Fjórði dagur æfinga í Lissabon


Í dag er fjórði dagur æfinga í Lissabon og við sjáum restina af lögunum sem keppa í seinni undankeppninni 10. maí. Eftir daginn eigum við bara eftir að sjá stóru þjóðirnar fimm og Portúgali á sviðinu sem fara beint í úrslitin. Þau sjáum við á fyrstu æfingunni á föstudaginn.

Í þessum pistli munum við fara yfir það sem helsta frá æfingum í dag. Þessi færsla verður uppfærð eftir því sem æfingum vindur fram hér í Altice Arena.

Georgía – Giorgi Tsaava syngja For You

Mynd: Giorgi Tsaava

Fimmenningarnir í Ethno-Jazz Band Iriao eru með hefðbundna sviðsetningu fyrir lagið sitt For You. Í bandinu eru þrír söngvarar, einn gítarleikari og einn spilar á skemmtara (svolítið eins og Geirmundur Valtýsson nema bara mínus sveiflan). Lýsingin er blá og rauð og það verður að segjast eins og er að ekki mikið gerist á sviðinu. Söngurinn hjá Ethno-Jazz Band Iriao er þó frábær eins og við var að búast. Sviðið nýtur sýn vel í atriðinu sem í byrjun er fullt af reyk sem hverfur þegar líður á atriðið sem endar með flugeldafossi eins og Emmelie var með í sínu siguratriði 2013.

Pólland – Gromee feat. Lukas Meijer syngja Light Me Up

Mynd: Aga Rzymek

Á sviðinu er risavaxið plötusnúðsbúr sem Gromee er staðsettur í allan tímann dansandi ölduhandadansinn. Á sviðinu eru líka söngvarinn Lukas, gítarleikari og þrjár bakraddir. Lukas hefur skilið gítarinn sinn eftir í Póllandi og Gromee virðist minna þurfa að þeyta skífum hér heldur en heima í Póllandi og dansar öldudansinn meira. Bakraddirnar eru litlu nær því að vita hvað þær eiga að vera að gera á sviðinu heldur en í undankeppninni í Póllandi og líta út fyrir að hafa verið rifnar upp á svið rétt fyrir útsendingu. Lagið er vel sungið en það mætti heyrast meira í bakröddunum. Við sjáum ekki betur en að klæðnaður keppenda sé sá sami og í undankeppninni í Póllandi.

Malta – Christabelle syngur Taboo

Mynd: Steven Levi Vella

Það er ekki vandamál fyrir Maltverja að það séu engir led skjáir á sviðinu í Lissabon, þeir mæta bara með sína eigin led skjái á sviðið. Við fáum að sjá grafík á skjánum sem kemur yfir myndina sem var ekki alltaf á réttum stað á æfingunum í dag og það verður mikið af logum í atriðinu sem skjótast upp á ótrúlegustu stöðum. Þegar líður á lagið bætist dansari inn á sviðið sem að er mest í skugga frá Christabelle og mikil synd hvað dansarinn fær lítið að njóta sýn í mynd.  Christabelle hefur fengið lánaða lasergeislana hennar Svölu, en það verður að segjast að þeir komu mun betur út í atriðinu hjá Svölu. Það lítur út fyrir að það sé kominn upp örvænting í maltneska hópnum og að það er allt reynt til að fanga athygli áhorfenda en það kemur svolítið kaótískt út. Rödd söngkonunnar nýtur sín ekki vel í flutningnum og raddlega séð er þetta ekki sterkasti flutningurinn.

Ungverjaland – AWS syngja Viszlát Nyár

Mynd: Nikolett Kaszner

Atriði ungversku þungarokkhljómsveitinnar AWS, sem er gríðarlega þekkt í heimalandinu, er mjög týpískt rokk atriði. Þeir komast mjög snyrtilega frá þessu og eru sannfærandi í flutningnum. Það verður grillveisla á sviðinu þegar öll flugeldasýningin fer í gang, gott fyrir áhorfendur í salnum að mæta léttklæddir fyrir þetta atriði. Gítarleikari hljómsveitarinnar kastar sér út í áhorfendaskarann og crowd surfar um salinn. Sannkölluð veisla fyrir rokkunnendur. Athygli vekur rauða hárbandið sem aðalsöngvarinn er með sem líkist mjög hárbandinu hans Eyfa frá 1991.

