tuttugu mínútur þar sem blaðamenn fá að kynnast keppendum nánar.

Í þessum pistli munum við fara yfir það helsta frá blaðamannafundum dagsins. Pistillinn verður uppfærður eftir því sem líður á daginn. Löndin sem æfa í dag eru Georgía, Pólland, Malta, Ungverjaland, Lettland, Svíþjóð, Svartfjallaland, Slóvenía og Úkraína.

Georgía – Ethno-Jazz Band Iriao

Iriao voru fyrstir til að vera valdir til að taka þátt í Eurovision 2018 en síðastir til að tilkynna um lag sem var valið fyrir keppnina. Lagið er á georgísku en titill lagsins er á ensku. Iriao segja að það sé mikilvægt að vera góðir fulltrúar fyrir fallega georgíska tungumálið. Bandið telur átta manns en þeir eru fimm á sviðinu í Eurovision. Það var leiðtogi bandsins sem ákvað hverjir fengu að standa á sviðinu hér í Lissabon. Nafn bandsins, Iriao er georgískt jóðl og lagið er byggt á frægu georgísku ljóði. Einn úr bandinu er mikill Eurovision aðdáandi og segir að það besta við keppnina sé fjölbreytnin og hún sé frábært tækifæri fyrir listamenn því rödd þeirra fær að njóta sín á stóru sviði. Bandið hefur ferðast vítt og breytt um heiminn og flutt tónlist sína. Það sem stendur upp úr að þeirra mati er risastórt jazz festival sem þeir komu fram á í Indónesíu. Í lok blaðamannafundarins fáum við að heyra órafmagnað tóndæmi frá Ethno-Jazz Band Iriao.

Pólland – Gromee feat. Lukas Meijer

Söngvarinn Lukas er frá Svíþjóð en Gromee er frá Póllandi. Lukas og ein bakraddasöngkonan eru klædd náttsloppum á blaðamannafundinum því farangur þeirra týndist í á leiðinni til Lissabon. Pólska teymið er greinilega þétt og þau segjast munu vinna saman eftir Eurovision. Fyrsta æfingin gekk vel að þeirra mati. Gromee og Lukas voru spurði hvort þeir myndu frekar vilja fá atkvæði dómnefnda í Eurovision eða almennings. Lukas segir þeir séu að reyna tengja við áhorfendur og þeir myndu vilja að viðstaddir upplifðu að þeir væru tónleikum. Hattar hafa verið áberandi hjá Póllandi í ár og á Gromee 30 hatta í klæðaskápnum og Lukas 15 (sumir þeirra í týnda farangrinum!). Í pólska atriðinu er frekar sérstakur dans sem margir líktu við snákadans en að sögn farastjóra hópsins er þetta öldudans. Lukas samdi Light Me Up þegar hann átti erfitt og vildi tjá sig í gegnum tónlist. Í undankeppninni í Póllandi breyttist síðan lagið í annað og meira og varð jákvæðara.

Malta – Christabelle

Christabelle sneri aftur í maltnesku forkeppnina og með þetta líka hörkulag sem m.a. er samið af Thomas G:son (sem er hér í Lissabon!). Það var draumur Christabelle að vinna maltnesku undankeppnina, sannur heiður því mikil samkeppni ríkir um að verða fulltrúi Maltverja í Eurovision. Thomas G:son hrósar Christabelle fyrir mikla fagmennsku en það tók einungis tvo klukkutíma að koma laginu Taboo saman. Forseti Möltu er nýbúin að útnefna hana sem sendiherra jákvæðni og stefnir hún að vinna að því verkefni eftir keppnina. Eins og margir vita fjallar lagið um manneskju sem stríðir við andleg veikindi og leggur Christabelle mikla áherslu á að það sé ekki tabú, eða skömm að því, að leita sér hjálpar vegna andlegra veikinda. Christabelle undirstrikar þetta með því að styðja einnig við réttindabaráttu samkynhneigðra og vekur það hrifningu á blaðamannfundinum. Christabelle segir að það sé skemmtilegt að vera komin til Lissabon á Eurovision því hér sé svo stórt svið, flott ljós og frábær aðstaða. Farastjóri maltneska hópsins hnýtir þá í sína konu og spyr hvort maltneska keppnin hafi ekki verið nógu góð fyrir hana. Christabelle leiðréttir sig snarlega og segir okkur frá því að Maltverjar myndu sko ekki verða í vandræðum með að halda eins og eitt stykki Eurovision.

Ungverjaland – AWS

Fimmenningarnir í AWS byrja blaðamannafundinn á að taka sjálfu með stjórnanda blaðamannafundarins og segja það algjörlega nauðsynlegt að setja upp þungarokksandlit við sjálfutökur og bæta smávegis öskri við. AWS eru týpískt skólaband og hafa spilað saman í 12 ár. Þeim kemur greinilega vel saman! AWS stendur fyrir marga mismunandi hluti og þegar þeir eru spurðir gefa þeir allir sitthvora skýringuna. AWS taka órafmagnaða útgáfu af laginu sínu og segja að það sé gaman að vera á Eurovision – þar séu allir aboard! Það vakti athygli að söngvari AWS var berfættur á æfingunni áðan og hann segist hata “fótafangelsi” og því kemur hann alltaf fram berfættur. Það er crowdsurfing í laginu og AWS segist ekki munu eiga erfitt með því það það er svo vel æft. Söngvarinn er að sjálfsögðu spurður hvernig hann haldi röddinni góðri með öllum þessu öskrum. Hann segir að öskrin séu sérstök raddtækni og í raun auðveldara að öskra en syngja. En hann sefur mjög mikið, drekkur mjög lítið áfengi og hleypur í ræktinni á hótelinu til að halda röddinni í góðri æfingu. AWS enda blaðamannafundinn á að syngja brot úr sigurlagi Finna frá 2006 – en ekki hvað!

Lettland – Laura Rizzotto

Laura er af lettneskum og brasilískum uppruna, fæddist í Rio de Janeiro og talar því reiprennandi portúgölsku. Hún býr í New York og hefur því flengst á milli heimsálfa í undirbúningnum fyrir Eurovision. Laura er að læra lettnesku núna og er stolt af af uppruna sínum. Lagið Funny Girl, sem Laura samdi, er um stelpu sem fellur fyrir besta vini sínum sem hún fær alltaf til að hlægja. Loksins herðir hún sig upp og segir honum hug sinn til hans en hann verður ástfanginn af annari stelpu. Því endar söguefni lagsins sem “funny girl”. Það hefur vakið athygli að Laura gefur hljóðfærum sínum nafn og á hún til dæmis gítarana Shelby og Haley sem hún faðmar reglulega. Laura býr til góða stemningu á blaðamannafundinum með því að kenna öllum viðstöddum að sveifla hárinu eins og hún gerði á æfingu í dag.

Svíþjóð – Benjamin Ingrosso

Benjamin er mættur til Lissabon og ljósabekkurinn sem hann var með í Melodifestivalen hefur nú verið smíðaður í Portúgal og komið fyrir á Eurovision sviðinu. Eins og Eurovision aðdáendum er vel kunnugt tók Benjamin þátt í Melodifestivalen í fyrra með lagið Good Lovin’ en með Dance You Off skemmtir hann sér betur og er ekki eins stressaður. Benjamin þykir mest gaman að elda í frítíma sínum og að sögn fararstjóra sænsku sendinefndarinnar borðar hann rosalega mikið – en það sjáist aldrei utan á honum! Benjamin er spurður hvað hann gerir rétt áður en hann fer á svið og hann biður, biður um að hann njóti þess að vera á sviðinu. Á æfingunni í dag var hann í aðeins öðruvísi fatnaði en í úrslitum Melfest og Benjamin segir að sviðsbúningurinn sé samvinnuverkefni með HM. Benjamin segist hafa orðið ástfanginn af Bee Gees þegar hann var lítill og horfði á Saturday Night Fever – hann vildi verða John Travolta með skarð í höku og allt! Falsettan í Dance You Off er líka innblástur frá Bee Gees. Benjamin tekur bæði brot úr laginu sínu og How Deep Is Your Love. Móðir Benjamins er Pernilla Wahlgren en hún hefur tekið þátt í Melodifestivalen fimm sinnum. Árið 1985 tók hún þátt með lagi sem margir Eurovision aðdáendur þekkja, Piccadilly Circus, en dansararnir í því atriði eru frændi Benjamin og faðir hans. Benjamin segir að hann hefði aldrei fæðst ef ekki hefði verið fyrir Melodifestivalen!