Lettland – Laura Rizzotto syngur Funny Girl

Mynd: Pedro Cantizani

Laura er í rauðum kjól á sviðinu eins og í undankeppninni heima en sá sem hún klæðist hér í Lissabon er mun fínni og klæðir hana vel. Kjóllinn er stuttur að framan og síður að aftan. Kjóllinn nær niður í gólf og hún dregur hann á eftir sér eftir gólfinu – spurning hvort hún geti lánað makedónísku söngkonunni bút af kjólnum þar sem það virtist vanta neðsta partinn á bakhlutanum á kjólnum hjá þeirri makedónísku. Atriðið er í grófum dráttum alveg eins og í undankeppninni heima í Lettlandi fyrir utan að nokkrum myndavélaskotum hefur verið breytt og nokkrum hreyfingum breytt. Söngurinn er mjög öruggur og atriðið mjög klassískt og snyrtilegt.

Svíþjóð – Benjamin Ingrosso syngur Dance You Off

Mynd; Anton Björkman

Benjamín er búinn að láta byggja fyrir sig ljósabekk hér í Lissabon eins og hann var með í Melodifestivalen. Hann er í hvítum skóm núna og í jakka sem er í réttri stærð. Jakkinn helst á honum allan tímann og dettur ekki niður axlirnar. Auðvitað er söngurinn frábær og allt mjög fagmannlegt hjá frændum okkar Svíjum.

Svartfjallaland – Vanja Radovanovic syngur Inje

Mynd: Djordje Zivaljevic

Vanja hefur ákveðið að skilja strengjakvartettinn eftir heima í Svartfjallalandi og með honum á sviðinu eru fjórar bakradda söngkonur og píanisti. balkanski þjóðbúningurinn sem Vanja var klæddur í þegar hann keppti í Montevizija hefur verið skipt út fyrir ljósblá glimmer jakkaföt. Við vonum að Svartfellingar sendi eftir gömlu jakkafötunum heim því að þau litu mun betur út og hæfðu laginu betur. Atriðið lítur núna út eins og að einhver hafi sent balkanskt lag í Melodifestivalen (ekki góð blanda). Páll Óskar myndi sóma sér vel í þessum jakkafötum að syngja Betra líf. Það virtist eitthvað stress í Vanja því hann byrjaði að syngja of snemma tvisvar á æfingunni í dag og þurfti að byrja lagið upp á nýtt í bæði skiptin vegna þess. Söngurinn var mjög góður þegar Vanja byrjaði að syngja og lagið hljómar vel.

Slóvenía – Lea Sirk syngur Hvala, ne!

Mynd: RTVSLO/Ana Gregorič

Veit ekki hvort að slóvenska söngkonan er með pólitískan áróður gagnvart hvalveiðum Íslendinga (hvali, nei) eða sé að syngja á sænsku um að hún vilji ekki komast í úrslit Eurovision (kvala nej). En þvílík veisla sem Slóvenir bjóða upp á fyrir okkur hér. Atriðið er lítið breytt frá því í undankeppninni heima fyrir. Gluggakarmarnir sem dansararnir voru með komu ekki með til Lissabon. Lea notar rampinn á sviðinu. Klæðnaðurinn hefur líka breyst og Lea er í samfellu og sokkabuxum. Þegar 2 mínútur eru liðnar af laginu tekur lagið óvænta stefnu – við viljum halda spennunni og lofum ykkur frábærri skemmtun! Lea fær frábærar viðtökur hér í blaðamannahöllinni og klappað með laginu hennar.

Úrkaína – MELOVIN syngur Under The Ladder

Mynd: Oleksandr Vansovych

Atriðið byrjar þar sem Melovin liggur á botni kistu á sviðinu, kistan opnast eftir smá stund og Melovin rís upp úr kistunni eins og Drakúla. Þá kemur í ljós að kistan er stödd á stórum palli sem hann labbar niður af og niður á svið. Melovin er klæddur í sömu föt og í undankeppninni heima í Úkraínu og með hvíta linsu í hægra auganu. Í miðju laginu fer Melovin aftur upp á pallinn en í staðinn fyrir kistuna er kominn flygill á toppinn á pallinum. Það hægist á laginu og MELOVIN byrjar að spila á flygilinn og það kviknar í stigianum upp á pallinn .