Svartfjallaland – Vanja Radovanovic

Vanja er greinilega mjög mikill grínari því hann byrjaði blaðamannafundinn í dag á því að segja að hann væri algjörlega frábær en hann væri í smávegis vandræðum með bakraddasöngkonurnar (þær eru frá Serbíu)! Blaðamenn hér í höllinni skelltu vel upp úr. Vanja hefur verið viðriðinn tónlistarbransann í fjórtan ár en hann er 36 ára gamall. Hann hefur aldrei dreymt um að taka þátt í Eurovision – honum leiddist bara í lífinu og ákvað þess vegna að taka þátt í undankeppninni heima fyrir. Albanska og belgíska lagið eru í sérstöku uppáhaldi hjá Vanja þetta árið. Vanja segir frá því að hann sé ekki vanur að syngja ballöður en þar sem hann er svo fjölhæfur geti hann gert hvað sem er! Eins og fyrr segir var Vanja hrókur alls fagnaðar á blaðamannafundinum og reytti af sér brandarana og það er greinilegt að svartfellska sendinefndin er að skemmta sér vel með honum.

Slóvenía – Lea Sirk

Lea fer á kostum hér í blaðamannahöllinni í Lissabon og tekur Amar pelos dois á portúgölsku fyrir viðstadda. Lea er alls ekki ókunn Eurovision því hún var bakraddarsöngkona Slóveníu 2014 og 2016 og þess vegna sé auðveldara að koma núna í keppnina sem aðalsöngkona. Lea á tvö börn undir fimm ára og að hennar sögn vita þau að þau eigi skrýtna móður. Eldra barnið hennar kvartaði m.a. yfir því við hana að rétta lagið hefði ekki unnið undankeppnina í Slóveníu! Lea segir okkur einnig frá því að bleika hárið hafi verið mistök, það átti að vera rautt en það hafi ekki farið vel við hörundslit hennar. Lea er söngkennari í heimalandi sínu og lærður flautuleikari. Svolítið óvænt gerist í slóvenska atriðinu í ár og segir Lea frá því að það sé stundum erfitt fyrir Slóveníu að standast samanburðinn við önnur Eurovision framlög svo þau eru ánægð með að vera með eitthvað sérstakt. Í lok lagsins Hvala, ne! segir Lea “Obrigada nao” sem þýðir nei takk á portúgölsku en fyrir því er engin sérstök ástæða segir Lea, hana langaði bara til að gera það!

Úkraína – Melovin

Melovin notast við túlk á blaðamannafundinum í dag. Stjórnandi fundarins segist vilja gera samning við Melovin um að ef hann vinni þá vinnu Portúgal árið eftir í Úkraínu. Melovin er leiklistarmenntaður og það sést greinilega í atriðinu hans í dag sem býður upp á svakalega sýningu. Melovin fær mörg bréf frá aðdáendum sínum, Meloviners, sem honum finnst sérstaklega skemmtilegt. Sá sem annast sviðsetningu Úkraínu setti upp atriði Jamala árið 2016. Lag Jamala var mjög djúpt en lag Melovin í ár er meiri sýning og þau vilja sýna tilfinningar hans í tónlistinni. Þetta er í fyrsta sinni sem Melovin syngur á svona stóru sviði eins og er í Eurovision. Lag Melovin heitir Under The Ladder og þar sem töluverð hjátrú er tengd því að ganga undir stiga er hann spurður hvort hann sé hjátrúarfullur. Melovin svarar því til að hann sé ekki sviðshræddur.